Veður: 9°/25° léttskýjað.
Mikið var gott að fá að sofa í rúminu sínu á ný, enda svaf ég mjög vel í nótt. Það gæti líka haft töluverð áhrif á að ég svaf vel að það er dimmt í húsinu hjá okkur um nætur, en í Danmörku er nóttin orðin svo stutt á þessum árstíma og sólin komin snemma á kreik.
Það er notalegt að komast í gamla hjólfarið sitt á ný, þó maður geti stundum orðið leiður á því, en þá er bara að drífa sig í ferðalag eða gera eitthvað annað til tilbreytingar og þá kann maður betur að meta hjólfarið sitt á ný.
Ég reitti svolítið af arfa í morgunn, hann hefur greinilega kunnað vel að meta það að fá að vera í friði á meðan við vorum í burtu, hefur sennilega verið að vonast til þess að við kæmum ekki heim í bráð.
Rósirnar voru líka duglegar á meðan við vorum fjarverandi og nú er mikið af þeim útsprungið.
Eftir hádegi heimsóttum við Geira og Rósu til að sjá hvað þau hefðu haft fyrir stafni á meðan við vorum ´´i burtu. Þau eru búin að fá ísskáp og þvottavél, einnig voru rúmin sem þau pöntuðu komin á sinn stað. Dýnurnar sem fylgdu með rúmunum voru allt of litlar fyrir rúmin, svo þau verða að nota gömlu dýnurnar sem við lánuðum þeim, þar til dýnur af réttri stærð koma.
Það er líka búið að tengja hjá þeim sjónvarp, tölvu og síma, svo þau eru komin í gott samband við umheiminn á ný.
Við fórum svo öll niður í Aveiro til að kaupa smávegis í matinn og eins voru þau G og R að leita sér að sófaborði. Við fórum í þrjár stórar húsgagnaverslanir, en þau sáu ekkert sem þau voru alveg sátt við, svo þau verða að leita á fleiri stöðum. Það er mjög mikið af húsgagnaverslunum hér, svo þau hljóta að finna sér borð áður en langt um líður. Þau keyptu sér gólfteppi í stofuna í ferðinni.
Þegar heim kom unnum við í garðinum, meðal annars var grasflötin slegin, en grasið hefur ekki vaxið mikið, vegna þess hve þurrt hefur verið.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli