31 janúar 2008

Veður í janúar

Veður: 1,8°/17° léttskýjað.

Um síðastliðin áramót byrjaði ég á að skrá í töflu hitastig og úrkomu á hverjum degi og nú er komið meðaltal fyrir janúarmánuð.

Minnsti hiti var – 1,9° hæst komst hitinn í 22,4° og úrkoma í mánuðinum var 202mm. Meðaltal lægsta hita var 4,5°, en hámarkshita 16,7°

30 janúar 2008

Veður

Veður: - 0,5°/16,9° að mestu léttskýjað.

29 janúar 2008

Vorboði

Veður: - 1,9°/19° léttskýjað.

DSC05112 Myndina af þessu blómstrandi tré tók ég í dag í Albergaria, það er svo gott að sjá eitt og annað sem minnir á að vorið sé að nálgast, þó það sé enn ekki komið á beinu brautina. Ef að líkum lætur eiga enn eftir að koma svalir dagar inn í milli áður en hitinn verður jafn og stöðugur.

28 janúar 2008

Veður

Veður: - 0,1°/19,4° léttskýjað

27 janúar 2008

Veður

Veður: 0,1°/20,6° léttskýjað.

26 janúar 2008

Jógúrtte.

Veður: 2,5°/19,6° léttskýjað.

Fórum í góðan hjólatúr í dag, það er svo hressandi fyrir líkama og sál að hjóla eða ganga og anda að sér ferskum ilmi af gróðrinum, nú er það ilmurinn af mímósunni sem liggur í loftinu. Það er líka verið að byrja að plægja akrana fyrir vorsáningu og þegar farið er framhjá nýplægðum akri er gróðurangan í lofti af moldinni.

Nú svo er að lokum smásaga af sjónskertum manni sem var að finna sér til kvöldverð. Eins og góðum kokki sæmir fann hann til það sem átti að nota við kvöldverðinn og þar með var ein jógúrtdós, en eitthvað var sá sjónskerti utan við sig því hann setti tepoka og hunang í jógúrtdósina, því hvít tekrús og hvít jógúrtdós er ekki svo auðvelt að greina í sundur svona ofanfrá séð þegar þetta er í móðu. Sem betur fór áttaði sá sjónskerti sig á mistökunum áður en hann hellti heita vatninu í jógúrtið og jógúrt með hunangi bragðast bara vel.

25 janúar 2008

Blómgun

Veður: 11,5°/17,9° skýjað. Það gerði golu strax í gærkveldi sem varð til þess að kalda loftið náði ekki að setjast í dalinn okkar í nótt, eins og gerist venjulega á björtum og kyrrum nóttum.

Það er ýmislegt í umhverfinu hér sem segir okkur að vorið sé að nálgast, þó það sé enn ekki komið á beinu brautina. Nú er mímósan að sýna okkur sín falllega gulu og vel lyktandi blóm, blómstrandi tré eru líka komin með knúppa og sum þeirra eru að byrja að opna fyrir okkur blóm sín.

24 janúar 2008

Veður

Veður: 0,6°/19° Léttskýjað

23 janúar 2008

Veður

Veður: 0,6°/19,5° léttskýjað

22 janúar 2008

Vifta

Veður: 0,9°/19,8° Léttskýjað.

Þá er ný vifta tekin til starfa í eldhúsinu hjá okkur. Gamla eldhúsviftan bilaði skömmu áður en við fórum til Íslands, svo við skildum hana eftir hjá rafvirkja og vonuðumst til að hann gæti gert við hana á meðan við vorum í burtu, en hann sagði að það svaraði ekki kostnaði að gera við viftuna. Við erum búin að taka góðan tíma í að leita að nýrri viftu og þegar við vorum búin að finna slíkan grip var hann ekki til á lager svo við þurftum að bíða eftir að hún væri pöntuð.

Það þurfti að taka nýju viftuna í sundur til að geta fest hana upp og Þórunni leist ekki alveg nógu vel á að ég færi að þreifa mig áfram við þetta svo það varð úr að Graca vinkona okkar kom með sinn eiginmann til að koma viftunni á sinn stað og það gerði hann með miklum sóma í gærkvöldi. Nú er verið að vígja viftuna með því að sjóða kjötsúpu og ekki annað að sjá en hún ætli að skila sínu hlutverki með sóma.

21 janúar 2008

Veður

Veður: 1,9°/20,2° léttskýjað.

20 janúar 2008

Praia de Mira

Veður: 2,1°/22,4° heiðskírt.

Notuðum okkur góða veðrið í dag til að fara á ströndina og njóta þess að vera við sjóinn. Staðurinn sem við völdum að fara á í dag heitir Praia de Mira og er í um 50 Km. Fjarlægð héðan til suðurs. Þetta er einn falllegasti strandbærinn í grennd við okkur húsin eru í bland ný og gömul, en ekki bara íbúðarblokkir eins og í mörgum öðrum slíkum bæjum. Bærinn stendur við stórt lón sem gerir bæinn enn falllegri og í góða veðrinu var skemmtilegt að sjá húsin speglast í lóninu. Það var líka talsvert af öndum á lóninu og börn að gefa þeim brauð.

Fyrst af öllu byrjuðum við á því að fá okkur að borða og vorum reglulega heppin með veitingastað og fengum góðan mat.

Eftir matinn fengum við okkur gönguferð í fjörunni og tókum þar nokkrar myndir ég vona að ég verði duglegur og komi því í verk að setja þær inn á myndasíðuna mína fljótlega, en það er víst orðið æði langt síðan ég hef sett myndir þar inn. Útræði hefur verið stundað þarna um aldir þó engin sé höfnin, en er nú að mestu aflagt, nema sem sýningaratriði fyrir ferðamenn.

Ekki veit ég hvort hafið hefur krafist einhverra fórna nýverið, eða hvort verið hefur verið að minnast þeirra sem farist hafa áður fyrr með því að dreifa blómvöndum á sjóinn, en það var mikið af rósavöndum í flæðarmálinu og eins voru blómakransar í hálfa stöng á fánastöngum við minnismerki sjómannsins á fjörukambinum.

DSC05077 Svona líta bátarnir út sem notaðir eru til sjósóknar þarna, en það er búið að setja utanborðsmótor í þennan bát.

Minnismerki og kirkjan Blómakransar á fánastöngunum, minnismerki sjómannsins og kirkja byggð í sama stíl og hús fiskimannann sem þarna bjuggu voru byggð.

19 janúar 2008

Afleiðingar svefnleysis

Veður: 0,9°/21,2° heiðskírt.

Ekki veit ég hvers vegna mér tókst ekki að festa svefn síðurtu nótt fyrr en undir morgunn, en eins og oft vill verða þegar ég næ ekki að sofna fer ég að velta ýmsu fyrr mér og í nótt kom upp í huga mér hvort ekki væri möguleiki á að færa til húsgögn í hér í Austurkoti. Það er raunar nokkrum sinnum búið að færa til húsgögn hér og hjónarúmið er meðal annars búið að koma við í öllum herbergjum hússins og allar líkur á að það fái að halda sig áfram þar sem það er nú niðurkomið. Í nótt var ég fyrst að spá í hvort ekki gæti farið betur í skrifstofunni hjá okkur og þær vangaveltur leiddu svo til þess að mér fannst sem það myndi koma vel út að vera með skrifstofuna þar sem stofan er og öfugt. Ég bar þessa hugmynd undir Þórunni klukkan fjögur í nótt þegar hún rumskaði, svo hún gæti sofið á hugmyndinni til morguns, sem hún og gerði og eftir að hafa spáð í þetta um stund var ákveðið að ráðast í þessar breytingar. Þetta var talsverð vinna, en við vorum búin að koma öllu fyrir um kaffileytið og erum bara reglulega ánægð með árangurinn. Eins gott að ég sofi almennilega í nótt, svo ekki verði höfð endaskipti á húsinu á morgunn.

DSC05056 Stofan eftir fluttninginn.

DSC05053 Tölvurnar í nýju umhverfi.

18 janúar 2008

Vorveður.

Veður: 10,8°/18,4° skýjað að mestu, en sólin náði samt í gegn af og til, semsagt mjög þægilegt veður í dag og vísbendingar um að vorið sé ekki langt undan.

Við notuðum góða veðrið til að vinna í garðinum vorum aðallega í að klippa ýmsar plöntur, meðal annars fannst mér ástæða til að klippa ofan af horteinsíunum, því sumar þeirra voru vaxnar mér upp fyrir höfuð og ég sem man eftir þeim sem inniplöntum á Íslandi. Nú svo er líka búið að slá fyrsta slátt á þessu ári.

17 janúar 2008

Veður

Veður: 6,7°/15,4 úrkoma 1 mm. Þokuloft og smávegis súld í morgunn.

16 janúar 2008

Veður

Veður; 8,4°17° úrkoma 9 mm. Smáskúr fyrst í morgunn en síðan að mestu léttskýjað.

15 janúar 2008

Veður

Veður: 5,2°/13,9° úrkoma 11mm.Rignig mest af deginum.

14 janúar 2008

Kröftugur köttur

Veður: 4,4°/15,7° úrkoma 7 mm. Smáskúr í morgunn, en síðan að mestu léttskýjað.

Í morgunn var ákveðið að verkefni dagsins yrði að fara í IKEA í Porto til að fá sænskar kjötbollur að borða og til að kaupa þurrkgrind fyrir þvott í stað þeirra sem kettirnir brutu fyrir okkur. Það hljómar ekki sennilega að segja að kettir hafi brotið þurrkgrind, en er satt engu að síður, raunar er ég aðeins samsekur í þessu máli, því eitt sinn er við brugðum okkur af bæ sá ég að það var mikill matur eftir á diski kattarins hér á veröndinni og til að forða því að frændur hans stælu matnum datt mér það snjallræði í hug að setja diskinn upp á þurrkgrindina, því þar dytti engum ketti í hug að leita þar að mat. Grindin er um 1,8 m á hæð en stóð við borðið á veröndinni svo það var ekki mjög hátt af borðinu upp á grindina. Einhver köttur með lyktarskinið í lagi hefur átt leið þarna framhjá og vippað sér upp á grindina, en við það hefur grindin oltið um koll og brotnað við fallið og sjálfsagt hefur kisa brugðið illilega.

Matsalurinn í IKEA er á efri hæð hússins en þar eru einnig húsgögn og innréttingar, en á neðri hæðinni er vörulager og smávörur. Þegar við vorumbúin að koma bollunum á sinn stað tók ég stefnuna á stigann niður þar sem ég vissi að grindina væri að finna, en mín var nú ekki á því að sleppa góðri gönguferð um salinn þar sem húsgögnin eru og þar sem ég veit að það er bráðholt að fara í gönguferðir féllst ég umyrðalítið á að fara þessa gönguleið, en málið er að ég hafði ekki hugmyndaflug til að láta mér detta í hug að fara lengri leiðina, eins og konum er lagið þegar þær eru komnar inn í verslun.

Grindina fundum við og eins og gengur datt sitthvað smáræði í viðbót ofan í körfuna, en það er nú bara eins og vera ber í góðri verslunarferð.

DSC05045 Grindin sem keypt var í stað þeirrar sem kisa braut.

13 janúar 2008

Veður

Veður: 1,7°/11,7° úrkoma 25 mm. Alskýjað í morgunn og byrjaði að rigna fyrir hádegi.

Fórum á kaffihús í dag og nú verður reykingafólkið að híma úti við sína iðju, þó það sé rigning og hráslaglegt veður eins og í dag.

12 janúar 2008

Hvít jörð.

Veður:2,4°/15,9° Þokuloft í morgunsárið, en síðan að mestu léttskýjað.

Þórunn fór á markaðinn í morgun og keypti kálplöntur sem nú eru komnar með lögheimili hér í Austurkoti. Grasflötin fékk líka sinn fyrsta áburðarskammt á þessu ári, svo hún hefur enga afsökun fyrir að vera ekki með dökkgrænt og fallegt gras til augnayndis.

DSC05043 Það getur verið hvít jörð hér í Portúgal, þó ekki snjói. Eins og sjá má er alhvít jörð undir camomilutrénu af blómum sem fallið hafa af því.

11 janúar 2008

Veður

Veður: 6,5°/13° úrkoma 34 mm. Rigndi í gærkvöldi og nótt, en þurrt í dag og birti til síðdegis.

10 janúar 2008

Veður

Veður: 9,8°/16,4° sást til sólar af og til fram að hádegi, en alskýjað síðdegis og byrjaði að rigna í kvöld, en sú úrkoma fellur undir úrkomumælingu morgundagsin, því ég mæli úrkomu sólarhringsins klukkan sex síðdegis.

09 janúar 2008

Veður

Veður: 12,1°/16,6° úrkoma 13 mm að mestu skýjað, sá aðeins til sólar.

Naut þess að geta sest við tölvuna í morgunn og lesið blöðin eftir þriggja daga netleysi.

08 janúar 2008

Komin í netsamband

Veður: 13°/16,1° úrkoma 1 mm. Þokuloft

Loksins eftir hádegi í dag var athugað með hvers vegna við hefðum ekki nettengingu fyrir tölvurnar, en við erum búin að vera sambandslaus síðan á laugardag. Að venju var byrjað á að koma hingað heim og athuga hvort eitthvað væri bilað hér, en svo reyndist ekki vera og þá var athugað með netþjóninn og þar fannst bilun sem var lagfærð. Þvílíkur munur að vera lominn í samband á ný, þó maður eigi ekkert brýnt erindi á netið, en það er bara orðinn fastur liður í daglegu amstri að vera á netinu.

DSC05038 Svona lítur út í tölvuherberginu eftir breytinguna.

7. og 6.janúar

7.janúar.

Veður: 12,3 °/15,4° úrkoma 2 mm. Þokumóða og rigningarsuddi eftir hádegi.

Lukum við að ganga frá í kring um tölvurnar, en síðan var farið í að taka niður jólaskraut og jólaljós, Þórunn sá um allt innanhúss en ég sá um jólaljósin úti.

Börnin úr skólanum og leikskólanum komu í sína þrettándaheimsókn í dag ásamt kennurum sínum. Þau fara um þorpið syngjandi í von um að fá umbun fyrir í formi sælgætis og ef til vill smáaura. Afrakstrinum er svo skipt á milli þeirra í skólanum að lokinni ferð.

Annar dagur án nettengingar, spurning hvort við skiptum um sæti aftur í kvöld til að eyða tímanum, nei ég held við látum það vera, en líf án netsins er óneytanlega dálítið öðruvísi, en líka gott.

6. janúar, þrettándinn

Veður: 12,5°/15° þokumóða og rakt loft, en hékk þurr.

Fórum í góða gönguferð og Þórunn leit við hjá kirkjunni, en þar var uppboð til að afla fjár fyrir ýmsa starfsemi.

Nettengingin var biluð í morgunn, svo það var ekki hægt að setjast við tölvuna eins og venjulega og athuga með veðurspár og lesa blöðin. Þegar komið var framyfir hádegi án þess að hægt væri að tengjast netinu hringdi Þórunn í netþjónustuna, en þar var ekki hægt að ráða bót á þessu sambandsleysi, eina sem hægt var að gera þar var að tilkynna um bilunina og svo er bara að bíða og vona að einhvern tíman verði farið í að laga þetta.

Þórunn fékk þá hugmynd síðdegis að við flyttum búferlum með tölvurnar okkar á skrifborðinu, við semsagt hefðum sætaskipti og flyttum allt okkar hafurtask með okkur. Mér leist vel á þetta svo það var gengið í málið og tól og tæki aftengd og flutt til á skrifborðinu og svo að tengja allt upp á nýtt og koma snúrum og köplum snyrtilega fyrir á ný. Við vorum að til miðnættis, en þa´var bara eftir að fínpússa snúrudótið.

05 janúar 2008

Grár himinn

Veður: 7,3°/14,5° úrkoma 30 mm. Rigning í allan dag.

Garður í rigningu Tók þessa mynd út um glugga í dag, þarna sjást pálmar og tréí garðinum bera við regngráan himinin.

04 janúar 2008

Vorstörf

Veður: 2,1°/13,7° úrkoma 4 mm. Þoka fyrst í morgun, en sólin var búin að leysa upp þokuna um tíuleitið og eftir það var að mestu léttskýjað.

Þá má eiginlega segja að vorstörfin séu hafin hjá einyrkjunum í Austurkoti. Ég mannaði mig upp eftir hádegi og fór í bændaleik, byrjaði á að týna upp nokkrar fötur af appelsínum, það er hreint ótrúlegt hvað mikið getur hrunið af þessum trjám. Þar næst tók ég til við að tæta upp skika til að sá í bóndabaunum og planta í kálplöntum þegar búið er að fara á markaðinn og kaupa þær. Bóndabaunir áttum við og nú er búið að sá þeim.

Myndin hér fyrir neðan er af spildunni sem ég tætti í dag, ég setti ekki þessar appelsínur til að skreyta spilduna, þær slæddust bara með safnhaugamoldinni og þær mega alveg eins rotna þarna og hvar annars staðar.

DSC05028

03 janúar 2008

Reykingabann

Veður: 5,2°/11,8° skýjað og skúraveður, sólin náði samt að sýna sig nokkrum sinnum í dag. Úrkoma 35mm. Það voru þrumur í nótt og fram á morgunn. Við þessa úrkomu nú tvo síðustu daga hefur áin okkar hér í dalnum breyst úr lækjasprænu í það að verðskulda að vera nefnd á.

Núna fyrsta janúar tók gildi reykingabann hér í Portúgal, svo nú má hvergi reykja nema á heimilum og úti við. Ekki leyfðar reykingar á kaffihúsum, veitingastöðum né skemmtistöðum. Við fórum í verslunarmiðstöð í dag þar sem líka eru veitingastaðir og þar sást enginn vera að reykja og það var mikill munur hvað loftið þarna inni var betra en verið hefur. Það er nú svo að maður gerði sér ekki grein fyrir því hvað loftið var reykmettað fyrr en reykurinn er horfinn úr loftinu og loftið er bara nokkuð ferskt,næstum eins og úti.

02 janúar 2008

Út á hálan ís.

Veður: 0,2°/13,7° úrkoma 30 mm. Rigning í gærkvöldi og skúrir í dag.

Loksins, loksins rigndi eitthvað að gagni hér vona bar að það verði eitthvað framhald á rigningu hér.

Við hættum okkur út á hálan ís í kvöld með því að skrifa undir samkomulag við annað símafélag um nettengingu og síma. Við höfum einu sinni áður reynt að skipta um netþjón er vorum þá svo óheppin að lenda á lélegri þjónustu, enn lélegri en við höfðum, svo við neyddumst til að snúa til sama lands á ný. Við höfum verið í viðskiptum við það sem einu sinni var ríkisfyrirtæki en nú er búið að einkavæða, en þjónustan hefur alla tíð verið mjög léleg. Ég er lengi búinn að fylgjast með þessu félagi sem við gerðum samninginn við í kvöld og það fer gott orð af því, en það hefur ekki verið með þjónustu á þessu svæði fyrr en nú. Það opnaði fyrir þjónustu hér fyrir viku og í kvöld voru hér sölumenn frá þeim.

Við eigum að tengjast eftir tvær til þrjár vikur og vonandi gengur betur nú en í fyrra sinn þegar við reyndum að skipta um fyrirtæki. Við höldum sama símanúmeri áfram.

DSC05025 Sölufólkið að störfum.

01 janúar 2008

Loksins rigning

Veður: -1,9°/11,1° alskýjað og um kaffileitið byrjaði að rigna smávegis og nú í kvöld er komin úrhellisrigning. Það var alveg kominn tími á að við fengjum alvöru rigningu hér, svo það má segja að nýja árið byrji vel.

Við kvöddum gamla árið og heilsuðum því nýja í rólegheitum hér heima, horfðum á sjónvarp aðallega frá Þýskalandi því af einhverjum ástæðum kunnum við ekki að meta skemmtidagskrá hérlendra. Það var talsvert skotið upp af flugeldum, en mest af þeim springur bara með hvelli en fylgir engin ljósadýrð með. Þetta er sama gerð af flugeldum og notaðir eru við hátíðir hjá kirkjunni. Það var heilmikill hávaði um miðnætti, því margir fóru út á götu og börðu þar potta og pönnur af miklum móð.