Veður: 1,6°/19,8 heiðskýrt.
Hér er ilmandi graslykt í lofti, því ég sló grasflötina í morgunn. Trúlegt þykir mér að þetta verði síðasti sláttur á þessu ári, því grasvöxturinn er orðinn mjög hægur núna. Meðan ég var að snyrta til í garðinum var Þórunn í annars konar snyrtingu,þ.e.a.s., hún fór að láta snyrta á sér hárið.
Mér fannst tilvalið þegar hún kom svona fínt snyrt heim um tólf leitið að við færum út að borða og mín kona samþykkti það furðu fljótt. Það má samt ekki skilja þetta svo að hún sé ekki alltaf snyrtileg, heldur var þetta bara notað sem afsökun fyrir að fara eitthvað af bæ í góða veðrinu. Það er líka góð tilbreyting að borða matinn sinn innan um margt fólk og heyra í því skrafið, þó maður skilji ekki það sem verið er að segja, en það er góð tilfinning að heyra klið frá fólki sem er að tala saman.
Eftir matinn fórum við svo í nokkrar verslanir og að síðustu litum við inn í Skodaumboðið, ekki af því að okkur vantaði annan nýjan bíl, heldur vegna þess að þeir voru að fá nýjan fjölnotabíl í sölu og mer lék forvitni á að sjá hvernig hann liti út. Mér fannst bíllinn fremur ljótur, en samt fróðlegt að sjá hann.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli