Í dag var á dagskrá að hjóla og hér þarf sjaldan að segja ef veður leyfir.
Ég ætlaði að fara venjulega leið hér inn Vougadalinn, en það er leið sem við förum nokkuð oft, enda mjög fallegt meðfram Vouga ánni. Meðfram veginum þarna liggur járnbrautarspor sem er löngu hætt að nota. Undanfarið þegar við höfum farið um veginn höfum við séð að það var eitthvað verið að hreinsa til á járnbrautarsporinu og vissum ekki hver tilgangurinn með því gæti verið, því örugglega átti ekki að fara að nota sporið fyrir járnbraut á ný.
Járnbrautarlínan liggur aðeins hærra en bílvegurinn sem ég var að hjóla á og í morgunn kom ég auga á fólk sem var á reiðhjólum þar sem járnbrautarlínan liggur. Eftir skamma leit fann ég veg sem búið er að leggja upp á járnbrautarlínuna fyrrverandi og þá kom í ljós að það er búið að hreinsa allan gróður meðfram línunni og setja möl ofan á teinana, svo nú er kominn þarna einbreiður vegur þar sem áður var járnbrautarlína. Ég er að gera því skóna að þetta eigi að verða hjóla og göngubraut í framtíðinni. Framkvæmdum er sjáanlega ekki lokið enn, sennilega er eftir að malbika ofan á þetta malarlag sem nú er komið þarna.
Það hefur verið mikið verk að leggja þessa járnbrautarlínu á sínum tíma, því þá voru ekki komin til sögunnar þær stórvirku vinnuvélar sem við þekkjum í dag. Í þá tíð hefur þetta allt saman verið unnið með handafli, hakað, mokað og fleygað. Sennilega notuð naut til dráttar fyrir vagnana.
Á þrem stöðum á þessari leið sem ég fór voru stutt jarðgöng, en annars staðar var eins og grafinn skurður fyrir línuna, eða þá að það var hlaðið undir hana úr grjóti. Allt hefur þetta verið vandvirknislega unnið.
Á einum stað á þessari leið er mjög stór og falleg brú yfir Vouga ánna og af brúnni er mjög fallegt útsýni yfir ána.
Ég tók nokkrar myndir, sem ég er búinn að setja í myndaalbúnið mitt á netinu.
Myndin hér fyrir neðan er af grjótvegg meðfram þessum nýja vegi.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli