29 febrúar 2008

Veður í febrúar.

Veður: 6,7°/22,2° skýjað í morgunn, en var orðið léttskýjað um hádegi.

Veðrið í tölum fyrir febrúar var sem hér segir eftir mínum mælingum.

Hæsti daghiti var 25,3° og lægsti næturhiti var: -2,6°. Úrkoma í mánuðinum var 93mm., sem er tæpur helmingur á við úrkomu janúarmánaðar.

Meðaltal hámarkshita var 20,7° og meðaltal lágmarkshita var 4,1° og samkvæmt þessu var meðalhitinn í mánuðinum 12,4°

Feb.veður

28 febrúar 2008

Veður

Veður: 9,7°/21,3° úrkoma 1 mm.Alskýjað fyrst í morgunn, en birti fljótlega og léttskýjað síðdegis.

27 febrúar 2008

Veður

Veður: 7,4°/17,2° úrkoma 1 mm.alskýjað.

26 febrúar 2008

Helgarferð

Síðustu helgi eyddum við á Lissabonsvæðinu. Það var boðið upp á pakkaferð þangað með hópferðabíl og innifalið í pakkanum var bílferðin, gisting á hóteli eina nótt, fullt fæði, aðgangsmiði á sýningu í spilavítinu í Estroil, ferð til Sintra og útsýnisakstur um Lissabon.

DSC05200 Fararskjótinn, mjög þægilegt farartæki.

Ferðafélagarnir fjörutíu talsins voru allir á seinna táningsskeiðinu eins og við.

Við lentum í sæti í bílnum fyrir aftan tvær vinkonur og þá kom sér vel að vera með heyrnartæki sem hægt er að slökkva á. Ég get bara ómögulega skilið hvernig hægt er að tala svona mikið og hátt í svona langan tíma í einu, það vildi svo vel til að það voru laus sæti aftar í bílnum svo við færðum okkur eins langt frá vinkonunum og hægt var.

Á laugardeginum átti að skoða höll uppi í Sintraflallinu, en þá var bæði þoka og rigning svo það var hætt við það en þess í stað var skoðuð höll í Sintra og ég held að það hafi bara verið góð skipti. Þessi höll er í góðu ásigkomulagi og það er talsvert af húsgögnum í henni, sem gerir hana áhugaverðari til skoðunar.

DSC05214

Mynd úr einum af sölum hallarinnar í Sintra.

Um kvöldið var svo farið í spilavítið, við höfðum klukkustund til að skoða okkur um þar áður en sýningin byrjaði. Mér fannst eitthvað ónotalegt að vera þarna og sjá fólk í hundraða tali sitja við spilakassa og freista gæfunnar. Það vantar ekkert á flottheitin þarna inni, lifandi tónlist og allt það, en samt langar mig ekki þangað inn aftur. Þar sem sýningin fer fram er veitingasalur og fólk getur byrjað á að fá sér að borða og setið svo áfram og notið sýningarinnar, eða gert eins og við komið þegar sýnigin er að hefjast og setið þá við borð og fengið einn drykk sem er innifalinn í aðgangseyrinum, en þeir sem vilja meiri vökvun verða að greiða fyrir hana aukalega. Það kemur mikill fjöldi fólks fram í þessari sýningu og ekkert til sparað í lýsingu og litfögrum búningum. Þarna koma fram dansarar fimleikafólk, svona að nokkru leiti eins og í sirkus. Ég sá illa það sem fram fór á sviðinu en hafði samt gaman af að vera þarna. Þarna komu heyrnartækin líka að góðum notum, ég slökkti á þeim og notaði þau sem heyrnartappa, því tónlistin var oft svo sterk að það nötraði allt í salnum.

DSC05242 Mynd úr svarta salnum í spilavítinu þar sem sýningin fór fram.

DSC05262 Garðurinn við spilavítið.

Sunnudeginum var eytt í Lissabon, byrjað á að skoða minnismerki um landkönnuðinn og sæfarann Vasco de Gama, en að vonum eru Portúgalar mjög stoltir af honum og margt hér í landi sem ber nafn hans.

DSC05270 Kort af einni af siglingaleiðum Vasco de Gama á torginu við minnismerkið.

Því næst var ekið um götur Lissabon og leiðsögukonan sagði okkur hvaða byggingar og garðar bar fyrir augu hverju sinni. Síðdegis áttum við svo frjálsan tíma á svæðinu þar sem heimssýningin var að mig minnir ´98 en þar er nú almenningsgarður og margt að sjá meðal annars er þar mjög stórt fiskasafn, en við vorum búin að koma þar áður svo við notuðum tímann til að rölta þarna um svæðið.

DSC05280 Horft af sýningarsvæðinu að brú yfir tesjuána og brúin heitir Vasco de Gama.

Veður

Veður: 3,8°/22,1° léttskýjað

25 febrúar 2008

Veður

Veður: 5°/23,5° léttskýjað

24 febrúar 2008

Veður

Veður: 0°/20,1° úrkoma 1 mm.

22 febrúar 2008

Veður

Veður: 4,6°/24,1° léttskýjað.

Veðurathugunarmaðurinn ætlar í helgarferð til Lissabon, svo næsta veðurathugunn verður væntanlega á sunnudaginn.

21 febrúar 2008

Ný nettengingþ

Veður: 6,1°/25,5° léttskýjað.

Veðurfregnir féllu niður í gær vegna þess að við höfðum ekki nettengingu.

Vorum að skipta um netþjón og þá virkaði ekki routerinn sem við áttum með þessari nýju tengingu. Tölvumaðurinn okkar kom í gærkvöldi og leit á þetta og sá hvað að var og kom svo eftir hádegi í dag með nýjan router og þá komumst við inn á netið með það sama. Ég vona að þessi nýi netþjónn reynist betur en sá gamli, því það er búið að vera svo óstöðugt sambandið, verið að detta út af og til sem er alls ekki viðunandi, en það þýddi ekkert að kvarta.

19 febrúar 2008

Veður

Veður: 10°/20,5° úrkoma 29 mm. . Myndarlegar regnskúrir í dag og í einni þeirra sáust haglkorn skoppa á stéttum, en þau breyttust í vatn með það sama.

18 febrúar 2008

Veður

Veður: 10,7°/17,8° úrkoma 10 mm. Skúraveður og alskýjað.

17 febrúar 2008

Möndlutré

Veður: 6,6°/17,5° úrkoma 2 mm. Alskýjað og rigning síðdegis.

Fórum í sunnudagsbíltúr, eins og bera ber á sunnudegi, en að þessu sinni varð ferðin lengri en gengur og gerist með slíkar ferðir, eða alls 380 km. Markmiðið með ferðinni í dag var að sjá möndlutré í blóma og það tókst, en aðal möndluræktarsvæðið er nokkuð langt inni í landi. Að sjálfsögðu var ferðin líka notuð til að skoða einn bæ á leiðinni sem við höfðum ekki komið í áður. Þessi bær státar af kastalarústum, en hann á líka eina stóra og fallega kirkju byggða úr graníti, auk nokkurra smærri kirkna byggða úr sama efni. Mikið af gömlu húsunum í bænum eru líka byggð úr tilhöggnu graníti. Sunnudagsteikina borðuðum við í þessum bæ. Nautakjöt steikt í ofni í langan tíma á portúgalska vísu, en bragðast ágætlega og þjónustan var góð á þessum stað og ekki væri sanngjarnt að kvarta undan verðinu.

Gróður á þessu svæði er mun skemmra á veg kominn en hér á láglendinu, enda liggur þetta svæði í 200-800 metra yfir sjó, svo þarna er oft mun kaldara en hér.

Mömdlutré Þau eru falleg blómin á möndlutrjánum.

16 febrúar 2008

Laukur og blóm

Veður: 3,6°/21,7°skýjaslæða, sem hleypti sólinni í gegn af og til.

Þórunn fór á markaðinn í morgunn og keypti salat og laukplöntur. Eftir hádegi kom ég þessu ofan í moldina á meðan var Þórunn á fullu að vinna við blómin í garðinum.

Laukbúnt Laukbúnt með 150 laukum, en Þórunn keypti tvö slík.

Laukar Hér eru plönturnar komnar í moldina, en eftir að setja mold að þeim.

Laukbeð Laukbeðið og röð af salati meðfram því.

Sumarblóm

Svo eru blómin til að gleðja augað, ekki síður mikilvæg en matjurtirnar.DSC05177 Þessi er falleg

15 febrúar 2008

Veður

Veður: 4,8°23° léttskýjað

14 febrúar 2008

Gleðilegann Valentínusardag.

Veður: 0,5 248/20,5 248 léttskýjað.

Í dag var þessi sérstaki Valentínusardagur, en auðvitað reynir maður að hafa alla daga Valentínusardaga og það gengur bara aðeins misjafnlega vel eins og annað í tilverunni, þessi lukkaðist bara vel. Fyrir hádegi fórum við á ferðaskrifstofu og staðfestum pöntun á ferð til Madeira dagana 3-6. Mars, þegar því verki var lokið fórum við á góðan veitingastað að borða. Á heimleiðinni var komið við í búð og fest kaup á blómi, súkkulaði, jarðarberjum og ís, en þetta eru allt bráðnauðsynlegir hlutir á svona degi.

Síðdegis fórum við svo í gróðrarstöð til að kaupa meira af sumarblómum, sem væntanlega verður potað ofan í moldina á morgunn.

13 febrúar 2008

Veður

Veður: 3,2°/20,1° léttskýjað

12 febrúar 2008

Ófrýnilegur

Veður: -1,5°/22,2° heiðskírt.

Ég sagði frá því í gær að ég hefði lent í bardaga við illvígan her og sloppið lítið særður eftir því sem ég hélt þá, en afleiðingarnar hafa verið að koma í ljós í dag og nú er útlitið á mér orðið þannig að ég þyrfti ekki neina grímu til að fara á karneval, eða grímuball. Annað augað sokkið í bólgu og kinnin öll bólgin vinstra megin, einkennilegt hvernig bólgan fer niður eftir andlitinu og í kring um augað, því ég var bitinn ofan við gagnaugað.DSC05169

Svona var útlitið síðdegis í dag.

11 febrúar 2008

Stríð

Veður: - 1,8°/23° heiðskírt.

Það er ekki stríðlaust að vera bóndi og yrkja sína jörð í svita síns andlits. Ég bókstaflega lenti í stríði í dag og er sár eftir þegar ég var að vinna við að undirbúa skikann sem við ætlum að planta í lauk. Tvisvar sinnum tókst mér að forðast að verða særður með því að flýja árásaliðið og þar átti ég fótum mínum fjör að launa, en í þriðju árásinni var ég of seinn að forða mér og andstæðingnum tókst að særa mig á gagnauga, svo nú er það þrútið og á sjálfsagt eftir að verða skrautlegt með tímanum, en lífi og limum hélt ég en það sama er ekki að segja um hersveitina sem herjaði á mig hana stráfelldi ég í hörðum bardaga. Þessi illvígi her var búinn að helga sér land í safnhaugnum, einskonar hústökulið og slíkt lið er þekkt að því að láta ekki af hendi með góðu það húsnæði sem það er búið að leggja undir sig. Þetta voru sem sé vespur sem voru búnar að búa um sig þarna og tóku því ekki þegjandi að láta eyðileggja híbýli sín. Þær voru þarna á sveimi þegar ég byrjaði að róta í safnhaugnum, en ég vonaðist til að þær létu mig í friði, en þegar þær settust á höfuðið á mér og létu ófriðlega hörfaði ég, en svo endaði þetta með því að einni tókst að stinga mig og þá greip ég til gjöreyðingavopna, náði í flugnaeitur og sprautaði yfir svæðið og eftir smástund var allt liðið fallið í valinn og ég gat lokið mínu verki í friði.Vespa

Vespa, ógnvekjandi andstæðingur.

10 febrúar 2008

Veður

Veður: - 0,5°/24,2° heiðskírt

09 febrúar 2008

Veður

Veður: 2°/24,9° léttskýjað

08 febrúar 2008

Brúin opnuð.

Veður: 1,5°/24,4° léttskýjað.

Það var sannarlega merkisdagur hér í dalnum í dag, því brúin á þjóðveginum sem laskaðist í flóðum í nóvemberlok 2006 var opnuð til umferðar á ný klukkan níu í morgunn, svo nú erum við laus við að fara þessar krákustíga hér í gegnum þorpið sem við höfum þurft að notast við allan þennan tíma. Um leið og viðgerð fór fram á stöplinum sem gróf undan var brúin breikkuð til muna, svo nú er akbrautin mun breiðari en áður og einnig er búið að setja gangstéttir beggja vegna á brúna, en áður var dálítið varasamt að fara fótgandandi yfir brúna, því maður varð að ganga á akbrautinni.

Næstmerkasta fréttin úr dalnum í dag er að einyrkjarnir í Austurkoti potuðu kartöflunum sínum ofan í moldina í dag, en áður var bóndinn búinn að undirbúa jarðveginn svo það var ekki annað eftir en að pota útsæðinu á sinn stað og vona að því vegni vel.

07 febrúar 2008

Krúnurakað tré.

Veður: - 2,6°/24° léttskýjað.

Eins og sjá má á hitatölunum frá í dag var veðrið mjög notalegt og ég notaði góða veðrið til að hjóla á meðan Þórunn brá sér í klippingu. Veðrið var svo gott að það dugði að klæðast stuttermabol og stuttbuxum, en það er í fyrsta sinn á þessu ári sem slíkt er mögulegt.

Svona sem smá sýnishorn um það sem fyrir augu bar í dag set ég mynd af krúnurökuðu linditré og mímósum í blóma.

 DSC05151

DSC05153

06 febrúar 2008

Brúin.

Veður: 6,1°/22,1° léttskýjað. Eins og sjá má á hitatölunum í dag þá er svo að sjá að „kuldakastinu“ sem verið hefur síðustu daga sé lokið, allavega er spáð þægilegu veðri næstu daga.

Nú er svo að sjá að það sé verið að leggja lokahönd á endurbyggingu brúarinnar sem tengir okkur við umheiminn og heyrst hefur að hún verði opnuð til umferðar næsta föstudag. Þá eru liðnir tæpir fimmtán mánuðir frá því lokað var fyrir umferð um brúna vegna þess að það gróf undan einum stöpli brúarinnar vegna vatnavaxta í ánni. Allan þennan tíma hefur orðið að notast við þröngar götur hér í gegnum þorpið í stað þess að fara þjóðveginn.DSC05144

Í dag var verið að ljúka við að ganga frá handriðinu og þvo gangstéttina og það er svo að sjá að það séu síðustu handtökin við frágang áður en umferð verður hleypt á brúna.

Trén sem sjást þarna eru blómstrandi mímósur.

05 febrúar 2008

Kjötkveðjuhátíð

Veður: 9,4°/16,7° úrkoma 1 mm. Alskýjað.

Hér í landi er almennur frídagur í dag í tilefni kjötkveðjuhátíðarinnar, nokkuð mun um að fólk taki sér líka frí á mánudeginum og fái þannig langa helgi. Hér er ekki bolludagur eins og á Íslandi.

Í mörgum borgum og bæjum hér í landi er kjötkveðjudagurinn haldinn hátíðlegur með skrúðgöngum, okkur finnst nóg að sjá þetta einu sinni til tvisvar sinnum, því þetta er alltaf eitthvað svipað frá ári til árs, svo við vorum bara heima í dag, en þegar við fórum út að ganga mættum við nokkrum krökkum í grímubúningum í tilefni dagsins.

Við ætluðum að elda baunir og kjöt í tilefni dagsins, en Graca bauð okkur í mat og var með einhvern fiskrétt, svo við höfum bara okkar sprengidag seinna.

DSC05141 Krakkarnir sem við mættum á göngu okkar í dag.

04 febrúar 2008

Veður

veður: 2,9°/15,4° Talsvert skýjað, en samt góðar sólarstundir.

03 febrúar 2008

Veður

Veður: 5,3°/14,1° úrkoma 23 mm. Rigning í dag og fremur svalt.

02 febrúar 2008

Afmæli

Veður: 4,2°/18,7° úrkoma 22 mm. Léttskýjað í dag en rigning í gærkvöldi og fram á nótt.

Merkisdagur hér í dag, því hún Þórunn mín á afmæli og nú stendur aldurinn á hálfum tug, svo það er ærin ástæða til að fagna, þó maður fagni nú hverjum degi sem líður sem áfanga á lífsleiðinni, en hálfir og heilir áratugir þykja samt merkilegri áfangar, en einn og einn dagur sem bætist við lífsferilinn.

Samkvæmt hefðinni er ávallt grjónagrautur á borðum í Austurkoti á laugardögum, en það var að sjálfsögðu brugðið út af þeirri venju í dag og farið út að borða og í kvöld var enn haldið áfram við þá góðu iðju að borða góðan mat, því Þórunn bauð þrem vinahjónum okkar út að borða á góðum beitingastað í Albergaria.

DSC05134 Þórunn með gestum sínum í kvöld.

01 febrúar 2008

Veður

Veður: 1°/14,2° úrkoma 1 mm. Alskýjað og smávegis rigning um miðjan dag.