Veður: 13,1°/23,9° Skýjað af og til, nokkrir regndropar um hádegi og aftur í kvöld.
Þetta var alveg sallarólegur sunnudagurdagur hjá okkur Þórunni.
Við héldum okkur bara heima við að undanskildum göngutúr hér um þorpið eftir matinn.
Það var á þeim, tíma sem fjölskyldurnar mæta á kaffihúsunum til að fá sér kaffibolla og spjalla við nágrannana eftir sunnudagsmatinn, en þetta er föst hefð hjá mörgum. Það verður að segjast eins og er að fólk hér er mjög vanafast og ekki mikið gefið fyrir að breyta til.
Við höfum ekki farið í eftirlitsferð um þorpið, en svo nefnum við í gamni gönguferðirnar okkar, síðan við komum heim úr ferðalaginu góða. Við þurfum að fylgjast með byggingaframkvæmdum á nokkrum stöðum, það er alltaf gaman að sjá hvernig er staðið að framkvæmdum og hvernig húsin smátt og smátt taka á sig mynd.
Á þessum árstíma er líka vert að fylgjast með ánni sem rennur hér eftir dalbotninum, í dag var hún tær og hjalaði glaðlega við steinana á botninum um leið og hún flýtti sér til sjávar. Það þarf ekki nema duglega rigningu til að hún skipti um ham, verði kolmórauð og ryðjist áfram með látum.
Hún hlakkar til þegar vatnið hennar kemur aftur heim til hennar sem regndropar eftir langt ferðalag á haf út, upp í háloftin á ný og falla svo aftur í ána sína. Þeir hafa örugglega frá mörgu að segja eftir slíkt ferðalag. Þeir gætu alveg eins hafa átt heima í allt annarri á og í öðru landi þegar þeir lögðu upp í þessa ferð.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli