Veður: 15°/25° Léttskýjað til hádegis, en eftir það skýjað og gola.
Sleppti “blaðalestri” eftir morgunkaffi í morgunn en fór í þess stað strax út að vinna, bæði var að það voru einhver vandkvæði á að komast út á netið og svo vildi ég ljúka því sem ég ætlaði að gera í garðinum á meðan það væri hæfilega heitt til að vinna úti.
Mér datt í hug máltækið”oft er að smáir sparast þegar stórir farast” Þegar ég var að reita arfa í morgunn, því mér gengur mikið betur að finna stóra arfann en þann smávaxna, eins og gefur að skilja með þá sjón sem ég er með. Annars er ég bara orðinn með furðugóða sjón í fingurgómunum þegar arfinn er annars vegar, svo hann má fara að gæta að sér.
Áður en grasflötin var slegin var sláttuvélinni gert til góða meðal annars skipt um olíu á mótornum. Ég þurfti að fá hjálp hjá Þórunni til að hella olíunni á og skoða á kvarðanum hvort magnið væri rétt.
Myndin hér fyrir ofan var tekin úti í garði í dagog sýnir hvað rósirnar eru fallegar núna.
Eftir matinn fórum við með bílinn á verkstæði, þó tilefnið væri ekki mikið, því það vantaði bara hemlaljós öðrumegin. Ég var búin að reyna að skipta um peru, en það vafðist fyrir mér að ráða fram úr hvernig ætti að fara að því. Svo við renndum bara til Opel til að fá aðstoð. Jú það var alveg sjálfsagt að bjarga þessu á stundinni. Stúlkan sem sér um afgreiðsluna sá líka um að aka bílnum inn og út af verkstæðinu. Þó hún væri í hvítum og tandurhreinum slopp breiddi hún áklæði yfir sætið áður en hún settist inn.
Á meðan við vorum að bíða eftir bílnum kom öldruð kona og vildi selja Þórunni einhverja fígúru fyrir tvær evrur til styrktar veikum börnum. Þórunn lét þessar tvær evrur af hendi, en á eftir vildi sú aldna endilega kaupa kaffibolla handa Þórunni úr sjálfsala sem er þarna. Sú aldna talaði smávegis í ensku og sagðist vera orðin 87ára. Að lokum upplýsti hún Þórunni um að Opel væri framleiddur í Þýskalandi en Chevrolet væri framleiddur í Ameriku.
Þegar reikningurinn kom fyrir viðgerðina hljóðaði hann upp á 1,25 evru, það var semsagt bara tekin greiðsla fyrir efni en ekkert fyrir vinnuna.
Við ætluðum að heimsækja Pétur í þessari ferð, en þegar við hringdum í hann sagðist hann vera að fara út úr dyrunum með Rósu “vinkonu” sinni svo það gat ekkert orðið af þeirri heimsókna, lítur helst út fyrir að við verðum að bóka með löngum fyrirvara ef við ætlum að heimsækja Pétur. Við erum búin að gera nokkrar tilraunir að undanförnu til að líta á karlinn án árangurs.
Við keyptum málningu á húsið að utan, það þarf eitthvað að hressa upp á útlitið að utanverðu.
Á heimleiðinni litum við inn hjá Geira og Rósu í kaffi og spjall. Eyjólfur heimsótti þau í dag og hjálpaði þeim við að reyna að hafa upp á gámnum með húsgögnunum þeirra, það er vonandi að það skýrist á morgunn hvar gámurinn er staddur.
Geiri og Rósa buðu okkur út að borða næsta laugardagskvöld og báðu okkur um að bjóða Manúel og Matthild líka fyrir sína hönd. Við erum búin að skila þessu til þeirra og þau þáðu boðið með þökkum. Voru að sjálfsögðu að spá í hvað þetta yrði hræðilega dýrt fyrir gestgjafana.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli