26 desember 2006

Jóladagur

Veður: -2,7°/15,4° léttskýjað.

Þessi pistill átti að réttu lagi að birtast á jóladag, en þar sem við vorum boðin í heimsókn og komum ekki heim fyrr en um miðnætti kemur hann bara núna á annan í jólum.

Eftir hádegi í gær fórum við niður að strönd til að fara í gönguferð við hafið. Það var alveg blankalogn og sjórinn alveg spegilsléttur. Ég er oft búinn að vera þarna á ströndinni en minnist þess ekki að hafa séð sjóinn svona sléttan áður. Það voru nokkrir á rölti á hafnargarðinum ásamt okkur, en það sat þar enginn með veiðistöngina sína að þessu sinni.

Klukkan fimm fórum við svo í heimboð og af fenginni reynslu, þá fórum við í boðið í mjög hlýjum fatnaði.
Fjölskyldan sem við voru boðin til hafði verið í boði hjá bróðir konunnar og var því nýkomin heim þegar við komum, svo húsi var alveg jökulkalt þegar við komum.
Það var strax gengið í að kveikja upp í arninum, svo þeir sem næstir honum voru höfðu einhvern hita á þeirri hlið sem að eldinum snéri. Heimilisfólkið skiptis á um að fara að arninum og snúa sér þar til að fá hita á allann kroppinn.
Það var byrjað á að bjóða okkur kökur og þurrkaða ávexti.
Þau hjónin eiga tvær dætur og sú yngri sem er sextán ár hefur mjög gaman af að baka og stússast í matargerð.
Bróðir konunnar leit inn og færði heimasætunum á bænum sitthvora bókina i jólagjöf.
Síðar kom svo systir húsbóndans ásamt tveim dætrum þeirra og einum mjög litlum hundi. Þau stoppuðu stutt og þáðu engar veitingar, því þau voru að koma úr öðru boði.
Klukkan tíu var svo komið að því að borða kvöldmatinn.
Maturinn var í tveim leirfötum í öðru fatinu var lambakjöt og kartöflur, en í hinu fatinu var svínakjöt og kartöflur. Þetta var svona dæmigerð portúgölsk matreiðsla, búið að hafa kjötið í ofni i nokkra klukkutíma. Þegar búið er að sjóða kjötið svona lengi, er eiginlega komið af því kæfubragð svo það skiptir litlu máli af hvaða skepnu kjötið er, það er búið að tapa öllum séreinkennum.
Samt vilja dæturnar á þessu heimili frekar borða svínakjöt, en foreldrarnir halda meira upp á lambakjötið.
Eftirrétturinn var svo ávaxtabúðingur.
Nú fannst okkur vera komið nóg af áti þennan dag, en þá voru kökurnar settar á borðið og ætlast til að við tækjum til við þær á ný.
Það var aðeins fundið að því við okkur hvað við gerðum matnum lítil skil. Bóndinn hélt að ég hlyti að fara svangur frá þeim.
Það var greinilegt að bóndinn býr við mikið kvennaríki, honum veitti ekki af að fá fulltrúa frá einhverju jafnréttisráði til að sjá sína bágu aðstöðu á heimilinu.
Hann hefur gaman af að tala, en í hvert sinn sem hann reyndi að fá að taka þátt í samræðum var þaggað niður í honum.

Engin ummæli: