Í morgunn heyrðum við frá Geira og Rósu, en þau lögðu á stað akandi héðan á laugardagsmorgni fyrir rúmri viku áleiðis í sumarhúsið sitt í Svíþjóð. Þau ætla að vera þar til 20 september, en koma þá með flugi hingað. Það liggur við að það sé hægt að segja að þau hafi flogið norður til Svíþjóðar, þó þau væru akandi slíkur var hraðinn á þeim. Voru þrjá daga á leiðinni og tvær dagleiðirnar losuðu 1200 Km. Greinilegt að þarna er fyrrverandi atvinnubílstjóri við stýrið.
Við fórum í sunnudagsbíltúr í dag, aðeins í lengra lagi af sunnudagsbíltúr að vera eða rúmir 300 Km.
Í gær ákváðum við að athuga hvort nágrannar okkar þau Matthild og Manúel væru ekki til í að eyða sunnudeginum með okkur í ferð um Stjörnufjöllin, en þau státa af hæsta tindi Portugals 1993 metra háum.
Jú þau voru strax til í það, en gátu ekki lagt af stað fyrr en klukkan tíu, því þau voru vön að taka gamla konu með sér til kirkju á hverjum sunnudegi og gátu ekki lagt af stað fyrr en að afloknu því verki. Þau hafa svo sjálfsagt verið búin að tryggja henni far heim að lokinni messu.
Matthild hefur eini sinni áður komist á þessar slóðir og hún var alveg með það á hreinu að síðan eru liðin tuttugu og fjögur ár, því það sama ár fæddust tvíburar hér í dalnum sem nú eru tuttugu og fjögurra ára gamlir.
Eftir um hundrað kílómetra akstur um fallegt landslag, það var raunar mjög fallegt og margbreytilegt landslag sem við ókum um í allan dag. Hvað um það eftir þessa hundrað kílómetra stönsuðum við í bæ sem heitir Gouveja og er við rætur fjallsins, því við vorum orðin kaffiþyrst og kominn tími til að rétta úr sér.
Þetta er fallegur bær og við ákváðum að fara þangað aftur fljótlega til að skoða hann betur, því við áttum of langan akstur framundan til að geta eitt löngum tíma þarna að þessu sinni.
Nú var lagt á brattan, en það er þægilegur vegur þarna upp og víða mjög fallegt útsýni á leiðinni, enda liggur vegurinn í 1200metra hæð þar sem hann er hæstur. Það sem kom okkur mest á óvart var að sjá falleg reynitré með berjum í þessari hæð.
Þegar þessari hæð er náð er farið niður á við aftur í djúpan dal og í dalbotninum er bær sem heitir Manteikas, sem mun þíða smjör á íslensku.
Í smjördal fengum við okkur að borða áður en lagt yrði upp í ferðina á hæsta tind Portúgals, en tindurinn heitir Torre.
Þó tindurinn sé næstum jafnhár og Hvannadalshnjúkur er ólíkt um að litast á tindinum. Þarna uppi er eins og flöt heiði og á tindinum eru verslanir og veitingastaðir. Hitinn var + 20° í dag þegar við vorum þar.
Sumstaðar á leiðinni þarna upp eru gróðursnauð og hrikaleg fjöll og víða mjög fallegt.
Það eru myndir frá ferðinni inni á myndasíðunni mynni sem segja mikið meira en orð um það sem fyrir augu bar.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli