Sunnudagur 7. maí. 4. dagur
Byrjuðum daginn á að mæta heima hjá Lindu í morgunverð. Á meðan við vorum að borða var Linda að leggja síðustu hönd á að greiða og búa tvíburana fyrir fermingarathöfnina. Kirkjan er mjög stutt frá heimili þeirra svo við gengum þaðan til kirkjunnar, enda var veðrið eins og best var á kosið sólskin og hlýtt.
Fermingarathöfnin hófst svo klukkan tíu. Það voru fermd ellefu börn að þessu sinni.
Aðstandendur barnanna fá hver sinn bekk í kirkjunni, en fermingarbarnið situr á stól við enda bekkjanna, þar til kemur að sjálfri fermingunni þá fara þau upp að altarinu. Þetta var falleg og látlaus athöfn.
Að aflokinni athöfninni í kirkjunni var haldið til keiluhallar bæjarins. Þar var veislugestum skipt niður í lið sem kepptu í keiluspili, með eitthvað misjöfnum árangri, enda voru nokkrir sem ekki höfðu komið nálægt þeirri íþrótt áður. Næsti liður á dagskrá var svo fermingarveislan. Þau höfðu tekið á leigu huggulegan sal hjá golfklúbbi og pantað mat einhvers staðar frá og fengið svo stúlkur til að sjá um að bera matinn fram. Í forrétt var fiskihlaup, í aðalrétt var kalt kjöt af nokkrum gerðum með heitu kartöflusalati og ýmsu öðru góðgæti. Þessu var skolað niður með vatni, gosi, öli, rauð og hvítvíni allt eftir smekk og lyst hvers og eins. Hér er það föst venja að bera fram vín í fermingarveislum. Ekki sást þó vín á nokkrum manni.
Eftirrétturinn var svo jarðarberjahlaup. Svo til að að setja punktinn yfir allt þetta át var borin fram kransakaka, sælgæti og kaffi ásamt skálum með jarðaberjum, vínberjum og melónum.
Öllu þessu áti var ekki lokið fyrr en klukkan sex. Það var reglulega notalegt að vera í veislu með Dönunum, það eina sem angraði mig var hversu margir reiktu meðan á borðhaldinu stóð. Að lokum komu svo allir Íslendingarnir saman heima hjá fermingarbörnunum og áttu þar notalega samverustund.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli