Veður: 7°/23,9° nokkuð um skúraský á ferð um himinhvolfið í dag, en samt góðar sólarstundir þegar skýjin voru ekki að skyggja á sólina.
Á ferð okkar um Spán í fyrra keyptm við tvær littlar fánastangir til að festa á vegg, en framkvæmdasemin er nú ekki meiri en það að enn er ekki búið að koma því verk að festa þær á sinn stað. Það stóð meðal annars á því að finna hæfilegar skrúfur til að festa þær með, en einhvern veginn hefur alltaf gleymst að kaupa þessar skrúfur þó búið sé að fara ótal ferðir í byggingavöruverslanir frá því fánastengurnar voru keyptar. Í dag var ákveðið að gera bara ferð eftir þessum fjóru skrúfum sem vantaði, jú eftir nokkra leit í viðeigandi hillum í byggingavöruverslun fundust tíu skrúfur í poka ásamt plasttöppum, en svona í leiðinni fyrst við vorum komin í svona verslun var farið að svipast um eftir góðu vinnuborði fyrir Þórunni til að nota við umpottun og annað slíkt sem tengist garðinum. Það var til þarna mjög hentugt borð fyrir þetta, ósamansett í kassa, svo það var ákveðið að festa kaup á borðinu, einnig fundum við þarna gott útiljós sem okkur vanhagaðið líka um.
Semsagt við fórum til að kaupa fjórar skrúfur og fórum út með tíu skrúfur, eitt vinnuborð og eitt útiljós.
Þegar heim kom var farið að púsla grindinni að borðinu saman og það er að mestu búið, en eftir að setja saman skúffur og ganga frá borðplötunni og hillum, svo það verður fullt að gera á morgunn að ljúka við að koma borðinu saman, ætli það gleymist ekki að festa upp fánastangirnar?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli