Veður: 13°/24°. Í dag var þokumóða í lofti, en sólin skein í gegn annað slagið.
Geiri og Rósa komu í morgunn, við vorum búin að ákveða að fara út að borða og það varð úr að við fórum öll saman á veitingastað hér upp með Vouga ánni.
Þessi veitingastaður er mjög sérstakur að innan, grófir veggir og sumstaðar grjót á veggjunum. Þetta er í kjallara, en samt hátt til lofts. Við förum þarna með reglulegu millibili, því maturinn þarna er góður og sömuleiðis þjónustan.
Í dag fengum við okkur grillað kjöt og ávexti á spjóti. Mér fannst það bragðast mjög vel, en Geira fannst það of lítið steikt, en okkur hinum alveg mátulegt, svona er smekkur fólks misjafn. Öll fengum við okkur svo ábæti og kaffi á eftir, svona til að setja punktinn yfir.
Eftir matinn fórum við svo í sunnudagsbíltúr í bæ sem heitir Oliveira de Frades. Það er mjög falleg útsýni á leiðinni upp í þennan bæ en hann er að mig minnir í um 500 metra hæð yfir sjó. Við fórum í gönguferð um bæinn og tylltum okkur niður á bekk í fallegum en litlum garði sem þarna er.
Við vorum komin heim um kaffileitið og síðdegið var notað til að sitja úti á verönd og dunda sér í tölvunni.
Á morgunn er svo ný “vinnuvika”, svo það er eins gott að koma sér snemma í háttinn í kvöld.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli