Laugardagur 6. maí. Þriðji dagur.
Þetta var síðasti morguninn með þeim Jóni og Elísu, því við áttum farseðla með lestinni frá Köben til Herning klukkan ellefu um morguninn. Eftir morgunkaffið fylgdu þau okkur í strætisvagninum heiman frá þeim út á lestarstöð. Vagninn er fjörutíu og fimm mínútur að fara þessa leið. Það var svo fátt í vagninum þegar við komum í hann að við fengum sæti, en þegar fór að nálgast miðborgina var orðið alveg stappað í vagninn.
Við vorum komin svo tímanlega inn á lestarstöð að við gátum tillt okkur niður og virt fyrir okkur mann lífið á stöðinni. Þarna sér maður allar þær manngerðir sem búa í Danmörku. Það er auðvitað ekki hægt að koma til Danmerkur án þess að fá sér eina með öllu, þá meina ég pulsu. Slíkan mat er ekki hægt að fá í Portúgal.
Nú tók við rúmlega þriggja stunda ferð til Herning. Framhjá gluggunum þutu akrar ýmist orðnir grænir eða nýplægir og skjólbelti á milli, en trén voru rétta að byrja að laufgast. Þorp og bæi bar líka fyrir augu af og til, en þeir eru allir keimlíkir, því það er ekki mikil tilbreyting í húsagerð hér í landi.
Á lestarstöðinni í Hernig tóku svo á móti okkur tvíburarnir, sonardætur Þórunnar og móðir þeirra og fóru með okkur heim til sín. Þar voru þá fyrir Sigrún dóttir Þórunnar og Einar faðir Sigrúnar, fyrrverandi eiginmaður Þórunnar. Einnig var mætt þarna á heimilið móðursystir Lindu ásamt eiginmanni, en Linda er móðir tvíburanna. Síðar um kvöldið bættist svo móðir Lindu í hópinn ásamt sínum manni.
Um kvöldið rölti svo allur hópurinn niður í miðbæ Herning og fór þar á kínverskan matsölustað að fá sér að borða. Við fengum lítinn sal út af fyrir okkur svo þetta var regulega ánægulegt og allir voru vel sáttir við þann mat sem þeir höfðu valið sér. Á efti var svo gengið heim, en það er ekki nema tuttugu mínútna gangur. Þegar svo kom að því að fara í háttin fór hver til síns heima, en þau voru búin að fá leigðar íbúðir fyrir gesti sína. Í íbúðarhverfunum hér eru víða íbúðir sem hægt er að fá leigðar fyrir lítinn pening, ef fólk hefur ekki nægilegt rými heima hjá sér fyrir gesti sína. Við Þórunn lentum í íbúð með móðursystur Lindu og hennar manni. Þarna voru tvö mjög góð herbergi með sameiginlegu baði.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli