Við fórum í leikfimi í morgun, ekki veitti af eftir sukkið á litlu jólunum í gær.
Ég var held ég búin að minnast á að við hefðum verið að skoða þrekæfingatæki til að hafa hér heima. Nú vorum við búin að ákveða að fjárfesta í slíku tæki, svo við fórum til Aveiro til að skoða markaðinn betur. Fórum í stóra íþróttavörubúð það sem var talsvert úrval af tækjum eins og við vorum að spá í. Þau tæki voru portúgölsk og í þeirri verslun var þeim tækjum talið það helst til tekna að það væri ekki langt að senda þau, ef þau þyrftu viðgerðar við. Einhvern veginn treystum við ekki almennilega á vörugæði portúgölsku framleiðslunnar, svo við völdum frekar að eiga viðskipti við verslun sem var með frönsk tæki, en framleidd í Kína. Það er að vísu nokkuð langt að fara til að fá tækið viðgert ef það þarf að fara með það til framleiðslulandsins.
Ég kalla þetta tæki skíðagönguvél, því það er staðið á því og gengið um leið og haldið er í stangir, sem eru hreyfðar eins og skíðastafir. Þannig að það fæst talsvert mikil hreyfing á allan skrokkinn þegar þetta tæki er notað.
Nú er bara eftir að sjá hversu duglegur maður verður við að nota þetta tæki, en það var keypt í þeirri góðu trú að letin réði ekki of miklu, en hún er lunkin að ná sínu fram, þrátt fyrir góðan vilja hjá manni til að snúa á hana.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli