Veður: -3,3°/14,4° heiðskýrt.
Í gærkveldi vorum við boðin til Patriciu og Rui, við áttum notalega stund með þeim. Þau búa í nýlegri dæmigerðri blokkaríbúð á þriðju hæð. Eina upphitunin í íbúðinni er viðarofn í arinstæði í stofunni, það var rétt nægilega heitt þar inni af því við vissum á hverju við áttum von og vorum því vel búin. Annars staðar í íbúðinni var jökulkuldi.Það er ótrúlegt að það skuli vera kominn tuttugasta og fyrsta öldin og það er verið að bera brenni neðan úr kjallara upp á þriðju hæð og hafa ekki yl nema í einu herbergi, en svona er þetta bara og fólk lætur sig hafa þetta.
Við vorum leyst út með gjöfum þegar við fórum. Patricia gaf Þórunni mynd sem hún var búin að sauma út, en hún er mjög mikil hannyrðakona. Ég fékk flösku af góðu Portvíni, sem ég vona að einhver hjálpi mér við að koma í lóg, því ég er vægast sagt mjög lítið gefin fyrir drykkju enn sem komið er.
Eftir hádegi fórum við til Aveiro svona rétt til að upplifa einhverja Þorláksmessu stemmingu í búðum.Það var margt um manninn í bænum og í verslunum.
Við fórum heim án þess að finna jólagjöf handa Þórunni, svo það eru að verða ískyggilega miklar líkur á að jólakötturinn eigi eftir að klóra eitthvað í hana, en enn er von um að úrrætist.
Við heilsuðum upp á Pétur kunningja okkar í leiðinni, en hann býr í Aveiro.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli