Veður: 15°/28° léttskýjað.
Eins og sjá má á hitatölunum hér fyrir ofan var ekki hægt að kvarta undan kulda hér í dag, frekar að það væri hægt að kvarta yfir of miklum hita.
Eins og ég sagði í gær átti að fara að hjóla í dag og þegar það leit út fyrir að verða vel heitt um miðjan daginn var ákveðið að drífa sig af stað strax í morgunn áður en það yrði of heitt til að hjóla. Það er í minni deild að sjá um að það sé nægilegt loft í dekkjunum á hjólunum og þegar því var lokið var að drífa sig í hjólreiðabuxurnar og í hlýrabol, meira þurfti ekki af fatnaði í dag.
Við vorum komin af stað fyrir klukkan tíu. Tókum stefnuna hér upp í Albergaria, því Þórunn var með bréf sem hún ætlaði að koma á póst.
Hringurinn sem við fórum í dag er 25 Km. að lengd og upp og niður brekkur, því það er ekkert sléttlendi í grennd við okkur, en það er bara hollt að spreyta sig á brekkunum og þegar toppnum er náð er þægilegt að renna sér niður í næstu lægð.
Eftir hádegi réðist Þórunn í að búa til kleinur, sem brögðust mjög vel hjá henni eins og venjulega. Geiri og Rósa komu svo og fengu heitar kleinur með kaffinu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli