Veður: 8°/24° léttskýjað.
Tíminn flýgur áfram á ógnarhraða og nú er enn einu sinni kominn laugardagur og þá þykir við hæfi að þrífa húsið og innifalið í því er meðal annars að skúra gólfin. Ég hef rúmlega hálfrar aldar reynslu í því embætti og er búin að ganga í gegnum margar mismunandi aðferðir við að skúra gólf á mínum langa ferli í þessu virðulega starfi.
Í byrjun var þetta allt mjög einfalt og fábrotið. Bara að eiga einhverja tuskudruslu og vatnsílát, þá var bara lagst á hnén og óhreinindin nudduð af gólfinu með tuskunni, tuskan undin og þurrkað yfir, þar með klappa’ og klárt og gólfið tilbúið til að taka við næstu óhreinindum.
Næsta framfaraspor í gólfþvotti var svo tilkoma skrúbbsins,það var mikil framför þegar ekki þurfti lengur að liggja á hnjánum við að skúra gólfin. Síðan hafa komið til sögunnar ótal gerðir af þveglum og enn fleiri gerðir af sérstökum tuskum á þveglana og ekki má gleyma að minnast á öll þau töfra þvottaefni sem í boði eru í dag til að bæta árangurinn við gólfþvottinn. Ef marka má leiðbeiningarnar á umbúðunum gerist gólfþvotturinn næstum því af sjálfu sér ef þú setur nokkra dropa af þessu töfra efni út í skúringarvatnið.
Ég er búinn að upplifa að skúra línolíum dúka og um tíma var það ekki sómasamlega gert nema að bóna á eftir með mjallarbóni og til að fá það hágljáandi var nauðsynlegt að eiga bónkúst. Fyrir þá sem ekki vita hvernig slíkt verkfæri leit út ætla ég að reyna að lýsa því. Þetta var steypujárnshlunkur níðþungur með löngu skafti og neðan á honum voru stutt og stinn hár. Þegar búið var að bera bónið á gólfið var þessu verkfæri rennt fram og aftur eftir gólfinu þar til það var farið að glansa og til að fullkomna verkið var settur mjúkur klútur neðan á bónkústinn til að ná fullkomnum gljáa á gólfið. Gólfið þurfti helst að glansa næstum eins og spegill og þá var það líka orðið stórhættulegt til umferðar fyrir þá sem voru á sokkaleistunum einum, því það var hált eins og skautasvell.
Ég hef líka reynslu af að skúra málað steingólf og á því entust gólftuskurnar ekki lengi. Nú svo eru það parket gólfin sem eru nú heldur fínni með sig en steingólfin, þurfa fína og mjúka klúta og er meinilla við alla vætu. Svona einskonar hefðardömur í gólfefnum.
Núverandi og síðasta sem ég hef komist í kynni við í gólfefnum eru flísarnar og þær er mjög auðvelt og létt að þrífa.
Svona til að gera snyrtilegt utandyra líka fór ég með sláttuvélina yfir baklóðina sem við köllum svo, því það er lóðinná bak við hús séð frá götunni. Þórunn snyrti veröndina framan við húsið, svo þetta ætti að vera orðið sómasamlegt fyrir helgina.
Það kom viðgerðarmaður í dag til að líta á sjónvarpið, því það vantaði talið á nokkrar stöðvar og ég gat ekki fundið út hvað að var. Hann var ekki lengi að sjá hvað þyrfti að gera til að koma talinu á, bara röng stilling þar sem talið er valið. Lítil vinkona okkar sem kemur í heimsókn til okkar liggur undir grun að hafa fiktað í þessu. Við könnumst hvorugt við að hafa hreyft við þessu og hver gerði það þá? (Svona tók sonur minn til orða einu sinni þegar eitthvað hafði farið úrskeiðis á heimilinu. Ekki gerði ég það og ekki heldur Jón bróðir og hver gerði það þá?)
Honum fannst ekki líklegt að systir hans eða við foreldrarnir hefðu gert þetta
Síðdegis skruppum við aðeins í búðir í Aveiro, svona til að bregða okkur aðeins af bæ. Og í kvöld horfðum við á fínan skemmtiþátt frá Þyskalandi með tali og öllu tilheyrandi.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli