31 júlí 2006

Fjörulallar

Veður: 12°/32,4° léttskýjað.

Það kom gestur til okkar í morgunn og verður hér í viku, við eigum örugglega eftir að sakna hans þegar hann fer, en það þíðir ekki að vera að spá í það heldur að njóta samverunnar með honum á meðan hann er hér. Þetta er sem sagt páfagaukur sem við tókum að okkur að passa á meðan kunningjar okkar eru í sumarfríi.
Þessir kunningjar okkar voru búnir að panta sér á netinu stafræna myndavél áður en haldið yrði af stað í fríið. Jú mikil ósköp myndavélin átti að vera komin til þeirra í tæka tíð það var ekki nokkur spurning. Við vorum nú dálítið efins um að þessi afhending stæðist, en vinir okkar töldu að það mætti alveg treysta þessu.
Okkur tókst samt að pína þau til að fá að láni hjá okkur myndavél sem við erum ekkert að nota og það kom líka í ljós að það var eins gott, því vélin sem átti að koma í síðustu viku kemur ekki fyrr en í fyrsta lagi um miðja þessa viku.

Í dag var eldri borgurum sem eru í leikfimi boðið í ferðalag niður á strönd. Það var farið í tveim litlum rútum sennilega á milli fjörutíu og fimmtíu manns.
Það var farið í góðan göngutúr í fjöruborðinu. Það var að falla að og þarna er alltaf dálítil alda, svo það þarf að gá vel að sér að þær nái manni ekki. Fólk gáði misvel að sér og sumir fengu þar af leiðandi vænar skvettur á sig. Þær sem fengu mestu öldurnar á sig blotnuðu upp í mitti, en það þarf svo sem ekki háa öldu til þess, því það er svo stutt frá tánum á þeim upp í mitti, því þær eru svo smávaxnar blessaðar.
Á heimleiðinni var svo komið við á útivistarsvæði, þar sem eru borð og bekkir og þar var borðað nesti. Hér leggja konurnar metnað sinn í að vera með sem fínasta dúka til að leggja á borðið við tækifæri sem þessi. Og líka virðist vera samkeppni um að vera með mikið og veglegt nesti með sér. Það er gaman að fylgjast með fólki og mismunandi siðvenjum og sjá í hvað það leggur metnað sinn.
Þetta var semsagt ánægjuleg ferð í alla staði.

30 júlí 2006

Sumt breytist ekki.

Veður: 10,6°/33,4° léttskíjað.

Jón þú ferð ekki með þessa húfu frá bæ. O ég held að hún sé fullgóð. Nei hér er sparihúfan þín, þú lætur ekki sjá þig með þessa húfu. Þú verður líka að fara í aðrar buxur, þessar eru óhreinar.
Svona samtal átti sér stað fyrir rúmum sextíu árum á milli foreldra minna, þegar Pabbi ætlaði að bregða sér sem snöggvast að heiman og varð þá að ganga í gegnum strangt hreinlætiseftirlit Móður minnar, sem varð að gæta heiðurs síns sem góð og hreinleg húsmóðir.
Nú auðvitað var svo Pabbi kominn með skárri húfu á kollinn og í hreinar buxur áður en hann fékk fararleyfi.
Þetta rifjaðist upp fyrir mér í morgunn þegar við hjónakornin vorum að leggja af stað í smá gönguferð hér í þorpinu.
Annað hvort stendur tíminn í stað eða lítið hefur breyst á þessum rúmu sex áratugum sem liðnir eru síðan ég heyrði ofangreint samtal foreldra minna.
Enn er sama umhyggjan hjá húsmóður heimilisins að bóndi hennar verði heimilinu ekki til skammar vegna klæðaburðar síns.
Ég var búin að finna mér húfu á kollinn í morgunn, þá spurði mín góða kona sísona, ætlar þú með þessa húfu? Já er það ekki í lagi hún er svo þægileg svaraði ég. Nei en hún er ekki alveg hrein, getur þú ekki alveg eins notað þessa sagði mín góða kona og kom með aðra húfu, jú auðvitað var hægt að nota hana, þó hún væri ekki í uppáhaldi hjá mér.
Næst var farið með röntgenaugum niður eftir skyrtunni, svei mér þá ef ég fann ekki fyrir röntgengeislunum. Jú skyrtan hlaut náð, en það sama varð ekki sagt um það litla sem sýndi sig að stuttbuxunum niður undan skyrtunni, það var tæpast að það væri fært að láta sjá sig í þeim á almannafæri, en látið slarka í þetta sinn, en þvottavélin fær þær örugglega til meðferðar á morgunn.

Konur hér í dalnum við þvott í þvottalaug þorpsins.

29 júlí 2006

Sól þoka

Veður: 10,5°/32,7° léttskýjað, gola.

Okkur fannst það hljóma svo vel þegar hún Elísabet grannkona okkar kom hér í gær og sagði frá því að hún og bóndi hennar færu snemma á morgnana, áður en það yrði verulega heitt niður á strönd til að njóta þar útiveru. Fara í gönguferð í fjöruborðinu, eða liggja í sólbaði, svona eftir því hvernig þau væru stefnd í það og það skiptið.
Okkur kom saman um að reyna þetta í morgunn og lögðum af stað héðan úr heiðardalnum klukkan hálf tíu í glampandi sólskini.
Þó það séu ekki nema þrjátíu kílómetrar niður að ströndinni er oft talsvert annað veðurfar þar en hér í dalnum. Til að forvitnast um veðrið nálæt sjónum fór ég inn á netið og sá veðuratugun 10 Km inni í landi og þar var sagt að væri léttskýjað, svo þetta átti allt að vera á hreinu með veðrið, en annað kom nú í ljós.
Þegar við vorum komin það áleiðis að við færum að sjá til sjávar fóru að birtast ský á himni og þegar lengra kom sá í þokubakka við sjóndeildarhring, við ákváðum nú samt að halda ótrauð áfram og fá þó að minnsta kosti góðan bíltúr út úr þessu.
Þegar við vorum komin niður að sjó var talsverð þoka og hitinn ekki nema átján gráður, svo það var ekki annað að gera en snúa heim við svo búið og reyna aftur seinna.
Það var samt margt fólk með sólhlífar og ýmsan annan búnað sem tilheyrir sólböðum á leið á ströndina. Það eru greinilega til meyrir hörkutól en við.
Myndin á síðunni er af þeim nöfnum Þórunni Elísabetu og Elísabetu grannkonu, en hún heitir sjö nöfnum til viðbótar Elísabetar nafninu, en ég man bara þetta eina.
















Síðdegis fórum við í gróðrarstöð til að kaupa nokkur blóm til að hressa upp á litadýrðina í garðinum okkar.
Á heimleiðinni ætluðum við að heilsa upp á Geira og Rósu, en hittum þau þá fyrir utan heimili sitt í bílnum, en þau voru búin að vera inni í allan dag, en voru að leggja upp í smá bíltúr með gesti sína, svo við drifumþau bara í að koma heim með okkur og fá sér kaffisopa.

28 júlí 2006

Heimsóknir

Veður: 11,6°/32,8° léttskýjað.

Við fórum í leikfimi í morgunn, við erum búin að skrópa í leikfimi síðustu þrjár vikur, svo það var sannarlega kominn tími á að liðka sig aðeins. Það voru óvenjumargir mættir í morgunn, ef til vill vegna þess að þetta var síðasti leikfimitími fyrir sumarfrí. Það verður sem sagt engin leikfimi aftur fyrr en í september. Næstkomandi þriðjudag á að aka með liðið niður á strönd og gera einhverjar æfingar þar, eða að minnsta kosti fara í gönguferð. Leikfimikennslan hefur verið í sal við sundlaugina, en af einhvrjum ástæðum var í dag notaður salur í íþróttahúsi bæjarins og í þessum sal er svo mikið bergmál að ómurinn frá síðustu leiðbeiningumkennarans var ekki hættur að hljóma þegar næsta leiðbeining kom, svo þetta varð eiginlega einn samhljómur.

Grassa og Jóhanna litu inn til okkar í dag. Grassa er í sumarfríi, en hefur mjög mikið að gera við að þrífa sitt stóra nýja hús og nú bætist þar við að vinna í garðinum.

Í kvöld leit svo inn Elísabet nágranni okkar, hún var að færa okkur gúrkur og spjalla. Hún og bóndi hennar fara á ströndina á hvejum morgni klukkan átta og eru þar í þrjá ´tíma á meðan það er hæfilega heitt.

Myndina af tómatinum hér fyrir neðan tók ég hér úti í garði. Nú er tímitómatanna hjá okkur. Það er svo gott að borða þá sólvolga beint af plöntunni.

27 júlí 2006

Góðir gestir

Veður:15,5°/30,8° skýjað fram eftir degi, en léttskýjað síðdegis. Gola síðdegis.

Unnum í garðinum í morgunn og aftur síðdegis.
Þórunn fór í klippingu í morgunn, en á meðan sá ég um elhúsverkin og hafði gaman af að malla.

Í kvöld komu í heimsókn Portúgalskir vinir okkar, þau Patricia og Rui.
Hún er fasteignasali og við kynntumst henni í sambandi við starf hennar. Hann er verkfræðingur og vinnur við háskólann í Aveiro. ´Þau eru bæði mjög elskuleg og gaman að spjalla við þau.
Þau segjast ekki vera góðir kaþólikkar og fara bara í kirkju þegar þeim hentar, en ekki um hverja helgi eins og nágrannar okkar.
Þau segjast vera trúuð, en ekki tilbúin að fara eftir öllu því sem kirkjan vill að þau geri, þannig að það lítur út fyrir að fólk sé að losa sig unda valdi kirkjunnar.






Posted by Picasa

26 júlí 2006

Rétta bragðið

Veður: 15,1°/29,7° Þoka í lofti framan af degi en síðan léttskýjað.

Við Þórunn drifum okkur í góðan hjólatúr í morgunn. Það var svo þægilegt veðrið, alveg hæfilega heitt til að hjóla. Við hjóluðum inn með Vouga ánni, það er svo margt fallegt sem ber fyrir augu á þeirri leið. Þetta er 25 Km. ferðalag.
Síðdegis fórum við svo niður að strönd, samt ekki til að sóla okkur á ströndinni að þessu sinni, eða fá okkur gönguferð eins og við gerum svo oft. Nei nú var erindið að koma við í verslun sem er með kínverskar smávörur og við köllum daglega Kínabúðirnar. Það er orðið mikið af þessum verslunum hér í portúgal og eru alveg búnar að útrýma svona smávörubúðum sem Portúgalir voru með.
Fyrir nokkru keypti ég hjá þeim tösku utan um gleraugun mín og myndavélina, en sú taska reyndist heldur lítil, en í dag fundum við aðra sem er hæfilega stór fyrir þessa hluti og mjög létt og þægileg.
Næst héldum við svo í stærri verslun til að kaupa meðal annars rúsínur og sveskjur. Svo ótrúlegt sem það nú er þá fæst slíkur varningur ekki nema í einni búð í þessari stóru borg sem Aveiro er. Bara fyrir jól og páska er þetta til í flestum verslunum.
Við keyptum líka hlut sem ekkert heimili getur án verið, semsagt nýja skúringarfötu. Ástæðan fyrir því að það vantaði skúringafötu er sú að fatan sem búin var að gegna sínu hlutverki af stakri trúmennsku í mörg ár var fengið annað hlutver og gott ef hún hækkaði bara ekki í metorðastiganum við þessa breytingu. Nú sem sagt þjónar hún sem hlíf utan um skynjarann frá hitamælinum hér úti í garði. Ég valdi litinn á nýju fötunni, þannig að ég ætti auðvelt með að koma auga á hana, ekki í neinum felulit.
Þórunn sá í þessari verslun tæki sem henni hefur lengi fundist vanta hér á heimilið, en það er gamaldags kartöflupressa. Það var nú einhvern tíman til svoleiðis tæki hér í eldhúsinu, en ég henti því fyrir nokkrum árum, því mér fannst mun þægilegra að nota rafknúna matvinnsluvél til að búa til kartöflumús. Þórunni fynnst eitthvað vanta upp á rétta bragðið af músinni ef notuðr eru nýmóðins tæki við að búa hana til. Ég hlakka til að fá að bragða kartöflumús með þessu eia rétta bragði. Nammi namm.

 Posted by Picasa

25 júlí 2006

Matarboð.

Veður: 12,3°/32,6° léttskýjað.
er ég búinn færa skinjarann fyrir hitamælinn. Áður var hann í skugga undir greinum Camomilltrésins, en er ég búinn færa hann út á víðavang, en samt þannig sólin nær ekki skína beint á skynjarann. Áður birti ég sem lægsta hita hitastigið sem var þegar ég fór á fætur, en framvegis mun ég birta lægstu tölu næturinnar, svo það reikna með lágmarkshitinn verði nokkru læri en verið hefur. Á sama hátt birti ég þá tölu sem hæst verður yfir daginn. Það líka reikna með hún hækki nokkuð, þar sem ekki er lengur mælt hitastig í skugga.

Í gær buðum við þeim Geira og Rósu í mat til okkar í dag ásamt gestum þeirra, Helgu systir Rósu og Einari manni hennar.
Þau fengu ofnsteikta kalkúnabringu með öllu tilheyrandi, í eftirrétt var svo ostaeplakaka.
Þau völdu tímann sem borða skyldi og völdu koma klukkan fimm, sem er mjög þægilegur tími.
Ég fékk spreyta mig á skreyta kökuna og árangurinn sjáhér neðan.
Eftir matinn var svo sest í stofu og spjallað um daginn og veginn, þá kom í ljós eins og ævinlega þegar Íslendingar taka tal saman við könnuðumst sameiginlega við nokkrar manneskjur.



24 júlí 2006

Sérviska

Veður: 20°/24° skýjað.
Það var ágætt hvíld frá sólinni í dag og þægilegt aðhitinn var ekki meiri en tölurna fyrir ofan sýna.

Geiri og Rósa litu inn ásamt Helgu systur rósu og Einari manni helgu. Við buðum þeim í mat til okkar á morgunn.
Þau fóru svo í ökuferð með gestina sína um bæi hér í nágrenninu.

ætli það ekki rétt ég láti fljóta með eina sögu af sérviskunni í mér.
Eins og flestir vita sem þekkja mig og vita hvað ég er sjóndapur og ég fæst ekki mikið við skrifa með penna, því ég á erfitt með greina það sem blessaður penninn skilur eftir sig á pappírnum. Það er helst ég reyni pára nafnið mitt þegar um það er beðið, svo það mætti ætla það skipti mig ekki miklu máli hvers konar penna ég nota, nei ekki aldeilis. Ég vil bara eiga almennilegan penna og ekkert múður með það. Ég er búinn eiga Lamy penna í mörg ár, svo mörg ár var fyllingin orðin tóm. Ég taldi víst það væri ekkert mál nýja fyllingu í pennann, en því miður þær fást bara ekki á þessu svæði hér í Portúgal.
Það var hinsvegar gott úrval af Parker pennum og er ég eigandi einum slíkum og ég á ekki von á öðru en fyllingin sem er í honum endist mér í allt það sem ég á eftir skrifa með penna meðan ég tóri. Svona getur maður verið sérvitur og kemst furðanlega upp með það.

23 júlí 2006

Veður: 17°/29° Þoka fyrst í morgunn, en henni létti fljótlega og eftir það var heiðskýrt.

Fórum í gönguferð í gegnum skóginn í morgunn á meðan það var mátulega heitt. Það var hljótt og gott í skóginum heyrðum bara í einni hjáróma kráku.
Síðdegis fórum við svo í sunnudagsbíltúr um fáfarna vegi sem liggja hér upp í fjalllendið. Það er fremur lítil byggð við þennan veg, en samt eru nokkur ný og glæsileg hús að finna þarna. Við sáum líka gamalt og lúið hús, sem var til sölu ef einhver hefur áhuga fyrir slíku.
Það er fallegt útsýni af þessum vegi yfir til þorpanna sem kúra sig í fjallshíðunum eins og skyrslettur á grænum dúk.
Þarna uppi er venjulega algjörlega hljótt, en ekki í dag, því það ómaði um loftir mótorskellir og háværir hátalarar í bland.
Það kom svo í ljós að niður í einum dalnum var Go Kart keppni í gangi og ef marka má af bílafjöldanum sem var þarna hefur verið mjög margt fólk að horfa á þessa keppni.










22 júlí 2006

Afmæli

Veður: 15°/28° heiðskýrt.

Í morgunn fórum við til Geira og Rósu, þar hittum við Helgu systir Rósu og Einar mann helgu en þau eru í heimsókn hjá G og R.
Eftir það fórum við í gróðrarstöð til að kaupa blóm og þar dundaði ég mér við að taka myndir af blómum. Afraksturinn af þeirri myndatöku gefur að líta á myndasíðunni minni. Mér fannst mjög fallegir ágræddir kaktusar sem voru þarna, svo við keyptum tvo þeirra, annan rauðan en hinn gulan.

Í kvöld vorum við svo boðin í sextugsafmæli hjá Geira. Hann á raunar ekki afmæli fyrr en á mánudag, en ákvað að halda upp á það í kvöld.
Hér í landi þykir það ekki við hæfi að fagna afmælinu sínu svona fyrirfram, þá finnst fólki að verið sé að storka örlögunum, því það sé ekki sjálfgefið að vera lifandi á morgunn. Geiri hlustar ekki á slíkar bábiljur og segir sem satt er að það sé þá gott að vera búin að njóta ánægjunnar fyrirfram.
Hvað um það þetta var glæsileg matarveisla á góðu veitingahúsi við hliðina á blokkinni sem þau búa í svo það var ekki langt fyrir þau að fara. Þegar komið var inn var komið að borði með smáréttum og víni, svo hægt væri að skála fyrir afmælisbarninu.
Síðan var sest að borðum og hver pantaði það sem hann lysti og þá kom í ljós að íslendingurinn er ofarlega í þessu fólki sem var mætt þarna, því þrír af sjö pöntuðu lambakjöt, tveir fengu sér saltfisk. Það er líklega dýpst á íslendingnum í mér, því ég pantaði nautakjöt.
Að sjálfsögðu var svo eftirréttur, en í lokin kom svo veitingastaðurinn á óvart með því að koma með afmælistertu og þá var auðvitað sunginn afmælissöngur og allur salurinn klappaði að loknum söngnum. Þetta var sem sagt mjög ánægjuleg og vel heppnuð afmælisveisla í alla staði.











21 júlí 2006

Kvaddir góðir gestir

Veður: 15°/26° Léttskýjað

Ég hafði gilda afsökun fyrir að skrifa ekki í dagbókina í gærkvöldi, því þá var síðasta kvöldið með gestunum okkar áður en þeir lögðu af stað til síns heima og í tilefni af því buðu þeir okkur út að borða.
Við fórum á veitingastaðinn sem við nefnum Bátaskýlið. Það voru allir mjög ánægðir með matinn og þjónustuna.
Þegar heim var komið luku þau við að pakka niður, því þau ætluðu að leggja snemma af stað.
Það var farið á fætur klukkan fjögur í nótt og þau lögðu af stað í sína löngu ferð klukkan fimm í morgunn.
Það er dálítið tómlegt í húsinu eftir að þau fóru, eins og ævinlega þegar góðir gestir eru farnir.

Við fórum í dag í stóru dótabúðina mína, núna til að skoða hitamæla. Það bilaði hitamælirinn sem sýndi útihitann og fyrir svona dellukarl um hita og veðurfar er það afleitt að vera ekki með hitastigin alveg á hreinu. Nú er ég sem sagt kominn með enn eitt nýtt leikfang, mælir sem sýnir hita og rakastig bæði inni og úti.
Við litum inn hjá honum Pétri í leiðinni, en hann býr í Aveiro.









19 júlí 2006

Bara skoða.

