24 ágúst 2006

Brunnurinn.

Veður: 11,9°/31,5° þokuloft fyrst í morgunn, en heiðskýrt síðdegis.
Ég var að vinna í garðinum í morgunn, meðal annars sem ég gerði var að vökva gróðuinn. Við erum með brunn hér við húsið, en það er orðið lítið vatn í honum eftir svona þurran vetur og vor, svo við kaupum mest af því vatni sem við notum til vökvunar, af vatnsveitu bæjarins.
Brunnurinn er 11 netra djúpur og til að geta fylgst með vatnshæðinni í honum setti ég flotholt ofan í brunninn og svo snúru frá því sem ég þræddi í gegnum tvö hjól og að lokum í lóð sem sýnir hve hátt vatnið í brunninum er.
Þegar ég byrjaði að vökva í morgunn var vatnshæðin 60 Cm og þó ég vökvaði talsvert færðist lóðið ekkert. Þetta var talsvert grunsamlegt, svo ég fór í að kanna málið og þá kom í ljós að annað hjólið sem snúran rann í var brotið þannig að snúran var föst og því lítið að marka stöðuna á lóðinu.
Nú það þarf ekki að orðlengja það að þarna var komin gild ástæða fyrir bæjarferð, því það er ekki síður mikilvægt hér að vita hversu mikið er inni á vatnsbankanum sínum, en í Evrum í venjulega bankanum.
Bíllinn var þveginn í morgunn svo hann var glansandi fínn og heimilnu til sóma í kaupstaðarferðinni. Það gekk vel að finna hjól í stað þeirra brotnu og meira að segja slæddust með nokkrir blómapottar, sem Þórunn segir að henti mjög vel fyrir kaktusa og ekki efa ég að það sé rétt hjá henni. Hún er pottablómasérfræðingurinn á þessum bæ.
Þegar innkaupunum var lokið stakk ég upp á að líta við á McDonalds, en við lítum þar inn með reglulegu millibili, þó við getum ekki reiknað með að hitta marga á okkar aldri þar inni. Viðskiptavinirnir þar eru almennt talsvert yngri að árum en við, en við þurfum nú líka að borða þó við séum ekki unglömb lengur.
Það er verst hvað maður verður subbulegur við að borða borgarana, það er á mörkunum að það sé nægilegt að þvo sér hendurnar á eftir máltíðina, það veitti ekki af að geta skolað andlitið líka, nú það væri ef til vill rétt að bjóða upp á baðaðstöðu þarna?
Þegar heim var komið var drifið í að koma vatnshæðarmælinum í lag og þá sýndi sig að það eru bara 30 cm eftir af vatni í brunninum, svo vatninu úr brunninum verður ekki spreðað í að vökva gróður á næstunni. Við látum húsið ganga fyrir með vatn úr brunninum, vegna þess að vatnið frá vatnsveitunni er hreinsað og við viljum síður drekka það.
Efri myndin er af öðru nýja hjólinu en sú neðri er af lóðinu, en eins og sjá má er lóðið gamall múrsteinn, en hann vinnur sitt verk með prýði.


 Posted by Picasa

Engin ummæli: