09 ágúst 2006

Heitt og langt sumar.

Veður: 16,9°/40,3 heiðskýrt.

Ég man eftir því þegar ég var að lesa bækur, þar sem verið var að lýsa því hvernig langt og heitt sumar gæti leikið bæði menn og skepnur grátt.
Þá bjó ég á Íslandi og þar er erfitt að gera sér í hugarlund að sólin geti orðið svona heit og miskunnarlaus, því á Íslandi eru sólarstundirnar svo stopular og fremur sjaldgæft að sólin skíni frá morgni til kvölds í heilan dag, hvað þá marga daga í röð.
Eftir að hafa búið hér í Portúgal á ég auðveldara með að gera mér í hugarlund hvað sólin getur orðið heit og miskunnarlaus, ef ekki er hægt að skýla sér fyrir henni.
Þetta er svo sem ekkert vandamál fyrir forréttindamann eins og mig sem ekki þarf að vera að vinna úti í þessum hita, en getur þess í stað setið inni í loftkældu húsi, eða brugðið sér niður á strönd og notið svalans frá sjónum, Það gegnir öðru máli með þá sem verða að vinna úti við þessar aðstæður allan daginn, það hlýtur að vera erfitt.
Flest allir sem fá sumarfrí hér taka það í ágústmánuði, þegar heitast er í veðri. Þeir sem búa nálægt hafinu reyna að komast niður á strönd í svalara loft eins oft og hægt er, en það er bara lítill hluti íbúa landsins sem hefur tækifæri til slíks. Það eru samt nægilega margir til þess að það er erfitt að fá bílastæði í strandbæjunum í ágústmánuði
einkanlega um helgar.
Einn fylgifiskur þessa mikla hita og þurrks eru skógareldarnir, en þeir eru mjög erfiðir viðureignar við þessar aðstæður.
Það eru skógareldar á mörgum stöðum hér í landinu núna og gengur erfiðlega að ráða niðurlögum þeirra, ekki síst vegna þess að það hefur verið talsverður vindur með þessum mikla hita einkanlega um nætur.
Eftir svona langt og heitt sumar er erfitt að lýsa þeirri góðu tilfinningu sem fer um mann við að heyra fyrstu regndropa haustsins falla til jarðar.

Engin ummæli: