12 nóvember 2006

Marteinsmessa

Veður:3,8°/23,6° heiðskýrt.

Það var svo langt mál hjá mér um Priusinn í gær að ég minntist ekki orði á það sem hefði átt að hafa forgang þann dag. Í gær var Marteinsmessa, en hér í landi nefnt dagur Marteniusar. Hann hefur með veður að gera og þennan dag á alltaf að vera gott veður, þó ég minnist þess nú að það hafi brugðist, en í gær var mikil veðurblíða, eins og undanfarna daga.
Þessi góði dýrlingur hefur líka yfirumsjón með víngerð, svo það er hefð fyrir því að bragða hvernig til hefur tekist með víngerðina þennan dag á hverju ári.
Það er gjarnan haldin samkoma í hverju þorpi og auðvitað stendur kirkjan fyrir þeirri samkomu í flestum tilfellum.
Á þessum samkomum eru grillaðar kastaníuhnetur og þær síðan borðaðar með nýja víninu. Þarna bragða menn á víni hver hjá öðrum og ræða um gæði vínanna, en gæðin eru æði misjöfn. Sumir ná góðum tökum á víngerðinni, en hjá öðrum eru gæðin lakari.
Við höfum stundum farið á svona samkomu hér í dalnum, en nenntum ekki í gær nýkomin heim úr ferðalagi á bílamótið.
Í tilefni vingerðarinnar læt ég fylgja með mynd af honum nágranna okkar þar sem hann er að kremja vínberin með því að troða á þeim.


Engin ummæli: