Veður: 12,7°/37,6° heiðskýrt
Það var afmælisveisla hér í Austurkoti í dag Veislugestir auk okkar Þórunnar voru þau Geiri og Rósa, en við höfðum boðið þeim í hádegismat í tilefni þess að í dag eru fimmtán ár síðan ég flutti til Portúgal. Geiri og Rósa komu ekki tómhent, því þau færðu okkur gómsætar kökur til að hafa með kaffinu.
Steikin í hádeginu var íslenskur lambahryggur, sem þau Jónína og Guðmundur færðu okkur þegar þau voru hér á ferð í vor. Þórunn beitti einhverjum töfrabrögðum við matreiðsluna á hryggnum, svo hann bragðaðist mjög vel.
Þessi fimmtán ár hafa liðið ótrúlaga fljótt, þegar ég lít til baka.
Í maí 1991 var farið hingað til Portúgals með það fyrir augum að kaupa hús og setjast hér að til frambúðar, vegna þess að ég var orðinn sjónskertur og gat þar af leiðandi ekki unnið hvað sem var.
Það gekk vel að finna þetta hús sem við búum í enn í dag. Það hafði ekki verið búið í húsinu um tíma og það þurfti að gera á því miklar endurbætur svo það væri íbúðarhæft.
Það var samið við smið hér á staðnum um að gera endurbætur á húsinu og þeim átti að vera lokið þegar við flyttum hingað í ágústmánuði.
Það var maður hér í þorpinu sem tók að sér að fylgjast með framkvæmdum við húsið. Þegar það var haft samband við hann skömmu áður en lagt var af stað sagði hann að allt væri í lagi við skyldum bara koma eins og um var talað.
Þessi maður og kona hans sóttu okkur út á flugvöll og á heimleiðinni var farið að forvitnast nánar um hvernig vinnan við endurbætur á húsinu hefðu gengið. Þá kom það ótrúlaga í ljós að það var ekki byrjað að vinna við húsið og það var engan veginn íbúðarhæft eins og það var t.d. ekkert salerni og ekkert rafmagn hvað þá annað.
En þessi góðu hjón buðu okkur að búa hjá sér á meðan verið væri að vinna við húsið, sem við þáðum. Maðurinn gekkst svo í að koma vinnunni við húsið af stað og eftir einn og hálfan mánuð vorum við flutt inn, þó ekki væri öllum framkvæmdum lokið.
Svona var nú byrjunin á þessu ævintýri, en það fór vel að lokum eins og vera ber í góðum ævintýrum
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli