04 ágúst 2006

Tröllasögur

Veður: 15,2°/39,9° heiðskírt. Í nótt og fram eftir degi var nokkuð sterkur vindur á okkar mælikvarða af landi.

Við vorum búin að ákveða í gær að fara í hjólatúr í morgunn, en aflýstum því vegna veðurs. Bæði var að það var talsverð gola og svo var líka heldur heitt strax í morgunn, svo þetta góða áform bíður betra veðurs.
Til að hreifa okkur eitthvað og komast af bæ fórum við niður til Aveiro og fengum okkur að borða. Á eftir matinn fórum við svo í búðarrölt og vorum að skoða eitt og annað hátt í þrjá tíma, en keyptum ekkert.

Grassa og Johana komu í heimsókn síðdegis. Það barst meðal annars í tal að okkur finnst börn hér í landi eiginlega vera of vernduð og að þau fái ekki að leika sér úti, eða yfir höfuð að aðhafast neitt upp á eigin spýtur. Grassa hafði þá skíringu helst haldbæra að það væru orðnar svo margar hættur alls staðar, jafnvel að börnunum gæti verið rænt. Hún náði ekki að sannfæra okkur um að þessi hætta væri það mikil að það væri réttlætanlegt að loka börnin inni. Það er ein stúlka átta ára gömul hér í nágrenninu og hún fær að fara frjáls hér um nágrennið eins og eðlilegt má telja og enn hefur hún ekki verið numin á brott.
Grassa er mikið fyrir að fá fólk til að samþykkja sínar skoðanir og svona til að hnykkja á hversu miklar hættur lægju í leyni alls staðar sagði hún okkur þessa mergjuðu sögu sem fer hér á eftir og hún trúir að sé dagsönn.
Síðdegis fyrir svo sem tveim árum var kona ein á gangi í úthverfi borga hér skammt frá þegar það stöðvar bíll við hlið hennar og svo er það næsta sem hún man að hún vaknar í baðkari fullu af vatni kældu með ísmolum og fljótlega eftir að hún rankar við sér kemur hún auga á blað með skilaboðum til hennar um að koma sér sem fyrst á sjúkrahús, því það sé búið að fjarlægja úr henni annað nýrað.
Þessari sögu trúir Grassa alveg og þó við værum að benda henni á að það væri æði margt í þessari frásögn sem ekki fengi staðist hélt hún fast við að þetta væri alveg dagsatt.
Við höfum líka heyrt fólk hér tala um að það gæti verið varasamt að fara inn á sjúkrahús, því það væri aldrei að vita nema læknunum dytti í hug að fjarlægja eitt og annað smálegt innan úr manni sem þeir gætu svo selt fyrir góðan pening.

Engin ummæli: