Það hefur lengi verið á döfinni hjá okkur að fara að upptökum árinnar sem rennur hér um dalinn. Við höfum komið þarna einu sinni áður og þá í fylgd með nágrönnum okkar, en okkur langaði alltaf til að koma á þennan stað aftur.
Við buðum Rósu og geira að koma með okkur í ferðalagið.
Þrátt fyrir að vera með þrenn GPS tæki í bílnum lentum við út af sporinu í fyrstu tilraun, enda er sumt af þessum vegum mjóir og ekki allir færðir inn á GPS kerfið. Við gerðum gott úr vegvillunni og fengum okkur að borða í Dever do Vouga, áður en við gerðum næstu tilraun til að komast á áfangastað. Við Þórunn fengum saltfiskrétt og Geiri og Rósa fengu sér kjöt, allir voru mjög ánægðir með það sem þeir fengu.
Í annarri tilraun komust við þangað sem við ætluðum okkur. Fyrst fórum við og sáum þar sem áin steypist fram af háu bergi og myndar mjög háan og fallegan foss, síðan héldum við upp á bergbrúnina þar sem áin steypist fram af brúninni.
Rétt hjá þar sem áin á upptök sín er gamalt þorp með gömlum húsum hlöðnum úr grjóti og á einu útihúsinu var þakið gert úr grjótflögum, en ekki notaðar leirflísar eins og tíðkast í dag.
Ef mér tekst að koma inn mynd með þessum pistli, þá verður hún af ánni þar sem hún rennur í gegnum þetta gamla þorp.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli