Veður: 10°/26° Léttskýjað.
Til hádegis vorum við hjónakornin að vinna úti við. Þórunn að snyrta eitt og annað í garðinum og brenna eitthvað rusl, en það er nú raunar alveg bannað að kveikja eld hér frá 1. maí, en hún hefur örugglega ekki munað eftir því, ef hún hefði munað eftir þessu hefði hún látið það vera að kveikja eldinn, því hún er svo löghlýðin.
Ég lauk við að kalka vegginn að utanverðu í kring um lóðina, nú ætti hann að líta vel út þar til næsta vor. Það sest mosi og annar gróður í þetta svo það er best að kalka veggina einu sinni á ári.
Ég batt líka upp tómaatplönturnar, en þær eru svo veikburða að þær leggjast bara út af, ef þær fá ekki stuðning. Það verður að binda þær upp með reglulegu millibil á meðan þær eru að vaxa. Það eru byrjuð að koma blóm á tómatplönturnar og í júnílok ætti að vera hægt að fara að gæða sér á tómötum. Mér finnstt þeir bestir sólvolgir beint af plöntunni. Það sama gildir raunar um alla ávexti, mér finnast þeir ekki góðir þegar búið er að kæla þá í ísskáp.
Eftir hádegi fórum við svo til að kaupa afmælisgjöf handa dömu sem á afmæli í þessum mánuði. Við sendum alltaf fatnað í afmælisgjafir, því það er eitthvað sem alltaf er hægt að nota og svo fer ekki mikið fyrir dömufatnaði í pósti.
Rósa og Geiri biðu okkar hér heima þegar við komum til baka. Þau voru í morgunn að reyna að hafa uppá hvar gámurinn með búslóðinni þeirra væri staddur á sínu ferðalagi. Um tíma voru þau hrædd um að hann væri alveg glataður, en sem betur fer fannst um síðir hvar hann er og það á að standa því sem þeim var lofað í upphafi að hann kæmi til Porto núna næsta föstudag. Svo það var léttara yfir þeim við að fá þær fréttir.
Þegar við vorum að byrja kaffidrykkju með G og R kom Matthild grannkona okkar og þáði líka kaffisopa með okkur, henni finnast þeir mjög bagalegir þessi tungumálaerfiðleikar. Henni finnst svo gaman að spjalla, að henni finnst eiginlega alveg ólíðandi að við skulum ekki geta tjáð okkur alveg óhindrað. Oft er hún búin að skamma mig fyrir að tala ekki almennilega portúgölsku.
Eftir kaffi og spjall var svo farið með pakkann á póst.
Það var búið að setja á dagskrá í dag að liðka hjólin og sjálfan sig, en vegna annríkis varð að sleppa því og nú er það aftur á dagskrá á morgunn. Vonandi að það gefist þá stund aflögu fyrir hjólreiðar. Það hefur vonandi ekki hvarflað að neinum að það væri ekki nóg að gera á þessum bæ.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli