31 júlí 2008

Veður í júlí

Veður: 15,8/27,2° úrkoma 2,7 mm. Alskýjað í dag og smávegis rignin.

Nú verð ég að reyna að setja upp spekingssvip eins og Trausti veðurfræðingur þegar hann er spurður um hitatölur mánaðarins, því nú birti ég tölur júlimánaðar.

Það var mikill munur á milli lægsta og hæsta hita 5,5°/39,7° og meðaltalið af þessu verður 22,4. Úrkoman mældist 13,8mm.

clip_image001

30 júlí 2008

Veður

Veður: 8,6/31,3° að mestu léttskýjað.

29 júlí 2008

Veður

Veður: 9,2/29,5° Léttskýjað.

28 júlí 2008

Við ströndina.

Veður: 14/30,1° úrkoma 1,4 mm. Þessi úrkoma féll seint í gærkvöld og í morgunn, en í dag var að mestu léttskýjað.

Í gær ferðuðumst við inn í land um dali og fjöll, til mótvægis fórum við í dag niður að sjó. Það er orðið margt um manninn á baðströndunum núna, en enn fleira fólk verður að sóla sig þegar ágústmánuður gengur í garð. Ágústmánuður er aðal sumarleifismánuðurinn hér í landi. Læt fylgja neð nokkrar myndir til að sýna stemminguna við sjóinn í dag.

016 Hér nýtur fólk góða veðursins.

003 Veiðimennirnir slógu ekki slöku við, þó aflinn væri í engu samræmi við eljusemina.

013 Aðrir þutu um á hraðskreiðum bátum.

014 Vitinn fylgdist með öllu saman og gat sig hvergi hreyft.

 

27 júlí 2008

Góður dagur.

Veður: 13,1/31,2° úrkoma 0,7mm. skýjað í morgunn, en að mestu léttskýjað um miðjan daginn, þykknaði upp undir kvöld og náði meira að segja að rigna í kvöld.

Sunnudagsferðinni að þessu sinni var heitið til bæjar sem heitir St Comba Dao og auk þess að vera skemmtilegur og skoðunarverður bær með gömlum húsum tengist hann sögu Portúgals sterkum böndum, því í þessum bæ er síðasti einræðisherra Portúgals fæddur.

Eitt sinn þegar við vorum á ferð í þessum bæ borðuðum við á skemmtilegu veitingahúsi, sem staðsett var í gömlu húsi og var mjög sérstakt í útliti að innan. Við ákváðum að borða þarna aftur í dag, en komum þá að lokuðum dyrum og þegar við könnuðum málið kom í ljós að staðurinn er búinn að vera lokaður lengi. Þegar við spurðumst fyrir um annann veitingastað var mælt með stað sem er í sundhöll bæjarins og þangað héldum við. Þessi staður var hinn ágætasti og með fallegt útsýni yfir nágrennið, en var ekki eins eftirminnilegur og staðurinn í gamla húsinu. Maturinn og þjónustan var góð, þó umgjörðin væri önnur. Eftir matinn fórum við í skoðunarferð um bæinn, en völdum svo aðra leið heim en við komum til bæjarins. Ákváðum að koma við í bæ sem heitir penacova, því hann er í fallegu umhverfi upp til fjalla og útsýnið frá bænum er alveg frábært.

Kirkjan Horft að kirkjunni í St. Comba Dao.

2008-07-27 037 Útsýni af bæjartorginu í Penacova.

 

26 júlí 2008

Garðálfar

Veður: 18/32,3° slatti af skýjum á himinhvolfinu af og til, en bjart þess á milli.

Unnum í garðinum í morgunn við snyrtingu, eins og venjulega fór mest af tímanum í að fjarlægja arfa. Nú svo þarf líka að klippa til blóm og setja stuðning við þau blóm sem eru hávaxinn, grasflötin var líka sleginn og sitt hvað fleira smálegt sem ekki tekur að minnast á. Við verðlaunuðum okkur svo fyrir dugnaðinn með því að fara á kaffihús síðdegis.

25 júlí 2008

Sumarfrí

Veður: 17,8/25,9° úrkoma 4,8 mm. Alskýjað.

Það er fremur sjaldgæft að það rigni hér í lok júlí, en samt sem áður er það staðreind að það rigndi í morgunn og svo gerði aðra skúr um hádegi. Sennilegasta skíringin á þessari óvæntu úrkomu er sú að vinkona okkar hér er á ferðalagi núna og það bregst varla að hún fái rigningu þegar hún fer í frí. Sumir virðast bara einfaldlega vera óveðurskrákur.

Í morgunn var síðasti leikfimitími fyrir sumarfrí og leikfimin hefst svo að nýju þann 4. September. Vonandi verð ég duglegur að hjóla og ganga á meðan fríið í leikfiminni er til að haldaa aðeins í horfinu með hreifingu.

24 júlí 2008

Hrísgrjón

Veður: 12,5/30,9° smávegis skýjað af og til.

Í síðustu viku þegar við fórum í ferðalagið hér suður í land, þá ókum við eftir nýrri hraðbraut. Þessi hraðbraut er uppbygð á sama hátt og allar aðrar hraðbrauti, ýmist grafnar geilar ofan í hæðir eða byggðar brýr yfir heilu dalina. Á einum stað lá hraðbrautin meðfram og síðan yfir hrísgrjónaræktarsvæði. Ég hafði séð svæði hingað og þangað um landið þar sem eru ræktuð hrísgrjón , en gerði mér ekki grein fyrir að það væri ræktað á svona stóru svæði eins og ég sá þarna. Við ákváðum þegar við sáum þetta svæði að fara og skoða það nánar og það gerðum við í dag. Það var gaman að aka meðfram hrísgrjónaekrunum og geta farið út úrr bílnum og virt ræktunina fyrir sér í nærmynd. Það var ekki síður fróðlegt að aka undir hraðbrautina þar sem hún lá þvert yfir akurlendið og sjá hversu gríðarlegt mannvirki er þarna um að ræða.

2008-07-24 008 Hrísgrjónaræktun.

2008-07-24 007 Hrísgrjón og hraðbrautin yfir akurinn.

2008-07-24 011 Undir hraðbrautinni.

 

23 júlí 2008

Veður

Veður: 18,1/31,1° skýjað/Léttskýjað.

22 júlí 2008

Veður

Veður: 15,7/37,5° léttskýjað.

21 júlí 2008

Veður

Veður: 15,7/35,3°þokuloft í morgunn, síðan léttskýað.

20 júlí 2008

Merkilegt safn.

Veður: 15,9/34,5° þokuloft fyrst í morgun, en síðan léttskýjað.

Þá er komið að því að segja frá síðari degi ferðalagsins okkar í vikunni sem nú er nýbúin að kveðja. Þennan dag ákváðum við að fara lítið eitt lengra til suðurs í lítið þorp sem heitir Sobreiro, því þar er staðsett mjög merkilegt og sérstakt safn. Mér finnst fremur leiðinlegt að skoða söfn, en það gegnir öðru máli með þetta safn, því það er einhvern veginn meira lifandi en venjuleg söfn. Safnið er í mörgum litlum húsum og svo er líka eftirlíkingar af þorpi þar sem eru brúður við ýmis störf. Það eru líka brúður og sumar í fullri stærð þar sem líkt er eftir íveruhúsum fólks fyrir svo sem rúmum eitt hundrað árum. Malarafjölskyldan er í sínu húsi með þá húsmuni í kring um sig sem þá tíðkuðust. Skraddarinn er við sína iðju og sömuleiðis úrsmiðurinn og ýmsir fleirri. Þarna er lítil kirkja, járnsmiðja, trésmiðja,bakarí, bjórstofa, verslun, skóli, bátur og veiðarfæri. Þetta er sem sé safn um forna lifnaðarhætti og hvernig fól bjó og verkfærin sem notu voru á þeim tíma. Maðurinn sem stofnaði þetta safn er enn á lífi 86ára gamall. Hann var leirkerasmiður, en jafnframt svona mikill safnari og vildi leyfa öðrum að njóta þess með sér. Fjölskyldan vinnur enn við leirmunaframleiðslu og er með verslun þarna á svæðinu,þar sem hægt er að kaupa leirmuni frá þeim og fleirri aðilum. Brauðgerðin er líka starfrækt og þar keyptum við brauð framleitt eftir gömlum hefðum. Læt eina mynd úr safninu hér á síðuna, en fleirri myndir er hægt að sjá með því að smella á „Myndir“ hér til hæri á síðunni.

Skraddarinn Skraddarinn að störfum.

19 júlí 2008

Veður

Veður: 15,4/38,7° léttskýjað

18 júlí 2008

Ekki er allt sem sýnist.

Veður: 12,9/38,9° léttskýjað.

Það er margskonar ávinningur af því að ferðast, fyrst og fremst sér maður annað landslag og umhverfi en heima hjá sér, svo sér maður líka annað mannlíf, borðar annann mat en venjulega og síðast en ekki síst þá er svo gott að koma heim aftur og njóta alls þess sem heimili manns og næsta nágrenni hefur að bjóða. Ferðalögum fylgir smávegis óvissa, þó búið sé að skipuleggja ferðalagið þá gengur ekki alltaf allt eins og ráð var fyrir gert, það fengum við að reyna í síðasta ferðalagi. Áður en við lögðum af stað var ég að spá í hvar við myndum gista og fór á netið til að sjá hvað væri í boði. Jú ég fann heimasíðu þar sem boðin var gisting í gömlu og virðulegu húsi. Það voru flottar myndir af umhverfinu, fallegur garður og að því er virtist glæsileg herbergi. Sem betur fer var ekki hægt að panta gistinguna á netinu, en það var gefið upp símanúmer. Þórunn hringdi og pantaði gistinguna og það var nokkur eftirvænting að gista á að því er virtist í svona veglegu húsi í fallegu umhverfi. Eftir að hafa spurt til vegar fundum við staðinn, en ekki var heimreiðin glæsileg, malarvegur og þyrnigróður beggja vegna vegarins, sem við vorum hálfsmeik um að myndi rispa bílinn, en sem betur fer slapp bíllinn óskemmdur. Heim að húsinu komumst við, jú það var rétt að garðurinn umhverfis var snyrtilegur og húsið ágætlega málað, að undanskyldum hurðum og gluggum. Þegar þarna var komið sögu var mesti glansinn farinn af að gista þarna, en við höfðum gert okkur talsvert háar vonir um glæsilega gistingu og öðruvísi en á nýtísku hóteli. Eftir nokkra leit tókst okkur að finna móttökuna, sem var á jarðhæð og síður en svo glæsileg og ekki bætti úr fúkkalyktin sem var þarna inni. Á endanum fannst svo bjalla og eftir nokkra bið kom kona til að afgreiða okkur. Það stóð heima að við áttum pantaða gistingu þarna, sem við afþökkuðum með það sama. Konan mátti eiga það að hún tók afpöntuninni ljúfmannlega og vísaði okkur á greiðfærari veg til baka. Nú áttum við enga gistingu vísa fyrir nóttina, en höfðum svo sem ekki stórar áhyggjur af að finna ekki sama stað til að gista. Á firsta hóteli sem við komum var laust herbergi, gott hótel með öllum nútíma þægindum og án fúkkalyktar.. Segir ekki einhvers staðar að enginn ráði sínum næturstað, allavega varð okkar næturstaður annar en við höfðum ráðgert þessa nótt.

2008-07-16 045 Þetta hótel reyndist vel.

17 júlí 2008

Ferðalag

Veður: í gær 16-7 12/38,7° léttskýjað, í dag 17,

-7 12,7/35,7° léttskýjað.

Við vorum á ferðalagi hér í Portúgal í gær og í dag og hver veit nema að ég segji eitthvað frá ferðalaginu við tækifæri. Læt fylgja hér með myndir sem ég tók í ferðinni af klettóttri strönd og manni við veiðar á þeirri sömu strönd.

2008-07-16 031 Hér má sjá árangur af löngu starfi sjávar og veðurs.

2008-07-16 023 Veiðimenn eru samir við sig hvert sem umhverfið er.

15 júlí 2008

Laukur

Veður: 12/39,7° léttskýjað.

Nú erum við búin að taka upp laukinn, en eigum þá eftir að flétta hann saman á blöðunum, svo hægt sé að hengja hann upp til vetrargeimslu. Sprettan í ár var í góðu meðallagi. Ein mynd til að sýna hvað nýupptekinn laukur er fallegur.

Laukur 2008-07-15 001

14 júlí 2008

Víggirðing

Veður: 8,4/36,7° léttskýjað.

Notuðum daginn í dag til að víggirða kotið fyrir köttum, því það hefur margsinnis borið við að kettir kæmu hér inn óboðnir, þegar eldhúsdyrnar eru opnar. Fórum í morgunn og keyptum acrylplötu og lamir á hana til að setja utan við hurðina að neðanverðu. Ég set mynd af þessu hér fyrir neðan, myndin segir meira en mörg orð. Við þurftum að fara tvær ferðir til að fá réttar lamir á þetta, því ég athugaði ekki í byrjun að það er ekki sama hvort hlerinn á að opnast til hægri eða vinstri, en nú veit ég betur.

Það er oft undarlegt hvernig maður hagar sér með að kaupa hluti, eða kaupa ekki hluti. Ég hef aldrei látið verða af því að kaupa mér handhæga borvél, af því ég á borvél sem er stór og oft óhentug og hef svo sem komist af með að nota hana. Á sama tíma er búið að kaupa tölvur í stórum stíl og margt annað sem er mikið dýrara og hefði vel verið hægt að vera án. Semsagt í morgunn þegar þessi stórframkvæmd var framundan var ákveðið að fjárfesta í lipurri borvél og þvílíkur munur að vera með þægilegt verkfæri í höndunum. Þetta var fjárfesting upp á heilar 29 evrur. Eftir á skil ég ekki hvers vegna þetta verkfæri var ekki keypt fyrir 25 árum.

002 Hér er hlerinn upp við vegginn, þegar ekki þarf að nota hann.

003 Hér er hlerinn fyrir dyraopinu og hurðin opin til að fá inn ferskt loft, en ekki óboðna ketti.

 

13 júlí 2008

Veður

Veður: 7,2/31,3° léttskýjað.

12 júlí 2008

Veður

Veður: 7,5/29,5° léttskýjað

11 júlí 2008

Svikahrappar.

Veður: 17,2/25,9° úrkoma 1,4 mm.skýjað fram eftir degi, en létti til undir kvöld.

Ég sagði frá því í gær að við værum kominn með kött í fóstur og að hann ætti að halda sig utandyra, en allir sem þekkja til katta vita að þeir vilja fara sínar eigin leiðir og erfitt að treysta þeim. Það hefur nokkuð oft komið fyrir að þeir litu hér inn ef þeir áttu leið um, ef eldhúsdyrnar hafa verið opnar,sem þær eru mjög oft á sumrin. Við höfum oft rætt um að fá eitthvert net eða spjald fyrir dyraopið að neðanverðu, til að geta haft opið út án þess að eiga á hættu að fá inn óboðna gesti og nú verður þeirri hugmynd komið í framkvæmd fljótlega. Þegar ég læsti eldhúsdyrunum í gær kvöldikom ég hvergi auga á kisa, svo ég litaðist lauslega um hér inni en sá hann ekki þar, svo ég taldi að hann hefði brugðið sér frá í embættisierindum, en svo reyndist ekki vera. Þegar ég kom inn á bað í morgunn mætti ég kisa með stýrið upp í loftið og ekkert nema vinskapurinn og sjálfsagt búinn að sofa vært hér inni í nótt. Það er greinilega ekki hægt að treysta honum frekar en öðrum köttum.

10 júlí 2008

Nýr sjálfboðaliði

Veður: 12,3/32,5° að mestu léttskýjað.

Við tókum góða stund í morgunn að vera í bændaleik, byrja á að taka upp laukinn, en uppskeran af lauk virðist vera í meðallagi. Nú svo þurfti að binda tómatana, því tómatplönturnar þurfa stuðning, það er stutt í að við getum farið að borða tómata úr garðinum. Ávaxtatrén fengu nammi að borða, það er að segja áburð og vökvun.

Það hafa oftast verið kettir til heimilis hér í Austurkoti, þeir hafa allir gefið sig fram sem sjálfboðaliða og þegið mat að launum, sá fyrsti fékk líka húsaskjól, en þeir sem á eftir komu hafa orðið að halda sig utandyra.. Þetta hafa yfirleitt verið villikettir, en flestir hafa orðið gæfir með tímanum. Heimilið er búið að vera kattarlaust nú í tvo mánuði og ég saknaði þess að hafa ekki kött, því mér finnst þeir vera svo vinalegir. Í síðustu viku gaf sig fram nýr sjálfboðaliði, alveg grindhoraður og nær dauða en lífi af hungri. Þetta er fyrrverandi heimilisköttur, því hann mjálmar og vill láta gæla við sig. Þó hann væri að farast úr hungri þóttist hann hafa efni á að vera matvandur. Nú er búið að baða kisa, en það verk tók hún kristín sem var gestur hér að sér. Kisi kvartaði á meðan á baðinu stóð, en virtist vera nokkuð sáttur þegar því var lokið.

Kisinn 2008-07-08 001

 

09 júlí 2008

Veður

Veður: 8,3/32,7° léttskýjað

08 júlí 2008

Veður

Veður: 9,5/32,3° léttskýjað

07 júlí 2008

Ferpalag

Veður: 5,5/30,3° léttskýjað.

Í dag vorum við í túrhesta leik með gestum okkar þeim Kristínu og Eiði. Við skoðuðum háskólabæinn Coimbra, sem er mjög skemmtileg borg og margt þar til að skoða, eftirminnilegast var að skoða háskólabókasafnið. Frá Coimbra héldum við til Conimbrica til að skoða rústur frá þ´vi rómverjar réðu ríkjum í Portúgal, Þar eru varðveitt mjög falleg mósaíkgólf. Næsti viðkomustaður var svo Figueira do Foz og það var jafnframt síðasti viðkomustaður á þessu góða ferðalagi.

05 júlí 2008

Veður

Veður: 13,8/29,8° úrkoma 0,7 mm. Gerði smáskúr í gærkveldi sem kemur með mælingunni í dag. Í dag var að mestu léttskýjað.

04 júlí 2008

Veður

Veður: 8,4/31,4° að mestu skýjað.

03 júlí 2008

Góðir gestir

Veður: 7,1/28,8° léttskýjað.

Einu gestir sumarsins frá Íslandi sem við eigum von á að fá í sumar skiluðu sér hingað í gærkvöldi eftir akstur yfir þveran Íberíuskagann. Það verður ánægjulegt að fá að hafa félagsskap þeirra næstu daga.

02 júlí 2008

Úrkomumæling

Veður: 16,7/25,5° úrkoma 1,4mm. Að mestu skýjað fram eftir degi, en léttskýjað undir kvöld.

Þetta er fyrsta úrkomumælingin síðan ég fékk veðurstöðina með regnmæli og öllu tilheyrandi. Eins og sjá má á mælingunni er þetta mun nákvæmari mæling, en þegar ég var að setja tommustokk ofan í mælikerið og renna svo fingri niður eftir tommustokknum, þar til ég fann að fingurinn var kominn í vatnið og því næst lá leiðin til Þórunnar sem las af tommustokknum. Eins og gefur að skilja stenst þessi aðferð með tommustokk ekki samanburð hvað nákvæmni varðar við tölvutengdan regnmæli, en gerði samt sitt gagn.

01 júlí 2008

Veður

Veður: 16,2/31,3° léttskýjað

2008-06-29 Vagos 027 Þessa mynd af afsagaðri grein tók ég á ú´tivistarsvæðinu í Vagos síðastliðinn sunnudag.