11 ágúst 2006

Skógareldar

Veður 14,8°/43,9° heiðskýrt.

Jafnframt þessu mikla hita sem er þessa dagana hefur verið talsverður vindur, einkanlega um nætur, sem veldur því að allt er skrælþurtt og skógarnir góður eldsmatur, enda er mjög mikið um skógarelda hér í landi í sumar eins og undanfarin sumur.
Ég lagði það á mig að horfa á fréttir í sjónvarpinu í kvöld til að fá upplýsingar um hver staðan væri varðandi skógareldana hér í landi. Ég varð að bíða fréttatímann á enda til að fá fréttir af skógareldunum. Það hafði forgang að segja frá hryllingnum í Lybanon og meintum hryðjuverkum í flugvélum. Einnig var kennslustund um hvernig ætti að fara að því að búa til vökvasprengjur og koma þeim fyrir í flugvélum, að öllu þessu loknu var hægt að mynnast aðeins á skógareldana og hvernig gengur í baráttunni við þá.
Einn slökkviliðsmaður lét lífið í nótt í baráttunni við eldinn.
Nú síðdegis loguðu eldar á átján stöðum vítt og breytt um landið. Í gær var talið að það væru eldar á ellefu stöðum, svo þetta er síður en svo að lagast. Þó það takist að ráða niðurlögum elds á einum stað er bara kominn upp eldur einhvers staðar annars staðar. Það sorglega við þetta er að talsvert af þessum eldum er kveiktur vísvitandi, eða þá orsakast að gáleysi. Það er nú þegar búið að handtaka marga sem staðnir hafa verið að íkveikjum og þannig er það á hverju ári.
Það er ekki hægt að líkja skógareldum við neitt annað en náttúruhamfarir því eldurinn eirir engu sem á vegi hans verður.
Mikið af starfi slökkviliðsins fer í að koma í veg fyrir að hús og önnur mann virki verði eldinum að bráð og sem betur fer tekst það oftast nær þó aðstæður séu erfiðar. Eins og dæmin sanna leggja menn sig í mikla lífshættu við slökkvistörfin.
Með þessum pistli set ég eina mynd frá skógareldunum síðasta sumar, en þessi mynd var tekin hér heima við hús og sýnir eldana hinu megin í dalnum okkar. Sem betur fer var þorpið okkar samt ekki í neinni hættu.
Nú er eldurinn sem er næst okkur í um tuttugu kílómetra fjarlægð héðan, en það er nógu nærri til þess að loftið er reykmettað annað slagið og um tíma í gær var lítils háttar öskufall frá eldinum.
Í þessu skógareldum sem hér brenna er það fyrst og fremst botngróðurinn sem eldurinn er í, en trén sviðna bara en brenna ekki. Ef það væri sinnt um það sem skyldi að halda skógarbotninum hreinum væri mun auðveldara að fást við slökkvistarfið og minni hætta á skógareldum.

Engin ummæli: