Ég slapp svo vel frá því í gær þegar keyrt var á mig að ég hef verið að velta því fyrir mér í dag hvort ég gæti ekki verið gott efni í áhættuleikara, bara að stunda það að lenda í árekstrum. Að athuguðu máli held ég að ég sleppi þessu, það er engan veginn víst að ég slippi svona vel frá slíku í annað sinn. En ég er ágætur í svona lagað að því leyti að ég held alveg ró minni á meðan á þessu stóð og gerði það sem í mínu valdi stóð til að sleppa sem best frá þessu og varð ekki einu sinni skelkaður eftir á.
Verkefni dagsins var að hreinsa í burtu mosa og gróður af þakinu á húsinu hérna, en slíkt þarf að gera einu sinni á ári. Það var ekki amalegt að sitja upp á þaki í veðurblíðunni í dag og bursta óhreinindin í burtu.
Síðdegis brugðum við okkur svo niður að strönd og fórum í röskan göngutúr á hafnargarði sem þar er. Það er svo frískandi að vera á gangi þarna og hlusta á niðinn í sjónum. Það er oftast talsvert af fólki á gangi þarna og einnig er þarna mikið af veiðimönnum með langar og miklar veiðistangir. Eins og ég sagði förum við nokkuð oft í gönguferð á þessum hafnargarði og þá eru alltaf einhverjir að reyna að veiða, en aldrei hef ég séð þá fá bein úr sjó, svo maður gæti haldið að þeir væru bara að æfa köst.
Með þessum pistli læt ég fylgja mynd af lítilli en fallegri rós, sem Þórunn færði mér úr garðinum í morgunn.
1 ummæli:
Elsku Palli ég er bara búin að kynast mest rigningu og kulda hér síðan við flutum hinga kudi og aftur kuldi Rósa
Skrifa ummæli