Veður:9,5°/23,3° að mestu léttskýjað.
Þórunn heldur ótrauð áfram við að mála, nú innandyra, í gær og í dag er hún búin að hressa upp á tölvuherbergið. Meðan hún sinnti málaravinnunni fór ég og lauk við að hreinsa arfann úr laukbeðunum. Það er raunar tæplega hægt að segja að ég hafi lokið við að hreinsa arfann, því það er að verða tímabært að fara næstu umferð um leið og þessari líkur.
Gólfteppið úr tölvuherberginu var sett út á hliðgrind og þvegið með háþrýstiþvottavélinni. Það sást enginn munur á því eftir þvottinn en gott að vita afþví hreinu.
Síðdegis heimsóttum við Grösu og þáðum kaffisopa og spjall. Hún leyfir okkur að fylgjast með undirbúningnum fyrir fermingarveisluna hjá dóttur þeirra. Nú er búið að stilla upp borðum í kjallaranum og næst er að sækja til okkar stóla sem við ætlum að lána þeim. Artur maðurinn hennar er búin að festa sjónvarpstæki upp á vegg í kjallaranum þar sem veislan á að vera, svo gestirnir geti notið sjónvarpsútsendingar á meðan þeir eru í veislunni.
Við ræddum þessi sjónvarpsmál við Grösu, því okkur finnst ekki eðlilegt að það skuli vera opið sjónvarp á hverju heimili þegar fólk kemur í heimsókn og að ætla veislugestum að sitja og horfa á sjónvarp, er einum of langt gengið. Graca var okkur sammála með þetta en bóndi hennar er mikill sjónvarpsfíkill, svo honum finnst nauðsynlegt að geta boðið sínum gestum upp á að horfa á sjónvarp á meðan þeir borða, sjálfur borðar hann aldrei matarbita án þess að horfa á sjónvarp á meðan hann borðar og dóttirin átta ára er á sama róli og Pabbinn.
Það er alveg ótrúleg þessi sjónvarpsdella hér í landi, það fyrirfinnst ekki svo ómerkilegt kaffihús hér í landi að þar inni sé ekki eitt eða tvö sjónvarpstæki í gangi og svipaða sögu er að segja af matsölustöðum, það telst til undantekningar ef ekki er opið sjónvarp á matsölustöðum.