31 mars 2008

Veður

Veður: 3,8°/20,9°Góðar sólarstundir í dag.

Þá er að birta niðurstöður veðurathugana fyrir marsmánuð. Úrkoma var ekki nema 74 mm. Lægst fór hitinn í -3,3° og hæst komst hann í 27,5° og meðaltal hámarkshita var 20,1°

30 mars 2008

Veður

Veður: 7,3°/18,4° úrkoma 9 mm. Skúrir í dag, en bjart á milli skúra.

29 mars 2008

Klukkunni flýtt.

Veður: 5,2°/23,2° léttskýjað.

Það er stuttur sólarhringur á morgunn, því í nótt á að flýta klukkunni um eina klukkustund, sem þíðir að klukkan verður einni stund á undan klukkunni á Íslandi.

Í góða veðrinu eftir hádegi í dag fórum við í gróðrarstöð til að kaupa blóm og tómat og paprikuplöntur.

DSC05580 Þórunn að velja blóm.

DSC05579 Gott úrval af blómum.

DSC05584 Nokkur blóm komin í körfuna.

28 mars 2008

Veður

veður: 11,1°/18,3° úrkoma 5 mm. alskýjað.

27 mars 2008

Veður

Veður: 7,7°/16,7° úrkoma 6 mm. alskýjað.

26 mars 2008

Sökudólgurinn hlaupár??

Veður: 3,2°/15,4° úrkoma 3 mm. Alskýjað.

Þá er það komið á hreint hvers vegna það hefur verið erfitt tíðarfar fyrir ræktun nú í vetur, komið næturfrost sem hefur farið illa með kartöflugrös og aðrar slíkar búsifjar. Skíringin er einföld, það er hlaupár og þess vegna er tíðin svona erfið, ekki nokkur vafi var mér tjáð í dag. Ég er samt ekki alveg sannfærður um að þetta sé rétt, finnst tíðarfarið bara svipað og hin þrjú árin sem ekki er hlaupár.

25 mars 2008

Veður

Veður: 1,9°/20,8° léttskýjað

24 mars 2008

Boli þrjóskast við.

Veður: 0,0°/16,7° að mestu léttskýja til hádegis, en alskýjað síðdegis.

Enn spyrnir kuldaboli við fótum og neitar að fara til sinna sumarlanda, en ég hefði haldið að hann ætti samleið með farfulunum á norðlægar slóðir yfir sumarið og það alveg norður á Norðuheimskautið.

23 mars 2008

Burt með kuldabola

Veður: -1,9°/16,8° léttskýjað. Í kvöld er páskunum lokið hér og þá er von til að kuldaboli sleppi takinu á veðrinu hér og það fari að hlýna á ný.

22 mars 2008

Anda varlega.

Veður. 6,3°/15,7° úrkoma 7 mm. Skúrir fram yfir hádegi, en nokkuð bjart síðdegis.. Hitatölurnar sýna lægsta og hæsta hita hvers sólarhrings og venjulega les ég af mælinum á kvöldin.

Við fórum í búðarleiðangur í dag og það var margt um manninn í öllum búðum sem er ekki nema eðlilegt laugardaginn fyrir páska. Undarlegra fannst mér að sjá í gær föstudaginn langa voru flestar búðir opnar. Það kemur mér dálítið undarlega fyrir sjónir í þessu landi kaþólskunnar hvað lítið er gert úr helgihaldi föstudaginn langa, ég man þá tíð í mínu ungdæmi að það rétt leyfðist að draga andann þann dag og alls ekki að anda djúpt, það voru helgispjöll.

21 mars 2008

Vorferð

Veður: 1,9°/21,7° léttskýjað.

Við erum smám saman að skoða landsvæði, hér í nágrenninu sem er hæfilega langt í burtu til að skoða á einum degi og í dag fórum við inn í land í átt til Spánar. Við erum margsinnis búin að fara framhjá þessu svæði eftir hraðbrautinni, en það er öðruvísi að fara eftir mjórri vegum í gegnum sveitir og þorp. Þetta svæði sem við fórum um í dag er við rætur Esterelafjallsins að norðan verðu og er nokkuð slétt. Þarna skiptist víða á heiðarland og ræktað land. Á þessum árstíma ber mikið á sópum, sem eru annaðhvort hvítir eða gulir og svo eru trén sem fella laufið að laufgast núna og þá er litur laufsins svo fallega ljósgrænn.Vorlitir

Gulur og hvítur sópur.

DSC05564 Ekki veit ég hvaða trjátegund þetta er, en nýútsprungið laufið er falllegt á litinn

DSC05560 Ljósmyndari að störfum

20 mars 2008

Nokkuð hvasst.

Veður: 5,7°/21,1° léttskýjað.

Það hvessti hér í gær undir kvöld og var hvasst á okkar mælikvarða hér í alla nótt og fram á morgunn. Rafmagnslínur hér eru greinilega ekki hannaðar fyrir svona vind, því rafmagnir fór margsinnis af í gærkvöldi og eitthvað hefur verið rafmagnslaust í nótt. Í Austurkoti fuku nokkrar þakplötur af skýli sem upphaflega var gert til að hýsa brenni en er nú notað til að geima í hjólbörur, tætara og annað sem viðkemur garðinum. Sem betur fór fuku plöturnar ekki langt og eru nú aftur komnar á sinn stað og til öryggis búið að fergja þær með grjóti. Það eru til hérna granítstólpar sem notaðir voru til að styðja við vínviðinn, en hafa ekki haft neinu hlutverki að gegna síðan ég settist að hér, því ekki er ég að rækta vín, svo það er gott að finna þeim nýtt hlutverk, en ég verð að játa að það var nokkuð strembið fyrir mig að koma þeirri þyngstu þeirra á sinn stað.

DSC05557 Granítsúlurnar á þakinu. Trjágreinarnar eru á fíkjutré sem teygir sig inn yfir þakið á skýlinu.DSC05558 Þessi var mér talsvert erfið.

Veður. 19 mars

Veður: 0,9°/21,1° að mestu léttskýjað og nokkuð hvasst í kvöld, en það er ekki oft sem blæs eitthvað að gagni hér.

18 mars 2008

Veður

Veður: 4,1°/18° úrkoma 4mm. Skúrir og að mestu skýjað.

17 mars 2008

Veður

Veður: 3,7°/17° úrkoma 3mm. Að mestu skýjað í dag og skúraleiðingar.

16 mars 2008

Veður

Veður: 7°/21,1° hálfskýjað

15 mars 2008

Veður

Veður: 9,3°/18,6° úrkoma 4mm. Mest af þessari úrkomu féll í einni góðri skúr í morgunn, en eins og sjá má hefur hitinn snarlækkað frá því sem var í gær, enda komin vestan gola frá hafinu m með skúraskýjum og góðum sólarstundum inn á milli.

14 mars 2008

Vorveður

Veður: 4,4°/27,5° léttskýjað.

Eins og sjá má á hitatölunum hér fyrir ofan var vorveður hér í dag, enda ekki nema ein vika í vorkomuna hér í landi, það er samt nokkuð í land með að hitinn hér verði jafn og stöðugur, en það eru óneitanlega farnir að koma notalegir dagar inn á milli. Að sjálfsögðu var svona gott veður notað til að vinna í garðinum, enda ekki amalegt að vinna innan um litfögur og angandi blóm.DSC05543

Hekkið á veröndinni fékk snyrtingu í dag, enda komið í sumarskrúðann, þó það felli ekki alveg laufið yfir veturinn verður það dálítið dapurlegt í skammdeginu, en tekur svo gleði sína á ný með hækkandi sól.DSC05547 Bóndarósin kann líka vel að meta sól og goott veður.

DSC05550 Túlípanarnir brosa líka breitt þessa dagana.

13 mars 2008

Þrisvar

Veður: 3,5°/25,9° léttskýjað.

Ég vona að máltækið“allt er þá þrennt er“ sé enn í fullu gildi, því vatnsdælan í brunninum og hlutir sem henni tengjast eru búnir að vera með óþarfa dynti upp á síðkastið.

Þetta byrjaði með því að einn daginn þegar ég opnaði krana og ætlaði að fá mér vatn að drekka kom ekkert vatn en í þess stað heyrðist bara soghljóð frá krananum eins og hann væri að drekka loft, í stað þess að gefa mér vatn í glasið. Ég út að brunni til að aðgæta hvað væri á seiði og sá að ljós sem sýnir þegar dælan er í gangi logaði, sem benti til að hún væri að vinna sitt verk, en samt kom ekkert vatn inn á kerfið. Þá lá næst fyrir að taka lokið af brunninum og sjá hvað væri að gerast þar niðri og þá kom í ljós að slanga sem tengir dæluna við húskerfið hafði smokkast af dælunni. Við Þórunn hjálpuðumst að við að ná dælunni upp, en það er nokkuð erfitt, því brunnurinn er 11 metra djúpur svo slangan og dælan eru nokkuð þung, en það hafðist að gera við bilunina og koma dælunni aftur á sinn stað. Nokkrum dögum síðar bilaði svo þrýstirofi sem stjórnar dælunni og það varð til þess að hún var stöðugt í gangi. Mér tókst að endurstilla þrýstirofann og vonaði að þar með væri öllum kenjum þessa kerfis lokið, en svo reyndist ekki vera, því nokkrum dögum síðar sá Þórunn að slangan frá dælunni var farinn að leka, en sem betur fer var lekinn þar sem gott var að komast að honum að þessu sinni og í dag var gert við þessa bilun og vonandi er enn í fullu gildi. Allt er þá þrennt er:

12 mars 2008

Veður

Veður: 10,9°/22,1° úrkoma 1 mm. skýjað fyrst í morgunn, en hálfskýjað þegar kom fram undir hádegi.

Madeira

Ég er með fartölvu í töskunni, þarf ég ekki að taka hana upp úr töskunni spurði ég á flugvellinum þegar kom að vopnaleitinni. Jú takk var svarið, svo ég opnaði að því er ég hélt mína tösku og ætlaði að grípa fartölvuna en greip í þess stað í kvenfatnað. Það höfðu sem sé víxlast töskurnar hjá okkur Þórunni. Léttruglaður þessi gamlingi hefur eftirlitsmaðurinn hugsað, en sagði ekkert. Þegar taskan hennar Þórunnar minnar var komin í gegn um vopnaleitina og nú á minni ábyrgð kom í ljós að Þórunn hafði laumað í hana einhverju stórhættulegu tóli sem ég varð nú að svara til saka fyrir. Gjöra svo vel og opna þessa tösku sagði eftirlitskonan við færibandið og þegar taskan opnaðist fór hún að gramsa í töskunni með hanskaklæddum höndum og dró upp sívalning og spurði mig hvaða tól þetta væri og þegar ég gaf þá skíringu að þetta væri nú baralítill þrífótur fyrir myndavél var samþykkt að leyfa þessu tóli að fara með í ferðina, þar með hélt ég að þessu væri lokið, nei svo var nú ekki, nú var kölluð fram mynd á skjá af innihaldi töskunnar til að staðsetja nánar fleiri hættulega hluti og eftir að hafa skoðað innihaldið vel á skjánum renndi hún sinni hanskaklæddu hendi á kaf í töskuna og kom upp með hættulegt tól sem ekki mátti fara með inn í flugvél af öryggisástæðum. Handavinnukonunni henni Þórunni minni hafði orði það á að setja niður í töskuna handavinnu og þar með flaut ein heklunál, en slíkt tól telst víst til hættulegra hluta inni í flugvél.

Svona hófst sem sé byrjunin á ánægjulegri ferð til Madeira, en á Madeira vorum við frá mánudegi til fimmtudags í síðustu viku.

Það er ekki nema tæpra tveggja stunda flug frá Porto til Madeira, svo þar vorum við lent klukkan ellefu á mánudeginum og þar beið eftir okkur bíll og bílstjóri frá ferðaskrifstofunni sem við ferðuðumst með og flutti okkur beint á hótelið niður við strönd í höfuðborginni Funchal og á leiðinni fengum við fræðslu um eyjuna og eyjarskeggja. Íbúafjöldi er um 250þús. Og helmingur eyjaskeggja býr í höfuðborginni og hefur að mestu leiti framfæri sitt af þjónustu við ferðamenn, en á landsbyggðinni er stunduð vín og bananarækt.

Madeira er fjöllótt eldfjallaeyja með þröngum dölum og bröttum hlíðum, það er ekkert undirlendi við sjóinn, eini sæmilega slétti bletturinn sem við sáum á eyjunni er uppi á fjöllum í yfir 1000 m hæð, en gróður er þarna upp á efstu fjallatinda.

Vegagerð er mjög erfið þarna og til marks um það er að á leiðinni frá flugvellinum inn í höfuðborgina sem er um 20 km leið er farið í gegnum þrettán jarðgöng og nokkrar brýr yfir þrönga dali.

Við fórum í eina mjög fróðlega dagsferð um eyjuna ásamt tveim öðrum hjónum í lítilli rútu. Bílstjórinn var mjög góður ökumaður og ekki síðri leiðsögumaður, svo við fræddumst mikið um þá staði sem við komum við á og almennt um lífið og tilveruna á eyjunni.

Hina dagana notuðum við til gönguferða um borgina og einu sinni fórum við í kláf sem gengur upp í fjallið fyrir ofan borgina, þar fengum við góða yfirsýn yfir borgina.

Að vera á Madeira á þessum árstíma er dálítið eins og að vera á einhverri eldriborgara nýlendu, því mest af fólkinu sem maður mætir úti á götu er nokkuð fullorðið, það virtist sem fólk frá Bretlandi væri þarna í miklum meirihluta, enda hittum við hvergi afgreiðslufólk sem ekki var mælandi á enska tungu.

Hótelið sem við vorum á var heill heimur út af fyrir sig, ég var meira en venjulega eins og átjánbarna faðir í álfheimum þarna, því ég hef aldrei áður verið á svona stóru og flottu hóteli, fimm stjörnu ekki dugði minna fyrir sveitalúðana úr ValeMaior. Tvær útisundlaugar voru við hótelið og sjór í þeim báðum og önnur var upphituð og aðstaðan við sundlaugarnar er öll hin glæsilegasta. Einnig á hótelið bryggjustúf í fjörunni, svo fólk getur synt og svamlað í sjónum en fjaran er grýtt svo það er ekki hægt að liggja í henni, en það er bætt upp með góðri aðstöðu við laugarnar. Það er líka ein innisundlaug og fleira til heilsuræktar. Það er víst óhætt að segja að þetta sé hótel með öllu sem hægt er að hugsa sér svo gestum þess líði vel á meðan þeir gista þar.

Morgunverður var innifalinn í gistingunni og þar ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi, því úrvalið af mat er alveg gríðarlegt og að sjálfsögðu vantaði ekki egg og beikon fyrir Bretana.

DSC05325 Brú og jarðgöng á veginum frá flugvellinum.

DSC05340 Þórunn svífur yfir Funchal.

Hótelið Hótelið

Hótel sundlaugarnar. Sundlaug við hótelið.

Porto Monz séð ofan úr fjallinu Horft ofan á bæ við norðurströndina.

Stallar Það er ekki auðvelt að rækta við þessar aðstæður.

Veitingahúsið Veitingahúsið sem við borðuðum á í ferðinni um eyjuna.

Þröngur vegur Sýnishorn af því hvernig vegirnir voru höggvnir inn í bergið, en nú er búið að endurbæta vegakerfið verulega, þó ekki sé hægt að mæla með því að lofthræddir ferðist mikið þarna um eyjuna.

11 mars 2008

Veður

Veður: 9,9°/16,9° úrkoma 2 mm. Þokusúld.

10 mars 2008

Veður

Veður: 4,3°/15,6° úrkoma 27 mm. Byrjapi ap rigna einhvern tímann í nótt og rigndi fram að kaffi og smástund var meira að segja næstum lárétt rigning.

09 mars 2008

Veður

Veður: 8,7°/18,7° úrkoma 1 mm. hálfskýjað.

08 mars 2008

Veður

Veður: 0,9°/18,7° skýjað.

07 mars 2008

Frost.

Veður: -3,3°/21,3° léttskýjað. Nú eru búnar að koma tvær frostnætur í röð, svo það er vandséð með hvort kartöflugrösin lifa af þennan kulda, allavega eru þau ansi dökk að sjá gott að eiga ekki allt sitt undir kartöfluuppskerunni þetta árið. Á sama tíma og kartöflurnar eru að væla yfir kulda er bóndarósin alþakin blómum, hún er ekkert að kippa sér upp við að fá tvær frostnætur.

06 mars 2008

Veður

Veður: -2,7°/24,8° Léttskýjað. Þetta er hæsti og lægsti hiti  3-6, því veðurathuganamaður var fjarverandi.

02 mars 2008

Veður

Veður: 7,6°/20,3° skýjað.

Næsta veðurathugun verður á fimmtudag, því starfsmaður veðurathugana ætlar að taka sér frí frá störfum og engin fáanlegur í afleysingar á meðan.

01 mars 2008

Framboð og eftirspurn.

Veður: 4,2°/23,7° þokuloft fyrst í morgunn, en eins og síðastliðna daga var orðið léttskýjað fyrir hádegi og hélst þannig út daginn.

Nú erum við búin að planta út fimm hundruð laukplöntum og segjum það nóg í ár. Verðið á laukplöntunum fer eftir framboði og eftirspurn, um daginn keypti Þórunn 300 laukplöntur og borgaði fyrir þær 8 € þá var mikið framboð af laukplöntum, en í morgunn voru bara til 200 laukplöntur og verðið fyrir þær var 9 € Svo kerlurnar sem eru að selja plöntur eru greinilega vel með á nótunum í verðlagningunni. Mér finnst raunar ótrúlegt hvað verðið á plöntunum er lágt, það getur varla verið að fólkið fái mikið fyrir sína vinnu við plönturæktunina.