Veður: 4,8↑8/21,8 léttskýjað.
Johana dóttir Grösu átti afmæli í dag og er nú orðin átta ára.
Það hittist svo á að Mamma hennar þurfti að mæta á fund, svo afmælisbarnið var hér í pössun fram eftir degi. Þórunn eldaði góðan mat í tilefni dagsins og þær mæðgur borðuðu með okkur.
Við erum svo boðin í afmælisveislu næsta sunnudag.
Við vorum að viðra bílinn í dag til að reyna að ná burt mestu bensínlyktinni eftir bensínflutninginn í gær, það tekur sjálfsagt nokkurn tíma að losna við lyktina úr bílnum.
Ég var svolítið í bændaleik í morgunn, útbjó beð til að sá í laukfræi,en Þórunn sér svo um sáninguna.
Nú segja grannkonurnar að það sé rétti tíminn til að sá lauknum, en bæði sáning og eins að taka laukinn upp verður að gerast á minnkandi tungli, því ef það sé ekki gert er viðbúið að laukurinn spíri og verði þar með ónothæfur.
Það er ekki fátt sem tunglið stjórnar, til marks um það sagði hún Matthild grannkona okkar það alveg grafalvarleg, að það hefði verið rigning þann dag sem tungl kviknaði í október og það þíddi nú bara rigningu næstu sex mánuði. Sem betur fer virðist þessi spá ekki standast enn sem komið er, því nú er búið að vera þurrt hér í nær hálfan mánuð, en það er spáð rigningu á morgunn, vonandi að hún standi ekki án uppstyttu næstu fimm mánuðina.
Það lá við að illa færi í dag, þegar ég ætlaði að hífa dæluna sem er í brunninum upp og athuga með hana. Brunnurinn er ellefu metra djúpur og dælan er á botni hans og frá dælunni liggur svo slanga sem tengist við húskerfið. Dælan hékk þarna í keðju, svo það reyndi ekki á slönguna og rafmagnstaugina sem liggur að dælunni.
Þegar ég byrjaði að hífa dæluna upp gaf keðjan sig og síðan smokraðist slangan af stútnum á dælunni og þá var rafmagnsnúran það eina sem eftir var fast við dæluna. Ég átti ekki um annað að velja en láta á það reyna hvort rafmagnsnúran væri nógu sterk til þess að ég næði dælunni upp og sem betur fer dugði hún til þess.
Keðjan var ryðguð í sundur og eins var með klemmurnar sem áttu að halda slöngunni fastri við dæluna.
Nú er ég búin að fá sveran nælonkaðal í stað keðjunnar og nýjar klemmur, en það var komið myrkur áður en ég gat lokið þessu af svo framhaldið bíður til morguns. Við erum með vatn frá vatnsveitu sveitarfélagsins, svo við erum ekki í neinum vandræðum með vatn.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli