Veður: 9,8°/16,3° úrkoma 50 mm. Rigning í allan dag.
Í dag fórum við til Aveiro og keyptum laust drif til að nota við tölvuna hennar Þórunnar, því hún er komin með svo mikið af myndum og örðum gögnum í tölvuna, sem rétt er að eiga afrit af annars staðar.
Á heimleiðinni ókum við meðfram Vouga ánni þar sem hún rennur um láglendi og þar þarf vatnsborðið í ánni ekki að hækka nema um fimmtíu sentímetra til að ná upp á veginn sem við ókum eftir. Ég get vel ímyndað mér að vegurinn verði kominn undir vatn á morgunn, því það er búið að rigna í allan dag.
Eitthvað er bogið við þetta nýja drif sem við keyptum, eða þá okkur, því okkur tekst alls ekki að fá það til að vinna. Við erum búin að reyna að tengja það við báðar tölvurnar, en án árangurs, svo það er víst ekki annað að gera en fara aftur í verslunina og fá þá til að reyna þetta og leiðbeina okkur ef við höfum ekki farið rétt að við að tengja þetta. En það á ekki að þurfa að gera annað en setja þetta í samband og byrja svo að vinna.
Í kvöld horfðum við á klukkustundar langa mynd í sjonvarpinu hér um náttúru Íslands. Saga landsins frá landnámsöld var fléttuð inn í myndina. Þessi mynd er örugglega framleidd á Íslandi, en það var búið að talsetja hana á portúgölsku.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli