Veður : 13,4°/22,9° skúrir.
Eftir hitana sem verið hafa undanfarið er nú komin langþráð fyrsta rigning haustsins, það er meira að segja búið að rigna talsvert mikið og það sem betra er að það er spáð skúraveðrinæstu tvo daga. Það lítur allur gróður mikið betur út þegar búið er að skola rykið af honum, allir litir verða ferskari.
Þetta er líka örugglega langþráð hvíld hjá örþreyttum slökkviliðsmönnum sem eru búnir að berjast við skógarelda í langan tíma.
Við fórum í dag að kanna svæðið í fjallendinu hér fyrir ofan okkur, þaðan sem við sáum mikinn reyk fyrir nokkrum dögum, svo mikinn að það skyggði á sólu frá okkur séð um tíma. Það hefur brunnið þarna mjög stórt svæði. Eitt þorp sem við sáum hefur verið algjörlega umkringt eldi um tíma, en það er svo að sjá að það hafi tekist að bjarga öllum mannvirkjum.
Það hefur verið ömurlegt hjá íbúum þorpsins að fylgjast með eldinum nálgast úr öllum áttum og geta lítið gert annað en vona að slökkviliðinu tækist að verja húsin þeirra og sem betur fer tókst það í þetta sinn. Það voru notaðar flugvélar til aðstoðar slökkviliðinu á jörðu niðri.
Húsið á myndinni hér fyrir neðan á Íslendingur sem bjó hér í Portúgal í mörg ár, en hann er nú fluttur til Íslands á ný, en á húsið enn. Það brann skógurinn hringinn í kring um húsið, en húsið sjálft skaðaði ekki svo ótrúlegt sem það er.
Á neðri myndinni sér í húsið á milli brunninna trjáa.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli