Veður: 7,5°/32,1° heiðskýrt. Gola síðdegis.
Ég fór einn að hjóla í morgunn, því Þórunn er slæm í baki þessa dagana og þá er ekki gott að hristast á hjólinu og jafnvel fá einhverja óvænta sveiflu á bakið.
Svo Þórunn var heima að elda kjötsúpu og kjötið í súpuna var af “hamingjusömum” hana sem Matthild grannkona gaf okkur fyrir nokkru. Það er talað um verksmiðjuframleiðslu á kjúklingum og náttúrverndarsinnum finnst það slæm meðferð á kjúklingunum, vilja að þeir geti gengið um og kroppað í sig. Ég er ekki viss um að kjúklingunum hennar Matthild líði eitthvað betur en hinum, þó kjúklingarnir hennar geti spígsporað í illa þefjandi kofa og þurfi að berjast um matinn við aðra kjúklinga. Í stór framleiðslunni fá þeir sinn mat skammtaðan á ákveðnum tímum og það er þriflegt í kring um þá.
Svo er nú það með kjúklingana, á báðum stöðum að þeir hafa engan samanburð og vita ekkert um að tilveran getur verið eitthvað öðruvísi.
Aftur að hjólaferðinni minni, ég hélt sem leið lá upp í Albergaria. Þar var mjög fáferðugt, enda klukkan ekki nema tíu að morgni. Ég sá bara þrjár gangandi manneskjur , fyrst eldri dömu, raunar fann ég ilmvatns skýið af henni áður en ég kom auga á konuna sjálfa. Það svona flaug í gegnum hug minn hvort ilmvatnskammturinn ykist í einhverju hlutfalli við árafjöldann, því fleiri ár því meira ilmvatn. Síðan kom ég auga á tvo fullorðna menn á gangi og örfáir bílar voru á ferðinni, svo umferðin truflaði mig ekki. Það lá eiginlega við að það væri svolítið einmanalegt að ver á ferðinni.
Þegar ég kom í bæinn hans heilags lárviðarlaufs Jóa var sumt af götunum þar blómum skreyttar þ.e.a.s það var búið að leggja blóm á göturnar, en slíkt er gert þegar verið er að viðra líkneskin úr kirkjunum. Þá er farið með þau í skrúðgöngu.
Það leið heldur ekki á löngu þar til ég sá til skrúðgöngunnar, svo ég stöðvaði hjólið á meðan hún fór framhjá.
Fyrst komu einhverjir fánaberar með trúarleg tákn, þar á eftir var komið með tvö blómumskrýdd líkneski, sem fjórar manneskjur báru á börum á öxlum sér. Næstur í röðinni var svo sjálfur klerkurinn og yfir honum héldu fjórir menn einhverskonar himni, svo hans heilagleki þyrfti ekki að láta sólina baka sig eins og sauðsvartur almúginn í göngunni. Svo hefur hann sjálfsagt stigið í pontu þegar inn í kirkjuna kom og prédikað, að það væru allir jafnir fyrir guði sínum, eða eru sumir jafnari en aðrir? Ég get ómögulega skilið hvernig kirkja sem er að boða kærleik og jafnrétti getur látið svona lagað sjást.
Næstur í röðinni var svo almúginn, en að síðustu var svo stór lúðrasveit.
Næst kom ég svo við í bæ sem heitir Angeisa og eftir ilminum í lofti að dæma er þar mikill landbúnaður, sambland af súrheyi, fjósa og svínalykt, góður kokteill það.
Á bæjartorginu þarna eru nokkrir bekkir í skugga stórra trjáa. Á einum af þessum bekkjum sitja alta sömu fullorðnu mennirnir og eru sjálfsagt að segja sömu sögurnar í þúsundasta sinn. Á næsta bekk sat ungt par í keleríi. Ég sá elskhugann í anda eftir fimmtíu ár kominn á hinn bekkinn með jafnöldrum sínum að segja af sér frægðarsögur á meðan María hans sýslar við potta heima í eldhúsinu þeirra.
Þegar heim kom lagði ilminn af kjötsúpunni á móti mér út á hlað og Þórunni brást ekki bogalistin við eldamennskuna frekar en venjulega, því súpan var mjög góð.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli