Veður: 10°/20° léttskýjað, gola.
Í morgunn meðan ég var enn upp í rúmi og svona að velta því fyrir mér hvort það væri kominn dagur, en var enn ekki kominn svo langt að ég væri farin að athuga hvað klukkan segði um það hvort það væri kominn tími til að vakna til fulls. Meðan ég var í þessum hugleiðingum þá hringir dyrabjallan ósköp hæversklega, bara svona eitt feimnislegt dingl Ég dreif mig fram úr rúminu til að athuga hvernig á þessu dingli stæði og eftir að hafa tínt á mig einhverjar spjarir, svona til að fullnægja lágmarks velsæmi leit ég út á veröndina og kom þá auga á þau sæmdarhjón Rósu og Geira. Klukkan var átta þegar hér var komið sögu og ég enn órakaður og með stírurnar í augunum, þá var geiri búinn að vera á róli í fimm tíma, en frúin eitthvað skemur.
Meðan við sváfum á okkar græna voru þau búin að ná í eitthvað af kössum niður í geymslu og setja meðal annars upp tölvuna sem kom með búslóðinni í gær en vantaði snúru til að tengja hana við straum, en við áttum slíkan grip að lána þeim og nú voru þau mætt til að sækja hann.
Við fórum svo með þeim til að sjá hvort tölvan tengdist internetinu, jú það gekk eins og í sögu. Síðan fórum við öll saman niður í Aveiro meðal annars til að reyna að fá einhverjar upplýsingar um nýja sjónvarpið þeirra, en það eru einhver vandamál við að fá eðlilega mynd á það. Við fengum engar upplýsingar sem að gagni komu, en þau keyptu sér hitamæli til að geta upplýst vini og ættingja um rétt hitastig þegar þeir hafa samband við þau..
Eftir hádegi gerðum við garðinum svolítið til góða. Sumt af lauknum er farinn að leggjast út af, en þegar laukurinn er fullvaxinn leggst kálið á honum út af og eftir það vex hann ekki meir. Þetta hefur ekkert að gera með hvort hann er stór eða smár. Bara virðist ekki nenna að halda sér uppréttum lengur.
Við höfum það fyrir sið þegar einhver í fjölskyldum okkar á afmæli, eða verið er að halda upp á eitthvað sérstakt að fara á kaffihús og fá okkur góða tertusneið. Er þetta ekki alveg lögleg afsökun fyrir að láta undan löngun sinni í sætindi? Í gær átti hún Bryndís afmæli, en þar sem við vorum þá upptekin frestuðum við því þar til í dag að fara og fá tertusneiðina okkar. Kaffihús sem er í bæ í um það bið 15 Km fjarlægð frá okkur finnst okkur að bjóði upp á bestu terturnar, svo við teljum það ekki eftir að aka þangað, enda er umhverfið á leiðinni þangað mjög fallegt.
Guðmundur og Jónína komu hingað í kvöld. Þau komu með flugi til Faro í morgunn, erindið hingað til Portúgals að þessu sinni er að ganga frá kaupum á húsi og meðfylgjandi landi. Þau eru búin að heimsækja Portúgal á hverju ári mörg undanfarin ár og líkar mjög vel við land og þjóð og nú er svo komið að þau eru að festa sér eign hér með það í huga að setjast hér að síðar meir.
Þessi eign er í um það bil 120 Km. til suðurs frá því sem við búum. Við vonumst eftir að fá tækifæri til að sjá staðinn núna á meðan þau eru hér í landi, en þau reikna með að vera hér í eina viku.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli