Veður: 10°/24° Léttskýjað, gola.
Vann svolítið í garðinum í morgunn, aðallega við tómatplönturnar.
Eftir það gerðist ég múrari, en múrverk er eitthvað sem mér finnst fremur leiðinlegt að fást við, en það verður oft að láta sig hafa það að gera fleira en gott þykir. Það er visst svæði á húsinu bæði að utan og innan þar sem málningin flagnar alltaf af veggjunum. Að utan er það svo slæmt að það er eins og múrhúðin leysist líka upp. Ég var í morgunn að reyna að laga verstu skemmdirnar, því það stendur til að mála húsið að utan núna á næstu dögum. Það er búið að reyna að bera sérstök efni á þessa bletti og það virðist hjálpa nokkuð til.
Eftir hádegi fórum við svo að hjóla, því leikfimin féll niður í morgunn vegna fjarveru kennarans, en hún lét vita í gær að það yrði ekki leikfimi í dag.
Það var ferskt og gott veður til að hjóla í dag, hæfilega hlýtt og aðeins gola.
Nú er sá tími að maísinn er að byrja að kíkja upp úr moldinni á ökrunum sem við hjóluðum framhjá.
Búslóð Geira og Rósu er komin til Porto og það eru góðar líkur á að gámurinn verði kominn heim til þeirra síðdegis á mánudag. Þá er eins gott að bretta upp ermar til að geta hjálpað til við að koma búslóðinni inn hjá þeim.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli