24 desember 2006

Gleðileg jól

Veður: -2°/15,3° heiðskýrt.

Eins og ég minntist á í gær var ég farinn að hafa verulegar áhyggjur af því að jólakötturinn næði að setja klærnar í hana Þórunni mína, því ég var ekki búinn að kaupa neina jólagjöf handa henni og treysti mér ekki til að velja neitt upp á eigin spýtur og Þórunn var ekki tilbúin að velja neitt handa sjálfri sér, svo þetta var eiginlega að stefna í mesta óefni.
Hvort hún hefur verið farin að heyra hvæsið í jólakettinum veit ég ekki , en allavega var hún tilbúin að koma í verslunarferð í morgunn og velja sér gjöf.
Ég minnist þess ekki að hafa áður farið út á aðfangadag til að kaupa jólagjafir, svo þetta var bara góð tilbreyting. Það var margt um manninn í verslunum hér í allan dag, enda hefst hátíðin hér ekki fyrr en um miðnætti, svo það eru engin helgispjöll að hafa verslanir opnar fram á kvöld.
Það blessaðist að finna gjöf, svo þungu fargi var af mér létt, en jólakötturinn sem var farin að brýna klærnar er að sama skapi vonsvikinn býst ég við.

Graca og Artur voru búin að bjóða okkur í mat til sín í dag, svo við mættum þar þegar þau voru búin að fara til kirkju, en í kirkju fara þau hvern einasta sunnudag. Við borðuðum svo góðan mat hjá þeim og áttum mjög ánægjulega dagstund með þeim.

Eftir heimsóknina hjá Graca fórum við aftur í verslunarleiðangur, því nú var Þórunn komin á bragðið og fékkst til að koma í Bodyshop og þar tókst að finna smáræði til að bæta við jólagjöfina.
Þegar við vorum þarna var klukkan farin að ganga fimm, en enn var mikil ös í verslunum, enda veðrið mjög gott og gaman að rölta milli verslana.

Nú er kominn tími til að snúa sér að jólahaldinu, því segi ég við þig sem lest þessar línur. Gleðileg jól.

Í jólamat hjá Graca og Artur

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gleðilega hátíð. Það snjóaði smá í nótt svo nú er aðeins meiri jólasvipur yfir öllu hér.

Bestu kveðjur frá okkur öllum á Laugalæk 12.