02 nóvember 2006

Bilun!!

Veður: 14,7°/21,7° skýjað.

Þórunn fór út í skóg í morgunn til að verða sér úti um efni í jólaskreytingar. Í skóginum finnur hún köngla, greinar, strá og ýmislegt annað sem hún gerið svo að listaverki.
Mín gönguferð í dag var að rölta á eftir sláttuvélinni um garðinn, svo nú er búið að snyrta alla lóðina að þessu sinni.
Síðdegis brugðum við okkur í búðarferð, þurftum meðal annars að kaupa smávegis til að senda sem afmælisgjöf.
Fleira gerðist ekki markvert í dag, en hér kemur smásaga af Portúgölum í lokin.

Eins og ég var búin að segja frá, þá bilaði síminn hjá okkur og við vorum sambandslaus við umheiminn í nær tvo sólarhringa.
Símafélaginu var fljótlega tilkynnt um bilunina í gegnum farsíma og þegar okkur var farið að lengja eftir því að gert yrði við bilunina var aftur haft samband við símafélagið og þá var því lofað að þetta yrði komið í lag innan 48 stunda. En svona innan sviga, ef það er helgidagur á þessu 48 stunda tímabili er hann ekki talinn með.
Símasamband komst svo á aftur síðdegis í fyrradag okkur til óblandinnar ánægju og þar með leiddum við hugann ekki frekar að þessari bilun.
En viti menn í morgunn var hringt í símanúmerið okkar sem við tilkynntum að væri bilað og það var þá viðgerðarmaður frá símafélaginu að athuga með hvort við værum heima svo hann gæti litið á bilaða símann. Þórunn benti honum á að hann væri að hringja í númerið sem var tilkynnt að væri bilað, svo það lægi í augum uppi að það væri í lagi og þarfnaðist ekki viðgerðar. En þið hafið ekki tilkynnt okkur um að síminn væri kominn í lag var þá svarið. Símafélagið var búið að fá farsímanúmerið okkar til að geta haft samband við okkur, samt er hringt í símann sem var talið að væri bilaður. Ef þetta er ekki bilun á hæsta stigi, þá veit ég ekki hvað bilun er:

Myndina hér fyrir neðan tók ég í rökkri í Albergaria. Ég ætlaði að láta hana fylgja með textanum á allraheilaramessu, en dagbókin mín er svo oft með einhverja óþekkt við mig þegar ég ætla að setja inn myndir með textanum, en í dag þóknaðist henni að taka við myndinni.

Engin ummæli: