Þórunn notaði morguninn til að skreyta húsið fyrir jólin ja reyndar bæði úti og inni, því veröndin státar líka af jólaskrauti.
Það eru líklega liðnar um tvær vikur síðan ég sagði frá því að ég væri búin að slá grasflötina í síðasta sinn á þessu ári, en það var ekki rétt, því í dag fannst mér vera komið það mikið gras að það væri nauðsynlegt að slá einu sinni enn. Það er ekki amalegt að finna grasilm í lofti svona rétt fyrir jólin. Það eru sennilega ekki margir á Íslandi sem tengja saman grasilm og aðventu.
Graca vinkona okkar bauð okkur til sín í dag til að sýna okkur hvað veislukjallarinn sinn væri orðin flottur, en fyrsta veislan á að vera þar í kvöld.
Það var stolt húsmóðir sem sýndi okkur hversu fín aðstaða þetta væri.
Ég læt fylgja með mynd sem ég tók þarna í dag, en ég tek það fram að það var eftir að setja dúk á borðin þegar ég tók myndina. Það var meiningin að fólkið sitji við langborðið. Maturinn sem á að vera er keyptur af veitingahúsi og það borgar hver fjölskylda fyrir sig.
Venjan hefur verið sú að þessar fjölskyldur sem koma þarna saman í kvöld hafa farið saman á veitingahús einu sinni á ári, en þar sem Graca hefur yfir svona “fínu” húsnæði að ráða þótti tilvalið að nota það.
Fólk hér í landi kippir sér ekki upp við að sitja í kulda við að borða, því það er almennt lítið eða ekki kynnt í heimahúsum, helst er að það sé arinn í einu herbergi í hverri íbúð og mörg veitingahús eru án upphitunar enn, þó það hafi fjölgað talsvert núna á seinni árum þeim veitingastöðum sem hafa einhverja upphitun.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli