10 desember 2006

Lokuð leið.

Veður: 0,3°/15,5° heiðskírt, en dálítil þoka fyrst í morgunn.

Í gær brugðum við okkur af bæ á bílnum og fórum sem leið liggur eftir þjóðvegi N 16 hér upp úr dalnum og eins og svo oft áður þegar farið var yfir brúna á Caima ánni var því gefið auga hversu hátt vatnsborðið í ánni væri, en það hefur verið talsvert breytilegt í rigningunum að undanförnu. Að þessu sinni var áin bara bakkafull.
Þegar við svo komum að brúnni rúmum klukkutíma síðar og ætluðum yfir hana á leiðinni heim var lögregla á veginum sem lokaði aðgangi að brúnni, en vísaði okkur á að fara í gegnum þorpið í Vale Maior yfir brú sem er kölluð gamla brúin, en þessi vegur í gegnum þorpið liggur um þröngar og bugðóttar götur.
Við vorum að tala um það okkar á milli að það hefði sennilega orðið slys í námunda við brúna og leiddum ekki hugann frekar að þessu.
Í gærkvöldi vorum við svo boðin í hús hér í dalnum og þá var okkur sagt að það hefði grafið undan einum stöpli brúarinnar og það væri búið að loka henni þar til viðgerð hefði farið fram.
Þessi brú mun vera nálægt eitthundrað ára gömul.
Það eru ekki nema þrjátíu ár síðan um þennan veg lá mikið af umferðinni frá vesturströnd Portúgals til Spánar, en nú er kominn nýr vegur sem leysti þennan af hólmi.
Við fórum í góða veðrinu í dag og tókum myndir af brúnni, ég reyni að setja eina af þeim myndum með þessum pistli, en svo eru fleiri myndir á myndasíðunni minni.
Hvort ástæðan fyrir því að það grefur undan stöplinum nú eftir að hafa staðið af sér stórflóð og vatnsleysi til skiptis í eitthundrað ár gæti verið sú að fyrir tveim árum var farvegurinn í nánd við brúnna hreinsaður og rýmkaður aðeins, skal ég ósagt látið. Það hefur ekki komið almennilegt flóð í ána síðan farvegurinn var hreinsaður fyrr en nú.

Engin ummæli: