18 ágúst 2006

Kaupmaðurinn á horninu

Veður: 14,5°/25,6° Skúraveður fram yfir hádegi, en þurrt síðdegis.

Barnaleikgrind inni í verslun, jú það sér maður oft þar sem seldar eru vörur fyrir ungabörn, en barnaleikgrind með ungabarni í, inni í verslun er ekki algeng sjón. Þetta var nú samt það sem bar fyrir augu okkar Þórunnar í dag þegar við áttum erindi inn í verslun kaupmannsins á horninu hér í dalnum. Þar var leikgrind úti í einu horni verslunarinnar og í grindinni var hjalandi og kát tíu mánaða hnáta að leika sér, á meðan Mamman, Pabbinn, Afinn og Amman voru að störfum í versluninni og stóra systir hefur væntanlega ekki verið langt undan.
Stóra systir sem nú er sjö ára er búin að ganga í gegnum þetta ferli sem sú litla sem var í leikgrindinni í dag er að byrja.
Mamma þeirrar stuttu var líka alin upp í þessari verslun og sömuleiðis bróðir Móðurinnar.
Ég þekki sögu þessarar verslunar ekki nema fimmtán ár aftur í tímann. Þá var verslunin á neðri hæð í gömlu íbúðarhúsi. Það voru seldar helstu nauðsynjavörur til heimilisins og í einu horni verslunarinnar var bar, þar sem hægt var að fá sér í staupinu.
Þá voru börn kaupmannshjónanna með þeim í versluninni allan daginn, ýmist í versluninni sjálfri eða á efri hæðinni sem notuð var sem vörulager.
Nú síðan líða árin og kaupmaðurinn byggir við verslunina og notar gamla húsið sem geymslu eftir að hann tók nýja húsið í notkun. Í nýja húsinu er stærri og betri bar en í þeirri gömlu.
Það er líka rúm fyrir meyra vöruúrval en áður. Nú er selt smávegis af fatnaði og lítið eitt af verkfærum auk heimilisvarnings sem verið var með áður.
Svo kemur þar í sögu kaupmannsfjölskyldunnar að dóttirin verður gjafvaxta og þá biður um hönd hennar kaupmannsonur úr þorpi ekki langt héðan. Nú þetta þótti góður ráðahagur svo hann fékk stúlkuna og að hætti hérlendra var haldin glæsileg brúðkaupsveisla þegar þau giftu sig.
Skömmu áður en meyjan gifti sig var nýja verslunin tekin í notkun og þá kom tvennt til, meyra að gera í versluninni með meira vöruúrvali og líka vildu kaupmannshjónin fara að hafa það ögn náðugra en áður, svo það varð að ráði að tengdasonurinn kæmi líka til starfa í versluninni. Að sjálfsögðu hafði dóttirin hjálpað foreldrum sínum við afgreiðslu í búðinni frá því að hún náði að teygja sig upp á búðarborðið.
Að hæfilega löngum tíma liðnum frá brúðkaupinu fæddist stúlkubarn, sem stórfjölskyldan hjálpaðist að við að gæta meðfram vinnunni í versluninni og nú er sagan sem sagt að endurtaka sig.
Myndin hér fyrir neðan er af litlu stúlkunni í leikgrindinni, en ef smellt er á krækjuna myndir hér til hliðar eru fleiri myndir undir nafninu”kaupmaðurinn á horninu”

Engin ummæli: