Veður: 13°/24° skýjað, en að mestur þurrt í dag, einhver úrkoma hefur verið í nótt.
Aðalverkefni dagsins var að athuga með leiðarvísi á ensku, sem átti að senda hingað fyrir saumavélina.
Saumavélin var keypt í febrúar og þá var því lofað að fljótlega yrði leiðarvísir á ensku sendur hingað heim.
Við höfum oft talað um að fara og rukka um efndir á þessu loforði og í dag létum við loks verða af því að gera eitthvað í málinu.
Við hittum á elskulega stúlku í búðinni, sem fór til eiganda verslunarinnar, sem er sá sami og lofaði að panta leiðarvísinn. Þau komu svo skælbrosandi með rykfallinn leiðarvísinn, en það hafði bara farist fyrir að koma honum í póst.
Það er eins og þeir innfæddu segja ef eitthvað þessu líkt kemur upp “þetta er nú í Portúgal”
Nú getur Þórunn sem sagt farið að lesa sér til um sína saumavél.
Enn bíðum við eftir að fá leiðarvísi á ensku með bílnum okkar, en við erum enn ekki búin að bíða nema í rúma tvo mánuði, svo það er sjálfsagt ekki nærri komið að því að við fáum hann. Við vorum að spá í að koma við hjá Toyota og reka á eftir því að fá bæklinginn, en nenntum svo ekki að vera að ergja okkur á því, það er eitthvað svo vonlaust að aka þessu liði úr sporunum.
Í dag fengum við boð frá Toyota um að mæta á sérstaka athöfn hjá þeim sem Prius eigendur, þar sem meðal annars á að gróðursetja tré, því Priusinn er jú umhverfisvænn. Við fengum bréfið í hendur í dag þann 7. en áttum að gefa svar um þátttöku þann 4. Enn eitt dæmið um skipulagið á hlutum hér í landi. Það er held ég örugglega ekki hægt að skrifa þetta á póstþjónustuna, því hún er eitt af því fáa sem virkar mjög vel.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli