Veður: 11,5°/28,2° léttskýjað.
Það var frídagur hér í dag, enn einn helgidagur kirkjunnar. Eftir því sem ég komst næst er þessi dagur eitthvað tengdur Maríu mey. Í kaþólskri trú hlýtur það að létta lífið mikið hjá þeirra guði að hafa hana Maríu, því mér virðist fólk frekar ákalla hana en að vera að kvabbi í guði sínum. Hann er sjálfsagt bara ánægður með að hún skuli létta af honum einhverju af þessu amstri. Þetta gæti líka verið í stíl við heimilislífið hér, þar sem húsmóðirin þrælar myrkranna á milli án þess að karlinn rétti henni hjálparhönd. Fólk hér heldur ef til vill að það gildi sömu lögmál í efra og á heimilunum, bara um að gera að láta kerlinguna þræla nóg.
Nú er þessi hitabylgja sem verið hefur hér undanfarið gengin yfir og í dag var mjög þægilegt veður, gola og hæfilega heitt.
Nú þar sem þetta þægilega veður og frídagur fór saman var ákveðið að taka fram hjólin og fara í langan hjólatúr, svona í og með til að reyna að nudda af sér örfáum grömmum af yfirvigt sem eru að reyna að festa sig í sessi til frambúðar, en slíkt má að sjálfsögðu ekki eiga sér stað.
Það verður nefnilega alls staðar að borga fyrir yfirvigtina, í flugvélunum með beinhörðum peningum á staðnum, en þegar um yfirvigt á kroppnum er að ræða fær maður reikninginn sendan síðar í formi lélegri heilsu, en léleg heilsa kostar líka peninga og það sem verra er en að sjá af peningunum, því þar kostar hún líka þjáningar.
Þegar við vorum rúmlega hálfnuð með þennan 36 Km. hring sem við ætluðum að fara fór Þórunn að kvarta undan orkuskorti, enda kominn matartími. Nú til að reyna að bæta úr þessum eldsneytisskorti var ákveðið að svipast um eftir kaffihúsi, en það er sjaldan langt á milli kaffihúsa hér í landi. En það fór eins með þetta og þegar bíllinn er að verða bensínlaus þá finnst manni óralangt í næstu bensínstöð.
Heppnin var með okkur, því eftir tvo til þrjá kílómetra fundum við kaffi hús í litlu sveitaþorpi. Nafnið á kaffihúsinu var á skjön við staðsetningu þess, því það hét veiðikráin og því til áréttingar var einn veggurinn skreyttur með netstubb og björgunarhring.
Eins og títt er á svona stöðum í Portúgal sátu nokkrir karlar við barinn og gæddu sér á einhverjum mjöð og höfðu mjög margt og merkilegt að segja hver við annan.
Eins og líka er dæmigert fyrir svona staði var fjölskyldan að vinna þarna, foreldrar og dóttir þeirra á að giska sextán ára. Dóttirin var óvenjuhávaxin og mjög mörgum kílóum of þung, svo henni hefði ekki veitt að hjóla góðan spöl. Hún afgreiddi okkur með kaffið, en var greinilega alveg óvön, því hún hélt á bollanum í báðum höndum og einblíndi á bollan á meðan hún fetaði sig eftir gólfinu að borðinu okkar og það var alveg auðséð á svip hennar hvað henni létti mikið þegar henni tókst að koma bollanum á borðið án þess að dropi slettist á undirskálina.
Mamman kom svo örugg í fasi með samlokurnar handa okkur, á meðan á þessu stóð var pabbinn að bauka við að grilla kjúklinga í arni sem var í næsta herbergi. Sem sagt alt mjög heimilislegt.
Eftir að hafa fengið góða næringu og hvíld var ekkert að vanbúnaði að ljúka síðasta áfanganum heim.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli