30 apríl 2008

Veðrið í apríl.

Veður: 5,6°/22,7° að mestu léttskýjað.

Apríl Hér fyrir ofan er veðrið í apríl í tölum. Meðaltal næturhita 8,2↑°, daghita 24° Minnsti hiti var 2,3° og mesti hiti 35,2°. Úrkoma mældist 319mm.

29 apríl 2008

Veður

Veður: 4,1°/18,2° smávegis úrkoma, en svo lítil að hún var ekki mælanleg, rétt dugði til að reka mig inn frá arfatínslunni.

28 apríl 2008

Breytt tækni

Veður: 10,2°/21,8° örfáir regndropar í morgunn, en nokkuð bjart síðdegis.

Enn erum við að hagræða hér í tölvu og sjónvarpsherberginu. Nú hafði skrifborðið hennar Þórunnar vistaskipti við sjónvarpið og þessi breyting hefur þann kost að birta frá glugganum speglast ekki í sjónvarpsskjánum. Ég notaði tækifærið fyrst farið var að hreifa til húsgögn að fara með það sem eftir var af vínilplötum hér niðri í geymslu upp á háaloft. Það hefur ekki verið sett plata á fóninn í nokkur ár, svo það hlýtur að vera í lagi að geyma þær aðeins afsíðis. Það tók mörg ár að safna að sér þessum plötum, maður leyfði sér að kaupa eina og eina plötu svona af og til. Semsagt tímarnir og tæknin breytast, nú eru diskar teknir við af plötunum og eru óneitanlega þægilegri í meðförum og svo er líka mjög mikið og gott framboð af góðri tónlist bæði í sjónvarpi og útvarpi.

2008-04-28 Sjónvarp 004

27 apríl 2008

Hringekja.

Veður: 12,2°/27,7° léttskýjað.

2008-04-27 Aveiro 004 

Sunnudagsferðin í dag var til Aveiro og í gönguferð um skemmtilegan fjölskyldugarð með andapolli, trjágöngum, bekkjum til að hvíla á lúin bein og ísbúð í nágrenninu. Þar með er allt upptalið sem þarf til að gera garðinn eftirsóknarverðan fyrir alla aldurshópa, enda var þarna fólk á öllum aldri. Þeir yngstu sem þarna voru á ferð voru áhyggjulausir í kerrum með foreldrum sínum, næsta þrep í þróuninni voru þeir sem farnir eru að spá í endur og fiska í tjörninni. Næsta þrep gæti svo verið ástfangið par sem var þarna á göngu og ef allt gengur að óskum verður það komið með ungan sinn í þennan garð eftir nokkur ár. Nú svo má ekki gleyma að minnast á fólk eins og okkur, sem er búið að upplifa allt þetta og er sátt við sína tilveru og tekur lífinu með ró. Það svona flaug í gegnum hug mér að þarna sæi maður hringekju lífsins á einum stað.

Á eftir gönguferðinni um garðinn fórum við inn á kaffihús og þá fór mér líkt og tröllunum í gamla daga sem fundu mannaþef í helli sínum, nema þarna fann ég sígarettuþef, sem ekki hefur fundist á kaffihúsum síðan reykingabann tók gildi um áramótin. En í þessu kaffihúsi var búið að setja upp loftræstikerfi yfir hluta salarins og þó það væri í gangi barst auðvitað reykur um allt kaffihúsið. Ég bara vona að þetta sé ekki það sem koma skal, því þá verður ekki mikið gagn að reykingarbanninu, en fram að þessu hefur það virkað mjög vel og þeir sem vilja reykja hafa orðið að reykja utandyra, enda víða komin borð og stólar fyrir utan kaffihús.

2008-04-27 Aveiro 011

Þórunn á kaffihúsinu og sér í loftræstikerfið upp við loft.

 

reykja utandyra, enda víða komin borð og stólar utan við kaffihús.

26 apríl 2008

Veður

Veður: 10,3°/35,2° léttskýjað.

25 apríl 2008

Fljúga hvítu fiðrildin....

Veður: 8,7°/35,1° léttskýjað.

Það var almennur frídagur hér í landi í dag til að minnast þess að lýðræði komst á eftir einræði Salasars.

Það var gott veður hér í dag, svo við fórum snemma út að vinna í garðinum áður en það yrði of heitt. Þórunn var að vinna við blómin, en ég var að klippa hekkin og er ekki búinn að klippa nema helminginn, ætli ég taki ekki seinni hlutann á morgunn, það þarf víst ekki að segja ef veður leyfir. Húfa stuttarar og skór hæfðu hitastiginu í dag.

Nú eru fiðrildin farin að flögra milli blómanna í garðinum.

24 apríl 2008

Gleðilegt sumar og takk fyrir veturinn.

Veður: 7,4°/27,6° léttskýjað.

Við minntumst sumardagsins fyrsta í dag að Íslenskum sið, þó enn séu nær tveir mánuðir í sumardaginn fyrsta hér í landi, bara liðinn rétt þriðjungur af vorinu. Það vantaði svosem ekkert upp á sumarblíðuna í dag, sól og logn og eins og sjá má hér fyrir ofan er ekki ástæða til að kvarta yfir hitanum. Í tilefni dagsins voru bakaðar pönnukökur með síðdegiskaffinu og auðvitað var setið út á verönd með kaffibollann og pönsurnar.

23 apríl 2008

Mikil afköst.

Veður: 14,1°/24° úrkoma 6 mm. Þokusúld í morgunn og fram undir hádegi, en þá fór að birta til og hlýna og orðið léttskýjað undir kvöld.

Í dag bútuðum við niður þær greinar sem ég sagaði ofan af trénu í gær og eru nógu sverar til að nota í ofninn næsta vetur. Þegar búið er að brenna þær eru þær búnar að hita manni tvisvar, fyrst við að saga þær í búta og svo kemur hitinn frá ofninum þegar þær brenna.

Talandi um upphitun á húsnæði hvort sem um er að ræða eitt herbergi eða stærra rými, þarf talsverða orku til að halda þar hæfilegu hitastigi, þess vegna er það alveg með ólíkindum hve gífurleg hitaorka það er sem er á ferðinni í lofthjúpnum yfir jörðinni. Þetta kom glöggt í ljós hér í dag, það er búið að vera fremur svalt í veðri hér undanfarna daga, en á nokkrum klukkustundum í fag kom hlýrra loft og síðdegis var mjög notalegt veður. Sama er upp á teningnum þegar svalt loft oft alla leið norðan úr íshafi nær til okkar, þá getur kólnað um margar gráður á nokkrum klukkustundum. Það er greinilegt að náttúruöflin hafa yfir að ráða stórvirkum tækjum hvort sem um er að ræða að hita eða kæla loftið.

22 apríl 2008

Sagað ofan af tré.

Veður: 8,9°/19° úrkoma 2mm. Þurrt veður til hádegis en eftir það rigningarsúld.

Það er eitt tré í garðinum hjá okkur sem er svo óheppið að vera staðsett þannig að það truflar geislann sem sjónvarpsdiskurinn á að nema þegar tréð er komið yfir ákveðna hæð. Ég er einu sinni búinn að príla upp í þetta tré og lækka það um fimm metra, en það er svo duglegt að vaxa þetta tré að það var búið að ná aftur sömu hæð og fyrr, svo í dag réðist ég til atlögu við tréð á ný. Tréð botnar örugglega ekkert í því hvers vegna það má ekki vaxa eins og því listir, því nóg er plássið fyrir ofan það og það með eindæmum duglegt að vaxa. Í fyrra sinnið sagaði ég ofan af stofninum sem var þá um 20 cm sver þar sem ég sagaði hann, en nú höfðu vaxið greinar út úr stofninum rétt neðan við þar sem ég sagaði hann og þær voru búnar að vaxa um fimm metra. Ég skildi tvær greinar eftir núna, vona að geislinn finni leið framhjá þeim. Etta tré fellir laufið á vorin og er því lauflítið núna og þess vegna valdi ég þennan tíma til að ráðast á það.

2008-04-22 Tré 003

Þarna sést tréð gnæfa yfir pálmana áður en ráðist var að því.

2008-04-22 Tré 004 Þarna sjást greinarnar tvær sem fengu að standa áfram.

2008-04-22 Tré 007

Svona voru greinarnar orðnar sverar niður við stofninn.

21 apríl 2008

Aukin þægindi.

Veður : 9°/20,4° úrkoma 7 mm. Að mestu þurrt í dag og sólin fékk að sýna sig talsvert síðdegis, enda búin að vera í góðu fríi undanfarna daga, svo hún ætti að geta farið að mæta til starfa á ný, en mér skilst að hún hafi boðað forföll á morgunn.

Ég er nokkuð lengi búinn að velta því fyrir mér hvort ekki væri hægt að gera eitthvað fyrir „músarhindina“ og þá á ég við hendina sem ég stjórna tölvumúsinni með. Mér finnst þægilegra að hafa borðplötu sem handleggurinn getur hvílt á í stað þess að láta úlnliðinn hvíla á borðbrúninni. Í dag fórum við í byggingavöruverslun og keyptum hornhillu og tvær lamir og þetta er ég búinn að festa á skrifborðið mitt. Það er hægt hvort sem vill að leggja þessa framlengingu upp á borðið, eða taka hana alveg í burtu þegar ekki er verið að nota hana. Mér finnst þetta mun þægilegra svona. Til skíringar læt ég fylgja með mynd af þessari stórframkvæmd.003

20 apríl 2008

Mátti reyna.

Veður: 8,8°/17,6° úrkoma 29 mm. Það hefur verið skúraveður í dag.

Nú er svo komið eftir rigninguna undanfarna daga að árnar hér í nágrenninu eru orðnar bakkafullar og vatnið í brunninum hækkar með hverjum degi sem líður, svo það er betra útlit með vatn í sumar eftir þessa rigningu og vonandi á eftir að rigna meira áður en sumarið kemur.

Innkaupakörfur í stórmörkuðum hér eru læstar saman og til að opna lásinn svo hægt sé að fá körfu þarf að setja eina evru, eða fimmtíu sent í lásinn sem maður fær svo aftur þegar körfunni er skilað. Þó þetta sé ekki há upphæð er það nóg til þess að körfur eru aldrei skildar eftir í reiðileysi úti á bílaplani. Áður en myntbreytingin varð hér voru notaðar fimmtíu eða eitthundrað eskudos eins og gjaldmiðillinn hér hét þá í þessar körfur. Nú eru liðin mörg ár síðan skipt var um gjaldmiðil, en samt er fólk enn að reikna yfir í gömlu myntina og í dag var fullorðin kona að reyna að troða hundrað eskudos í lásinn á körfu, en að sjálfsögðu gekk það ekki. Ég gat notað þennan pening áður sagði konan. Merkilegt að hún skildi vera með þessa mynt á sér því myntin er ekki lengur í gildi hér í landi.

19 apríl 2008

Veður

Veður: 10°/17° úrkoma 39 mmþ Hressilegar dembur fram að hádegi með þrumum og öllu tiheyrandi, en betra veður síðdegis.

18 apríl 2008

Veður

Veður: 9,5°/19,1° úrkoma 35 mm. Skúraveður í dag, en sólin náði að sýna sig milli skúraþ

17 apríl 2008

Fyrsta rósin í vor.

Veður: 10,1°/15,5° úrkoma 50 mm. Búið að rigna uppstyttulítið í dag.

Ég var svolítið hissa á því hvað mér hefði farið fram í ritvinnslunni, því venjulega er ég að slá inn ranga stafi í orð og jafnvel skrifa orð rangt, en í nokkra daga brá svo við að Púkinn sem ég er með sem leiðréttingaforrit gerði engar athugasemdir við það sem ég skrifaði, en því miður var það ekki af því að mér hefði farið svona mikið fram í vélritun. Nei ástæðan var sú að ég gleymdi að setja forritið upp í tölvuna eftir að við hreinsuðum allt út úr henni. Nú er ég búinn að setja púkann upp að nýju og hann er alveg jafn púkalegur við mig og áður, er sífellt með einhverjar undirstrikanir til að hrella mig.

Ég minntist á það fyrir nokkrum dögum að nú færi að styttast í að rósirnar opnuðu blóm sín og þá var ég að reikna með að það yrði í maíbyrjun, en í ár þurfti ekki að bíða svo lengi, því í gær færði Þórunn mér fyrstu rósina úr garðinum okkar. Ég tók mynd af þessari rós hér úti í glugga með garðinn í baksýn og læt þá mynd fylgja með þessum skrifum.

004

16 apríl 2008

Gengisfall og mistök.

Veður: 4,1°/25,1° Léttskýjað fyrst í morgunn, en þykknaði upp síðdegis og er að byrja að rigna nú undir kvöld.

Ég er víst farinn að fylgja fordæmi krónuræfilsins og féll um eina krónu í dag gangvart hverju veit ég ekki, en það er alveg á hreinu að ég er einni krónu fátækari í kvöld en í morgunn þegar ég vaknaði. Þarna á ég að sjálfsögðu tannkrónu sem ég fékk fyrir jól og í dag var hún orðin leið á vistinni og sleit sig lausa. Ég fór til tansa með þessa krónu sem ég hafði á lausu og þurfti að bíða ansi lengi eftir að hann gæti skotið mér inn á milli þeirra sem áttu bókaðan tíma, en það tókst að lokum og hann lokaði rótinni og svo á ég að mæta 9 maí, en þangað til liggur krónan hjá honum væntanlega á góðum vöxtum.

Þetta er nú samt ekki það eina sem fór úrskeiðis þennan sólarhringinn, því gærkveldi fékk ég bréf frá barnabarni um að skrá mig á samskiptaforrit á netinu og vera vinur hans þar og auðvitað gerði ég það en urðu á þau mistök að senda boð til allra sem eru með póstfang hjá mér og spyrja hvort þeir vildu ekki gerast vinir mínir á þessu forriti, slæm mistök það. Ég svaf á þessu í nótt en í morgunn sendi ég afsökunarbeiðni og útskírði málið og bað fólk að henda þessum pósti. Þetta varð samt til þess að í dag er ég búin að fá bréf frá fólki sem ég hef ekki heyrt frá í langan tíma og hélt satt að segja að væri búið að gleyma því að ég væri til.

15 apríl 2008

Altaf eitthvað jákvætt.

Veður: 3,7°/26° svolítil þokumóða í lofti, svo sólin náði ekki fullum stirk.

Ég var í bóndaleik í dag, aðallega í hreinsa arfa úr kartöflubeðinu og verð ég barma mér eins og sönnum bónda sæmir og ekki ástæðulausu, því það hefur drepist um þriðjungur af kartöflugrösunum í næturfrostunum í marsmánuði. Það kemur sér vel eiga ekki lífsafkomu sína undir kartöfluuppskerunni þetta árið, en þetta sýnir ræktun er dálítið happadrætti. en á móti kemur kálið er mjög fallegt og sama er segja um bóndabaunirnar, það lítur vel út með uppskeru á þeim.

003

Það er ekki matarlaus bær á meðan þetta kál er óborðað.

006

Þetta verkfæri er alveg ómissandi í garðræktinni.

14 apríl 2008

Hjólað

Veður: 2,9°/23,6° lléttskýjað.

Notuðum góða veðrið í dag til að hjóla. Núna eru öll tré orðin laufguð og ekki langt í að rósirnar opni blóm sín. Þar se, við fórum um í dag er langt komið með að sá í alla akra.

13 apríl 2008

Ekki jöfn skipting.

Veður: 6,9°/20,3° úrkoma 3 mm. Það var fremur naumt skammtaður sá tími sem sólin fékk að sýna sig í dag.

Vorum með gesti í mat í dag, vinahjón okkar og að vanda sá Þórunn um alla matreiðslu, en ég tók að mér uppvaskið, ekki alveg jöfn skipti á vinnu þar.

12 apríl 2008

Vorhreingerning á tölvunni.

Veður: 2,8°/20° að mestu skýjað og örfáir regndropar um kaffileitið. Það er helst af veðri að frétta undanfarna daga að það er búið að vera frekar svalt og úrkomusamt og einn sólarhringinn var úrkoman 85 mm.

Ég hef trassað að skrifa undanfarna daga vegna þess að ég var að setja upp nýtt stýrikerfi á tölvuna, eða réttara er að segja að Þórunn setti inn stýrikerfið, með aðstoð og hvatningu frá vini okkar á Spáni. Ég hélt að þetta væri mjög flókið ferli að hreinsa allt út af harða diskinum og setja inn nýtt stýrikerfi, en það hafðist með g´´oðra manna hjálp. Það má líkja þessu við að flytja í nýja íbúð, fyrst þarf að pakka öllu niður og nú er ég smátt og smátt að tína upp úr kössum á ný og raða því snyrtilega upp aftur.

09 apríl 2008

Veður

Veður: 13,8°/20,5° úrkoma 20 mm. rskúraveður.

08 apríl 2008

Veður

Veður: 11,7°/21,7° úrkoma 22 mm. Alskýjað.

07 apríl 2008

Símalínuþjófar.

Veður: 8,9°/19,7 úrkoma 16 mm.

6. apríl

Veður: 6,3°/31,3° léttskýjað.

Ég kom ekki frá mér veðurathugun á sunnudag vegna þess að það var engin nettenging hér frá því á laugardagskvöld og fram að kaffi í dag og ástæðan var að símalínum sem liggja hér niður í dalinn var stolið í skjóli myrkurs á laugardagskvöldið. Þetta er í annað sinn sem slíkt gerist, sennilega tvö ár síðan þetta var gert síðast. Nú eins og venjulega kann maður því illa að hafa ekki nettengingu, þó ekkert sérstakt sé verið að gera á netinu, bara svona að dingla sér, eins og krakkarnir segja.

Í dag lauk vikulöngu sýnishorni að góðu sumarveðri hér með rigningu og svalara lofti, þó ekki sé hægt að kvarta um kulda. Það var kærkomið að fá vætu fyrir gróðurinn eftir þennan mikla hita síðustu daaga.

DSC05607 Af því ég var að skrifa um gott veður finnst mér við hæfi að láta þessa mynd af falllegu blómabeði sem ég ´sá í morgunn á göngu um Albergaria fylgja með þessum pistli.

05 apríl 2008

Veður

Veður: 8,5°/34,2° léttskíjað.

04 apríl 2008

Veður

Veður: 12,7°/35,2° heiðskírt.

03 apríl 2008

Við sjóinn

Veður: 11,4°/33,6° heiðskírt.

Notuðum góða veðrið í dag til að fara niður að strönd og fá okkur góðan göngutúr þar. Fólk er aðeins byrjað að máta sig við sól, sjó og sand, það eru nokkrir farnir að stunda sjó og sólböð nú þegar, enda lofthitinn eins og best verður á sumrin svo það er ekki eftir neinu að bíða.

DSC05598 Þórunn á göngubraut í fjörukambinum.

DSC05599 Sandurinn er á góðri leið með að kaffæra þessa girðingu efst í fjörunni á Barra.

DSC05606 Byrjað að máta sig við sjó, sand og sól.

02 apríl 2008

Sumarveður

Veður: 7,3°/29,6° heiðskírt.

Eins og sjá má á hitastiginu í dag var sýnishorn af góðu sumarveðri, það var meiri háttar að vera bara í stuttbuxum einum fata við að slá grasflötina og finna heita goluna leika um sig.

Svona til að gefa lesendum aðeins innsýn í sumarblíðuna og blómskrúðið læt ég fylgja með mynd af íris og fyrir magann er mynd af einni appelsínu.

DSC05585

 DSC05590

01 apríl 2008

Vonandi ekki aprílgabb.

Veður: 2,3°/26° léttskýjað.

Þá vona ég að góða veðrið sé komið til að vera, allavega byrjaði aprílmánuður mjög vel ég vona svo sannarlega að þetta góða veður sé ekki aprílgabb.Annars er sagt hér að það rigni milljón dropum í aprílmánuði, þó úrkomumælingar sýni svipaða úrkomu í apríl og maí.