Ég hélt áfram í dag þar sem frá var horfið í gær með vatnsdæluna.
Þegar búið var að laga það sem bilað var sökkti ég dælunni í brunninn og setti svo í gang, hún dældi eðlilega, en þrýstingurinn féll fljótlega sem benti til leka á kerfinu.
Það var ekki annað að gera en hífa gripinn upp aftur og þá kom í ljós leki á slöngunni rétt ofan við dæluna. Þessu var bjargað í snarheitum með því að stytta slönguna aðeins.
Dælunni sökkt í brunninn á ný og sett í gang, en þá stóð bunan út úr slöngunni ofar en áður, svo nú er búið að lyfta dælunni upp einu sinni enn, hún er orðin eins og jó jó upp og niður í brunninum.
Næsta skref í þessu dælumáli verður að fara og kaupa nýja slöngu, það er sjálfsagt orðið eitthvað stökkt í þessari.
Þegar hér var komið sögu var byrjað að rigna, svo frekari aðgerðum var slegið á frest.
Hér fyrir neðan er mynd af dælunni, auðvitað á þurru.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli