31 ágúst 2008

Veður

Veður: 18,2/30,3° skýjað fyrst í morgunn, en orðið léttskýjað um hádegi.

30 ágúst 2008

Veður

Veður: 18,8/27,7° úrkoma 2,7mm. Að mestu skýjað í dag og rigndi smávegis um miðjan dag.

Ólýginn sagði mér.

Ég hef sem betur fer aldrei upplifað að hani sem búið er að steikja og kominn á diskinn hjá mér rísi upp frá dauðum og gali þrisvar, en samt sem áður segir sagan að slíkt hafi gerst. Þetta á að hafa gerst í borg sem nú heitir Barcelos og er hér í norður Portúgal. Við fórum síðastliðinn fimmtudag og skoðuðum þessa borg og að sjálfsögðu er haninn tákn borgarinnar og nokkrar styttur af honum á víð og dreif um borgina. Upphaflega sagan er sú að pílagrímur sem var á leið til Santiago De Compustella á Spáni var handtekinn og ákærður fyrir þjófnað,en þrátt fyrir að hann héldi fram sakleysi sínu var hann dæmdur til hengingar´Sá dæmdi vissi að dómarinn ætlaði að snæða hana morguninn sem átti að hengja hann og þá greip hann til þess ráðs til að sanna sakleysi sitt að segja við dómarann. Það er til marks um sakleysi mitt að haninn sem þú ætlar að snæða á morgunn mun lifna við á diski þínum og gala þrisvar og þetta gekk eftir og þar með var pílagrímurinn látinn laus og dómarinn sjálfsagt þurft að verða sér úti um annan morgunverð daginn þann. Við tókum enga áhættu af að verða fyrir svona reynslu þarna og fengum okkur fisk að borða daginn sem við vorum þarna í heimsókn og sem betur fór tók fiskurinn ekki uppá því að vera með sporðaköst eftir að hann kom á diskinn.

Núna er þessi bær þekktur fyrir leirmuni sem þar eru framleiddir og ýmsa aðra handavinnu. Til að selja þessa muni er markaður í bænum á hverjum fimmtudegi. Þessi markaður er mjög stór, en með svipuðu sniði og aðrir markaðir hér í landi. Mér virtist sem markaður sígaunanna hefði mest aðdráttarafl. Þarna eru að sjálfsögðu tuskur af öllum gerðum til að toga og teygja, leirmunir af öllum gerðum, húsgögn meira að segja gott úrval af sófasettum, ávextir grænmeti og annað matarkyns auk ótal margs annars sem of langt yrði upp að telja. Set eitthvað af myndum með þessum pistli til að sýna lítið eitt af því sem fyrir augu bar.

Það er gaman að rölta um þennan bæ og skoða mannlífið á markaðnum og götunum, einnig er þarna sérlega falllegur garður, sem vel er þess virði einn og sér að gera sér ferð til að skoða.

DSC00503 Ein af styttunum af hananum .

DSC00491 Mynd úr garðinum.

DSC00486 Einn af´húsgagnabásunum.

DSC00483 Líflegt hjá sígaununum.

DSC00470 Sýnishorn af leirmunum og þar á meðal eru styttur af hananum sem lifnaði við.

DSC00463 Þreytuleg sölukona.

 

29 ágúst 2008

Veður

Veður: 17,4/33,7 Léttskýjað um miðjan dag, en skýjað í mogunn og í kvöld.

27 ágúst 2008

Haustið nálgast.

Veður: 17,3/33,1° Skýjað/léttskýjað.

Enn sjást engin merki þess á veðrinu hér að haustið sé á næstu grösum, en það er samt sitthvað sem bendir til að svo sé. Sólin er orðin löt á fætur og hallar sér fyrr á kvöldin og í dag þegar við vorum á heilsubótargöngu hér í bænum þá fann ég á einum stað ilm af gerjuðum vínberjum, en sá ilmur eykst eftir því sem líður á haustið og nær hámarki í lok september.

26 ágúst 2008

Veður

Veður: 13,8/30,1° skýjað í morgunn en orðið léttskýjað undir hádegi.

25 ágúst 2008

Breytt áætlun

Veður: 17,3/30,3° léttskýjað.

Fyrir nokkru fórum við meðfram ströndinni til norðurs í áttina að Porto, en sá vegur liggur í gegnum marga skemmtilega og falllega bæi. Það er líka hægt að komast til Porto héðan eftir tveim hraðbrautum og þær notum við gjarnan þegar við erum að flýta okkur t.d. til að komast á flugvöllinn, en frá hraðbrautunum er lítið að sjá, allt öðruvísi en að fara eftir þjóðvegunum, þá er maður meira í hringiðu mannlífsins. Að aflokinni þessari ferð ákváðum við að fara við gott tækifæri meðfram ströndinni fyrir norðan Porto og þeirri áætlun var hrundið í framkvæmd í morgunn. Margt fer samt öðruvísi þegar verið er að ferðast en búið er að ákveða, eða allavega var það svo í dag. Þegar við áttum skammt eftir ófarið að ströndinni komum við í bæ sem okkur fannst að áhugavert værið að skoða og okkur fannst hann svo áhugaverður að við eyddum lunganum úr deginum við að skoða bæinn og ákváðum bara að fara einhvern tímann seinna þarna norður með ströndinni. Það er það góða við landslag og bæi að það er nokkurn veginn öruggt að þeir verða áfram á sínum stað. Þessi bær sem okkur fannst svona gaman að rölta um heitir Vila Do Conde og stendur á árbakka skammt frá sjó og í ánni eru hafnarbakkar og þaðan eru stundaðar veiðar. Þarna er enn vatnslögn frá tímum rómverja og upphaflega var hún 26 km. löng og enn er talsverður hluti hennar uppistandandi. Þarna er stórt klaustur og það kom mér einkennilega fyrir sjónir að sjá rimla fyrir öllum gluggum, svo ég hélt að þetta væri fangelsi, en var upplýstur um að þetta væri klaustur. Hvers vegna þarf járnrimla fyrir glugga á húsi, ef fólk er þar inni af fúsum og frjálsum vilja?

DSC00430 Gamalt seglskip í höfninni, stóra byggingin er klaustrið.

DSC00432 Kúlulagaða húsið á klettinum er kapella.

DSC00442 Falllegur garður í Vila Do Conde.

24 ágúst 2008

Stór laukur.

Veður: 11,6/30,3° léttskýjað.

Ég sá það í hendi mér í dag að það getur verið mjög varasamt að fara nákvæmlega eftir því sem segir í mataruppskriftum, en ég nota nú bara slump aðferðina, svo ég þarf ekki að vera með neinar áhyggjur af réttum eða röngum uppskriftum þegar ég malla. Tilefni þess að ég fór að spá í þetta með uppskriftir er að í dag sá ég þann stærsta lauk sem ég hef augum litið og það yrði eitthvað undarleg útkoma, ef sett væru eitt til tvö stykki af þessari stærð í uppskrift fyrir fjóra. Okkur var gefinn einn risalaukur í dag og þegar hann var vigtaður reyndist hann vera 1459 grömm. Hjónin sem gáfu okkur þennan lauk búa hér norður í landi og sögðust hafa fengið um það bil eitthundrað lauka af þessari stærð úr garðinum sínum í sumar. Hér fyrir neðan er mynd sem ég tók af þessum risalauk og til samanburðar er meðalstór sítróna og eldspýtustokkur af stærri gerðinni.

DSC00376

23 ágúst 2008

Veður

Veður: 10/31,2° léttskýjað

22 ágúst 2008

Veður

Veður: 13,4/29,5° skýjað/léttskýjað.

21 ágúst 2008

Veður

Veður: 9/29,8° hálfskýjað.

20 ágúst 2008

Þarfasta þjóninum gert til góða.

Veður: 7,4/28,7° léttskýjað.

Verkefni dagsins í dag var að fara með þarfasta þjóninn okkar hér í Austurkoti í 30þús. Kílómetra skoðun. Nú á hann að geta þjónað okkur næstu 15þús. Kílómetrana, ef hann fær smávegis bensín til að næra sig, en hann er ákaflega neyslugrannur lætur sér nægja fimm lítra á hverja hundrað kílómetra. Það passaði á meðan þarfasta þjóninum var gert til góða að fá sér gönguferð í næsta verslunarkjarna sem er í þriggja kílómetra fjarlægð, tylla sér þar niður og fá sér kaffibolla og rölta svo til baka.

19 ágúst 2008

Veður

Veður: 9,1/27,6° Þoka í lofti fyrst í morgunn, en síðan léttskýjað.

18 ágúst 2008

Veðu

Veður: 12,3/29,6 skýjað í morgunn, en léttskýjað síðdegis.

17 ágúst 2008

Smekksatriði?

Veður: 14/30,1° léttskýjað að mestu.

Í Aveiro var sérlega fallleg járnbrautarstöð skreytt með myndum gerðum úr flísum. Þarna voru myndir frá ýmsum stöðum í Aveiror og nágrenni og einnig myndir frá atvinnulífinu á þeim tíma sem stöðin var byggð. Þessi járnbrautarstöð var orðin of lítil og svaraði engan veginn kröfum tímans um öryggi og annað þvíumlíkt. Það þurfti meðal annars að ganga yfir járnbrautarlínur til að komast í suma vagnana, slíku fylgir að sjálfsögðu mikil slysahætta. Nú er búið að byggja nýja stöð sem uppfyllir allar kröfur um öryggi og er mun þægilegri í alla staði en sú gamla. Nýja stöðin er að mestu leiti neðanjarðar, nema anddyri og brautarpallar. Gamla stöðvarhúsið er enn á sínum stað og vonandi kemur einhver starfsemi í það svo því verði haldið við.Hér fyrir neðan set ég tvær myndir af gamla stöðvarhúsinu og eina mynd af anddyri nýju stöðvarinnar og svo verður fólk að eiga það við sinn smekk hvor byggingin er falllegri.

DSC00280 DSC00282 DSC00281

16 ágúst 2008

Veður

Veður: 13,2/29,2° úrkoma 8,9 mm. Alskýjað í morgunn og þá féll þessi úrkoma, síðdegis voru góðar sólarstundir.

15 ágúst 2008

Veður

Veður: 9,1/29,6° léttskýjað

14 ágúst 2008

Veður

Veður: 9/26,7° léttskýjað.

13 ágúst 2008

17 ár í Portúgal

Veður: 8/27,9° léttskýjað.

Nú er sumum farið að förlast alvarlega, ég nefni engin nöfn, en það gleymdist alveg þar til í kvöld að Þórunn sá að ég er búinn að vera hér í Portúgal í 17 ár. Það er bót í máli að við reynum að gera eitthvað skemmtilegt á hverjum degi og dagurinn í dag var þar engin undatekning. Við fórum í morgunn hér inn með Vouga ánni á bílnum að gamalli og fallegri járnbrautarbrú sem liggur yfir ána. Járnbrautarferðum er löngu hætt þarna og nú er búið að gera flottan göngustíg þar sem járnbrautin gekk áður og á þessum stíg fórum við í góða gönguferð í morgunn.

DSC00236 Hér er Þórunn á göngustígnum góða

Að lokinni gönguferðinni fórum við svo á veitingastað við ána til að fá okkur að borða. Við höfum oft farið framhjá þessum stað og rætt um að það væri fróðlegt að reyna hvernig maturinn bragðast þarna. Nú vitum við það og við erum alveg sammála um að á þennan stað þurfum við ekki að fara oftar, einu sinni er alveg nóg. Það er notalegur salur þarna og svo góð aðsókn að það var með naumindum að það væri laust sæti handa okkur. Það virtist vera mikið um fastagesti þarna og heimilislegur portúgalskur matur, sem engin ástæða er til að hrópa húrra fyrir.

12 ágúst 2008

Að grípa tækifærið.

Veður: 17,4/27,5° úrkoma 11,4 mm. Þessi úrkoma féll eftir mælingu hjá mér í gær og í nótt, í dag var þurrt og að mestu léttskýjað.

Það getur komið sér vel að hafa myndavélina með í farteskinu hvert sem farið er, því maður veit aldrei fyrirfram nema eitthvað beri fyrir augu sem mann langar til að varðveita á mynd, eins og í kvöld þegar við vorum í heilsubótar göngu hér um þorpið. Fyrst smellti Þórunn einni mynd af kirkjunni um leið og við gengum framhjá henni, en það er svo sem hægt að taka mynd af kirkjunni hvenær sem er, því að því er ég best veit er kirkjan ekkert á förum á næstunni. Það gegndi öðru máli með næsta myndefni, sem mér fannst ég endilega þurfa að eiga mynd af, því þar er um að ræða hlut sem ég veit ekki hversu lengi til viðbótar verður í notkun. Þarna er ég að tala um vörubíl af Bedford gerð, sem ég held að sé að verða fimmtugur og mér finnst með ólíkindum að skuli vera gangfær enn þann dag í dag, því þetta þóttu ekki sérlega endingagóð tæki á Íslandi. En þarna var gamli Bedfordinn í fullu fjöri við að selflytja tré utan úr skógi á nýrri og stærri bíl, sem skilar svo trjánum áfram til verksmiðjunnar sem vinnur úr þeim trjákvoðu.

DSC00228 Það er ekkert fararsnið á kirkjunni í Vale Maior.

DSC00230 Þarna gefur að líta þróun í gerð vörubifreiða í hálfa öld. Það var mikið af þessum Bedford bílum í notkun fyrst þegar ég kom hingað, en nú er orðið fágætt að sjá þá á vegunum

 

11 ágúst 2008

Auðvelt að rækta.

Veður: 19/26,3° úrkoma 1,4 mm. Alskýjað í dag og smávegis úrkoma í morgunn.

Það er ótrúlegt hvað blóm og annar gróður getur vaxið hratt hér í landi, því til sönnunar er ég með tvær myndir sem ég tók hér á veröndinni.

Nýmálað

Þessi mynd var tekin þrettánda maí og það var ekki fyrr en hálfum mánuði síðar sem sett voru blóm í beðið við vegginn.

DSC00086

Þessi mynd er svo tekin fjórða ágúst og þá voru blómin fyrir nokkru búin að ná þessari hæð.

10 ágúst 2008

Breytingar.


Veður: 13,7/30,3° Skýjað fyrst í morgunn, léttskýjað um miðjan daginn, þykknaði upp síðdegis og kominn rigningarúði í kvöld.

Hér á bæ erum við iðin við að færa til húsgögn og breyta til innan dyra. Í eldhúsinu er lengst af búinn að vera kæliskápur með nokkuð stórum frysti og þar að auki frystiskápur, frystirinn við kæliskápinn hefur oft ekki verið í notkun. Í gær tæmdi Þórunn frystiskápinn í frystinn við kæliskápinn og okkur kom saman um að það væri mesta vitleysa að vera með svona stórann frysti, en þá var vandamálið hvað hægt væri að gera við frystiskápinn því ekki kunnum við, við að fleygja honum sí sona. Ég fór samt í fyrsta áfanga með skápinn út á verönd og svo var ætlunin að spyrja Mathild grannkonu okkar hvort hún vissi um einhvern sem vildi þiggja svona grip. Þegar svo Þórunn ámálgaði þetta við grannkonuna síðdegis var hún ekki lengi að finna samastað fyrir skápinn, sagðist hafa not fyrir hann sjálf, svo nú er skápurinn kominn yfir til hennar. Manúel sótti hundrað ára gamlar hjólbörur með járnhjóli og að öðru leiti smíðaðar úr tré, sem sé algjör forngripur en dugði vel til að flytja skápinn á milli húsa. Nú er rýmra í eldhúsinu og brauðvélin og hrærivélin komin á hillu sem var aflokuð á bak við kælana. Best að ég setji tvær myndir með þessu sem sýnir fyrir og eftir þessa breytingu.

DSC00219

Eftir breytinguna.


Svona leit þetta út áður fyrr.

09 ágúst 2008

Veður

Veður: 10,7/32,3° léttskýjað.

08 ágúst 2008

Upprifjun

Veður: 9,8/30,9° léttskýjað.

Verkefni dagsins var að leita að stað hér norður með ströndinni í átt að Porto, ég heimsótti þennan stað seint á síðustu öld svo það var dálítið farið að fyrnast yfir með nákvæma staðsetningu á staðnum. Hinsvegar sá ég mynd af staðnum greinilega í huga mér, enda staðurinn sérstakur að mörgu leiti. Þarna er nokkuð breið sandfjara, en alveg í fjöruborðinu er klettur og á honum stendur lítil kapella. Við fórum gamla þjóðveginn meðfram ströndinni til norðurs og ég þorði ekki annað en að við héldum okkur sem næst ströndinni, því þó ég þættist nokkurn veginn muna hvar þetta væri fannst mér vissara að treysta ekki um of á minnið að þessu sinni. En staðinn fundum við og þá rifjaðist staðsetningin strax upp og myndin sem ég hafði geymt í huga mér af þessum stað var alveg rétt. Þegar ég var þarna á síðustu öld var bara gata meðfram sjónum en nú er búið að gera flotta göngugötu meðfram sjónum og þar upp af er komið mjög fallegt torg með ótal gosbrunnum.

Miramar, kapellan Kapellan í fjöruborðinu við Miramar.

DSC00170 Byggð á kletti í fjöruborðinu.

Leikur með vatn Skemmtilegir gosbrunnar.

 

 

07 ágúst 2008

Veður

Veður: 17,1/28,3° léttskýjað

06 ágúst 2008

Til fyrirmyndar

Veður: 13,4/30,1 hálfskýjað.

Eitt sinn var ég búinn að minnast á að það væri til fyrirmyndar göngu og reiðhjólastígur sem búið væri að leggja eftir gamalli og aflagðri járnbrautalínu meðfram Vougaánni. Síðast þegar ég fór þarna um var þjöppuð möl á stígnum, en þegar ég fór þarna um í dag var búið að bæta um betur og malbika stíginn, svo nú er enn léttara að hjóla eftir honum.

Göngu og hjólastígur Góður göngu og hjólastígur.

Vegrið Skemmtilegt vegrið.

Vegvísir Falllegur vegvísir.a

Við Vougaána Það er margt sem gleður augað á þessari leið.

 

05 ágúst 2008

Allt er þá þrennt er.

Veður: 17,2/30,7° þokuloft fram til hádegis, en léttskýjað síðdegis.

Dagurinn í dag fór dálítið á annan veg, en ég reiknaði með í gærkvöldi þegar ég lagðist á mitt græna og fór að sofa. Númer eitt var að það var þoka í lofti í stað sólskins sem ég hafði búist við í þessum sólarmánuði er það stór plús að fá þoku til að hvíla sig á sólskininu. Næsta atriði var að rafmagnið fór af og var rafmagnslaust í klukkustund, sem kom svo sem ekki að sök, en þriðja og alvarlegasta atriðið var að slanga sem liggur frá dælu í botni brunnsins var rorðin lek. Slangan er raunar búin að vera lek í nokkurn tíma en svo lítið að það kom varla að sök, allavega hummaði ég það fram af mér að gera við hana, þar til í morgunn að lekinn hafði aukist svo mikið að ekki var lengur viðunandi. Brunnurinn er ellefu metra djúpur svo það er talsvert erfitt að ná dælunni upp á yfirborðið, þess vegna hafði ég trassað að gera við lekann eins lengi og mögulegt var. Við Þórunn hjálpuðumst að við að ná dælunni upp og fjarlægja leka bútinn úr slöngunni, og vonuðum að þar með væru þessu verki lokið að þessu sinni. Af fenginni reynslu vorum við ekki neitt sigurviss, því þessi slanga er mesti gallagripur og hefur reynst illa og komið á hana leki hvað eftir annað, en okkur hefur ekki tekist að finna neina slöngu sem er sterkari. Það fór líka svo í morgunn að þrisvar sinnum máttum við hífa dæluna upp áður en yfir lauk, því það kom alltaf fram leki á nýjum stað. Nú er ekki annað að gera en vona það besta og það komi ekki nýtt gat að þessa vandræða slöngu alveg á næstunni.

DSC00109 Gallagripurinn.

 

04 ágúst 2008

Veikari/sterkari???

Veður: 13,9/33,5° léttskýjað.

Gegnum tíðina hefur oft verið talað um konur sem veikara kynið, en ég held að þetta sé öfugmæli og sennilega tilkomið af því að við karlarnir eigum erfitt með að viðurkenna að við séum veikara og vesælla kynið. Skoðum lítið dæmi, þar sem ég varð að viðurkenna mig sem veikara kynið rétt einu sinni enn. Svo er mál með vexti að ég geng jafnan með axlatösku sem ég geimi í gleraugun mí, lítinn sjónauka og ýmislegt smádót sem ég þarf á að halda vegna minnar sjónskerðingar og þar að auki er ég jafnan með myndavél í töskunni, því maður veit aldrei fyrirfram hvenær eitthvað ber fyrir augu sem manni langar til að taka mynd af. Núna á dögunum fékk ég mér minni myndavél og nettari en ég hef átt, svo ég gat minnkað töskuna sem ég nota undir dótið mitt. Þórunn bauð mér að nota eitt af sínum veskjum sem var hæfilega stórt til þessa brúks, en mér fannst það vera grunsamlega þungt miðað við stærð, enda kom í ljós þegar ég fór að skoða það að leðrið í því var mjög þykkt og axlarólin þvengmjó, svo mér fannst sem hún gæti rist mig í sundur, en þetta veski var Þórunn búin að bera með bros á vör og fannst bara þægilegt. Í dag fórum við svo í kínverska búð og keyptum létt veski með breiðri ól, svo nú þarf ég ekki lengur að kvarta og kveina undan byrðinni sem ég ber. Hvort kynið er svo það veikara??????

DSC00099 Alvöru leðurveski og kínversk tuðra hlið við hlið.

 

03 ágúst 2008

Veður

Veður: 13/34,1° léttskýjað.

02 ágúst 2008

Veður

Veður: 12,1/31,9° léttskýjað

01 ágúst 2008

Veður

Veður: 10,9/28,2° að mestu léttskýjað.