Veður: 18°↓° Skýjað framan af degi, en léttskýjað síðdegis.
Það gerði mikið þrumuveður hér í gærkvöldi. Þetta byrjaði rólega, við fórum að sjá eldingar á himni, þar sem við sátum úti á veröndinni með gestum okkar. Ljósadýrðin færðist svo nær og nær þar til við fórum að heyra þrumugnýinn og um tíma í nótt gekk bara talsvert mikið á.
Það var talsverð rigning með þessu, sem var mjög vel þegin.

Gestirnir sem eru hér og við skiptum liði í morgunn, í karla og kvennalið.
Kvennaliðið fór auðvitað á markaðinn og undi sér mjög vel þar við að skoða föt og eitthvert lítilræði var líka keypt. Það væri fróðlegt rannsóknarefni að telja hvað það eru skoðaðar margar tuskur fyrir hverja eina sem keypt er.
Við strákarnir fórum í dótabúð með rafmagnstæki myndavélar og margt fleira, þar var sama sagan margt skoðað en lítið verslað. Klaus keypti sér Expreso kaffikönnu og þráðlausan hljóðnema og hátalara við farsímann sinn.
Ég bara skoðaði, það er sagt að það kosti ekkert að skoða, en ég er ekki viss um að það sé alveg rétt, því það leiðir oft til þess að það sem verið var að skoða verður keypt síðarmeir, þegar maður er búinn að sannfæra sjálfan sig um að mann bráðvanti þennan hlut sem skoðaður var.

Gestirnir fóru svo á ströndina síðdegis og eru þar enn þegar þetta er skrifað klukkan að verða átta.

Við unnum smávegis í garðinum í dag.

18 júlí 2006

Ein síbrosandi.

Veður: 20°/31° Skýjað fyrst í morgunn og náði meira að segja að koma með fáeina rigningardropa, svona bara rétt til að sýna okkur hvernig slíkt fyrirbæri liti út. Það var eiginlega ekki vanþörf á, því það er svo langt síðan það hefur rignt hér um slóðir. Síðdegis var svo sólskin af og til.





















Ég er helst á að ég hafi alveg gleymt að kynna þennan íbúa austurkots fyrir dagbókinni. Þessi brosmilda stúlka heitir Rita og er sennilega um það bil fimm ára gömul. Þórunn bjó hana upphaflega til fyrir litla vinkonu okkar sem kom hér oft og hafði þá margt um að tala við hana Ritu.
Það hafa margir gestir sem hér hafa komið átt langar og spekingslegar viðræður við þessa brosmildu dömu. Núna eru hér tvær fjórtán ára stúlkur að rifja upp gamlar endurminningar með Ritu, svo hún hefur ærna ástæðu til að brosa breitt þessa dagana.

17 júlí 2006

Latur skrifari.

Veður: 21°/37° heiðskýrt.

Gestirnir okkar fóru á ströndina í dag og líkaði mjög vel. Þau njóta þess mjög vel að vera hér í góða veðrinu og setja það ekki fyir sig þó það sé fullheitt um miðjan daginn.

Við fórum aðeins í búðir um miðjan daginn.

16 júlí 2006

Fleirri góðir gestir

Veður: 21°/39° heiðskýrt.

Nú hefur fjölgað í Kotinu á ný. Tvíburarnir sonardætur Þórunnar komu síðdegis ásamt móður sinni og fóstra. Þau koma akandi alla leið frá Danmörku. Þau eru búin að vera að skoða Spán og Portúgal á leiðinni hingað. Eru búin að koma við meðal annars í Barselona. Madrid. Granada, Lissabon, Porto og víðar, svo þetta er orðið mikið ferðalag hjá þeim. Það hefur víða verið mjög heitt þar sem þau hafa verið, en þau eru samt mjög ánægð með það sem af er ferðarinnar.
Nú ætla þau að slappa af hérna í nokkra daga og safna kröftum fyrir heimferðina. Ungu dömurnar hafa mikinn áhuga fyrir að komast á ströndina og baða sig í sjónum. Það er mjög góð strönd í aðeins þrjátíu kílómetra fjarlægð héðan.











15 júlí 2006

Kvöldhiminn

Veður: 22°/36° léttskýjað.

Það er best að byrja á að tíunda stærsta viðburð laugardagsins og nú er vissara að halda sér fast eða vera búinn að tryggja sér gott sæti áður en fréttin kemur. Það var ekki eldaður grjónagrautur í dag eins og venja er á laugardögum, þess í stað var það brauðsúpa, svona til að bjarga brauðafgöngum frá skemmdum. Vegna þess hve heitt er í veðri voru settar ískúlur ofan á súpuna til bragðbætis í stað rjóma og bragðaðist bara vel.

Það er mjög heitt í veðri þessa dagana, en okkur líður ágætlega, því við erum með loftkælingu í okkar húsi, en það eru mjög fáir hér í kring sem veita sér slíkan luxus og þeim líður ekki vel í svona hita. Segjast eiga erfitt með svefn og kvarta mikið yfir svita og öðrum óþægindum. Í gærdag sá ég hann Manúel granna minn standa hér úti á götu í stutturunum einum fata í skugga af tré og vera að lesa blaðið sitt. Það hefur verið ögn svalara en sitja á veröndinni fyrir utan húsið, eða inni í húsinu.

Við fórum í gönguferð í kvöld þegar farið var að draga úr hitanum. Á þeirri gönguferð tók ég meðfylgjandi myndir. Sú fyrri er af kvöldhimninum, en sú síðari gæti heitið óvæntar tafir, eða eitthvað í þá veru því þarna hefur verið hafist handa við endurbætur á húsi,en smiðurinn hefur verið lengur að sækja sér bjór en eðlilegt getur talist, því það er farið að vaxa tré út um gluggann.

















14 júlí 2006

Rómverskar rústir

Veður 29°/38° léttskýjað.

Dagbókin mín var ansi snubbótt í gær, en það var vegna annríkis en nú ætla ég að bæta ráð mitt og verð þá að skrifa fyrir tvo daga í einu.

Í gærmorgunn fór ég sem leiðsögumaður með gestum okkar til að skoða rústir frá því er Rómverjar réðu hér ríkjum. Þessar rústir eru um það bil 2000 ára.
Þessi borg Rómverja hét Conimbrica og var reist við þjóðveg sem Rómverjar lögðu frá Lissabon norður eftir landinu. Þeir létu sig ekki muna um að steinleggjavegi sína á þessum tíma. Það er enn sýnilegur bútur af þessum vegi í borgarrústunum
Þarna var að sjálfsögðu byggður stokkur til að sjá íbúunum fyrir vatni og enn sjást leifar þess mikla mannvirkis.
Þarna eru líka minjar um böð þeirra. Verslanir voru þarna svo og verkstæði sem sennilega hafa þurft að vera tilbúin að gera við stríðstól þeirra og vopn.
Þarna eru líka húsagarðar með gosbrunnum og rennandi vatni. Það hefur verið notalegt að sitja í skuggsælum súlnagöngum og hlusta á vatnsniðinn á heitum sumardögum, en þarna verður oft mjög heitt á sumrin. Það fengum við að reyna sjálf í gær, en þá var hitinn 40° C um miðjan daginn.
Ótrúlegt er að sjá hve gífurleg vinna hefur verið lögð í mosaikt skreytingar á gólfunum, en mörg þeirra eru óskemmd.
Þarna er líka stórt safnahús sem hýsir ýmsa muni sem fundist hafa við uppgröft á svæðinu.
Það er semsagt mjög áhugavert að koma þarna og reyna að gera sér í hugarlund hvernig þetta leit út á meðan þarna var iðandi borgarlíf.
Við enduðum svo ferðalagið á að koma við í kirkjugarði svo þau gætu séð allan þann marmara og granít sem er notað í sambandi við leiðin í kirkjugörðum hér í landi. Þeim fannst ótrúlegt að sjá þennan íburð.
Um kvöldið buðu gestirnir okkur svo út að borða á góðum veitingastað, þar sem allir voru mjög ánægðir með matinn og þjónustuna.
Ég læt fylgja með þessum skrifum mynd af l´kani sem gert hefur verið af einni höllinni í Conimbriga.

Þá er komið að deginum í dag, en þá voru okkar góðu gestir að búa sig til brottfarar og eins og ævinlega er erfitt að sjá á bak góðum gestum, en bót í máli að geta glatt sig við góðar minningar frá samverunni með þeim.

Geiri og Rósa komu hér í morgunn í spjall og kaffisopa og buðu okkur svo að koma og borða mér sér.
Rósa eldaði öndvegis spaghetti rétt. Við vorum nokkuð lengi hjá þeim því þau áttu von á að fá sjónvarpið sitt úr viðgerð á milli klukkan 2 og 4, en það var ókomið þegar við fórum klukkan að ganga sex, en skilaði sér víst klukkustund síðar. Þetta var bara dæmigerð tímasetning hér í landi óstundvísinnar.

13 júlí 2006

Veður

Veður: 21°/38° léttskýjað.

12 júlí 2006

Markaður/strönd.

Veður: 18°/35 léttskýjað.

Í morgunn fóru gestirnir okkar á markað og létu svo sannarlega hendur standa framm úr ermum við að toga í tuskur.
Eftir að hafa hvílt sig góða stund hér heima fórum við með þeim niður á strönd, til að slappa af og njóta þess að vera við sjóinn. Það var alveg hæfilega heitt á ströndinni, en hér í dalnum var ekki verandi úti við vegna hita um miðjan daginn og raunar alveg fram á kvöld.
Það var mjög margt fólk á ströndinni, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.
















Eru þessir bolir ekki góðir?
















Á ströndinni

11 júlí 2006

Veður: 18°/36 léttskýjað.
















Þreyttur fjárhirðir.

10 júlí 2006

Góðir gestir

Veður: 16°/29° Léttskýjað.

Í gærkvöldi komu til okkar góðir gestir, fyrrum nágrannar mínir úr Þorlákshöfn Aldurforsetinn í hópnum er hún Sigurlaug sem er orðin 85ára. Hún var gift frænda mínum en hann er látinn fyrir mörgum árum. Sonur hennar Þór er með í för og Áslaug kona hans ásamt steinunni dóttur þeirra.
Það er ánægjulegt að rifja upp með þeim atburði frá því við vorum nágrannar í Þorlákshöfn.
Áslaug vinnur við kennslu svo við fengum að skoða skólann hjá Grössu í morgunn og eftir að hafa sýnt okkur skólann var Grassa svo elskuleg að sýna þeim nýja húsið sitt. Þeim fannst mjög fróðlegt að sjá hvernig nýtt hús í Portúgal lýtur út.
Síðdegis fórum við svo öll í verslunarferð í Aveiro og enduðum ferðina á því að fá okkur að borða.

09 júlí 2006

Brúðkaupsafmæli

Veður: 17°/30° heiðskýrt.

Okkar góðu nágrannar, hún Matthild og hann Maúel fagna sínum 45.brúðkaupsafmælisdegi í dag. Í tilefni þess læt ég fylgja með pistlinum í dag mynd sem tekin var af þeim í morgunn, þegar við Þórunn færðum þeim nokkur blóm og óskuðum þeim til hamingju með daginn.
Þau hafa búið allan sinn búskap hér í Stóradal, fyrstu árin í leiguhúsnæði, en byggðu svo sitt eigið hús hér við hliðina á þessu húsi sem við nefnum nú Austurkot og þar á ég von á að þau verði á meðan þau eru rólfær.
Tvo syni eignuðust þau, en annar lést í umferðarslysi fyrir fimmtán árum. Á hverjum laugardegi fara þau hjón með blóm á leiði sonarins.
Þau sigla ekki alla daga lygnan sjó í sínu hjónabandi frekar en margir aðrir, en það er ekkert verið að bæla óánægjuna niður, það er sko virkilega blásið út við slík tækifæri. Manúel liggur mjög hátt rómur og hún getur líka látið til sín heyra. Það hvín stundum svo í þeim að maður gæti haldið að þau væru að ganga frá hvort örðu, en þar með virðist því vera lokið og á eftir labbar Manúel sér blístrandi út eins og ekkert hafi ískorist, en það kemur fyrir að hún segi”jesus” eftir slíka sennu.
Nú snýst öll þeirra tilvera um soninn sem þau eiga og hans tvær dætur. Sonurinn er duglegur að heimsækja þau, en hann býr í 60 Km. fjarlægð frá þeim.
Þau ferðast ekkert, eða gera sér yfir höfuð neitt til tilbreytingar. Þau fara í kirkju hvern einasta sunnudag. Þau eru með nokkrar hænur,grís og geitur og mikið af tímanum fer í að snúast í kring um þessa gripi og afla fóðurs fyrir þá.

08 júlí 2006

Tap=hljótt

Veður: 16°/29° Heiðskýrt.

Harpa og fjölskylda kvöddu okkur í morgunn og héldu aftur til Algarve, þar sem þau ætla að dvelja það sem eftir er af sumarleyfinu. Það var mjög ánægjulegt að fá þau í heimsókn, en verst hvað þau stoppuðu stutt.

Síðdegis fórum við í búðir, svona til að kaupa eitt og annað smálegt til heimilisins.

Það bilaði spennubreytir við skannann hjá okkur. Við erum búin að leita talsvert að spennubreyti frá H/P en fundum ekki neinn slíkan svo við keyptum einhvern sem átti að passa fyrir næstum hvað sem er. Þegar til kom passaði ekki tengingin í skannann, svo ég reyndi að færa tenginguna af gamla spennubreytinum á þann nýja, en þetta vill ekki virka hjá mér. Ég eyddi löngum tíma í að bauka við þetta í kvöld en án árangurs.
Ég var að vinna í myndum á meðan Þórunn fylgdist með hvernig Portúgölum gekk í fótboltanum gegn Þjóðverjunum. Það heyrðust engin fagnaðarlæti hér í nágrenninu eftir þennan leik, gott ef hundarnir sem eru sígjammandi eru ekki hljóðari en venjulega eftir tapið. Það verður fróðlegt að vita hvort hanarnir láta heyra í sér í fyrramálið, eða hvort þeir verða daprir og þögulir eins og mann fólkið og hundarnir.

07 júlí 2006

Víðsýni

Veður: 16°/30° heiðskýrt

Meðan Þórunn fór sem leiðsögumaður með gestunum til Caramulo fór ég í góðan hjólatúr niður á sléttlendi, eða óshólma. Ég kann alltaf vel við mig þarna, ef til vill vegna þess að ég er fæddur og uppalinn á sléttlendinu fyrir neðan Selfoss, svo ég kann vel að meta víðsýnið þarna.
Ég tók nokkrar myndir í ferðinni, sem er að finna í albúninu "mynd dagsins"

06 júlí 2006

Gestir

Veður: 13°/27° heiðskýrt.

Grasflötin slegin í morgunn á meðan Þórunn var að þrífa innandyra.

Geiri og Rósa litu inn eftir hádegi ásamt Eyjólfi.

Harpa bróðurdóttir Þórunnar er komin í heimsókn ásamt fjölskyldu sinni. Eiginmanninum Huginn og börnunum Birtu þriggja ára og Mánasjö ára gömlum.
Þau eru í sumarleyfi í þrjár vikur suður á Algarve, en voru svo elskuleg að leggja það á sig að aka hingað norður eftir til að heimsækja okkur.












05 júlí 2006

Að skoða hús.

Veður: 16°/25 léttskýjað

Stærsta afrek mitt í morgunn var að klippa limgirðinguna, en á meða fór Þórunn og skemmti sér á markaðnum í Albergaria, henni finnst alltaf gaman að fara þangað og sjá mannlífið á markaðnum.

Eftir hádegi fórum við svo með Geira og Rósu til að skoða íbúðarhús, sem ert il sölu. Þau eru eitthvað að kynna sér markaðinn hér í grenndinni. Fyrra húsið sem við skoðuðum var lítið einbýlishús, sem er nýbúið að gera upp, svo það er alveg eins og nýtt.
Síðan fórum við og skoðuðum alveg nýtt raðhús, sem var mjög huggulegt í alla staði.

03 júlí 2006

Gönguferð

Veður: 14°/25° léttskýjað.

Unnið í garðinum í ,morgunn og bíllinn þveginn og ryksugaður.
Ég þori ekki annað en halda okkar Opel hreinum eftir að Geiri er líka kominn með Opel, því það sér aldrei rykkorn á hans bílum og ég gæti trúað að hann ræki mig úr Opelklúbbnum ef ég held bílnum ekki hreinum.
Við fórum eftir matinn með þeim Geira og Rósu til að athuga með nýja sjónvarpið sem þau komu með frá Svíþjóð en reyndist svo bilað þegar þau ætluðu að fara að nota það. Það var í ábyrgð sem betur fer en nú eru þau búin að bíða í fimm vikur eftir að fá tækið viðgert og í dag var okkur sagt að við mættum hringja eftir tvo til þrjá daga og fá fréttir. Það hafa verið gefin loforð síðustu tvo miðvikudaga um að það mætti örugglega koma og sækja tækið, en það hefur ekki staðist.

Við Þórunn fórum í góða gönguferð um Vale Maior í góða veðrinu í kvöld. Á heimleiðinni litum við inn hjá Grösu og Artúr. Þau eru núna að vinna í lóðinni við húsið sitt. Lóðin er rúmlega 2000 fermetrar, svo það er handtak að koma henni í lag og síðan að halda henni við.

Myndirnar sem fylgja með þessum pistli tók ég í gönguferðinni. Önnur myndin er að blómum skrýddum rafmagnsstaur, en á hinni sér yfir akurspildur.

02 júlí 2006

Óvænt

Dagurinn í ddag endaði öðruvísi en ég bjóst við, svo nú verð ég að bæta við dagbókina.
Ég ætlaði að fara að skrifa bréf klukkan að verða níu þegar dyrabjöllunni var hringt, en slíkt er sjaldgæft hér á bæ á þessum tíma dags.
Á tröppunum stóð þá Rósa, en við áttum alls ekki von á þeim hingað fyrr en á morgunn. Við fengum sms frá þeim í morgunn og þá voru þau nálægt Touluse í Frakklandi, svo það er ekki lítið sem þau eru búin að aka í dag.
Þau sögðust líka vera dálítið þreytt sem vonlegt er.
Þau skiptu á bílum í Svíþjóð daginn áður en þau lögðu á stað, eru nú á Opel Vegtra 2000 árgerð, en ég átti von á að sjá þau á Bens.
Það er gott að vera búin að fá þau í nágrennið á ný, við erum búin að sakna þeirra þennanmánuð sem þau eru búin að vera fjarverandi.















Að ofanGeiri við Opelinn.
Að neðan: þreyttir ferðalangar

Ekki til eftirbreytni.

Veður: 15248/24 skýjað fram yfir hádegi, léttskýjað síðdegis.

Þetta er búinn að vera rólegur og góður sunnudagur.
Við vorum búin að ákveða að fara út að borða og vorum þá með í huga að reyna nýjan matsölustað, sem Þórunn sá auglýstan í Albergaria. Staðurinn reyndist lokaður þegar við mættum þar og ekki orð að sjá um opnunartíma, það var nú svo, þetta er jú í Portúgal.
Við gáfumst ekki upp við þetta, heldur fundum annan stað í Albergaria sem við höfðum ekki reynt áður. Þetta var lítill og vinalegur, eiginlega heimilislegur staður. Svona Mömmuleg kona sem var þarna í forsvari. Maturinn var ágætur á portúgalska vísu, kæfusoðið nautakjöt, en bragðgott. Það má eiginlega segja að það sé sama inn á hvern af þessum minni veitingastöðum farið er hér í landi, það væri hægt að láta sér detta í hug að það væri sama eldhúsið sem eldaði fyrir þá alla. Hvað um það við fórum út södd og ánægð.
Síðdegis fórum við svo í gönguferð hér um nágrennið og við fallegt íbúðarhús hér rétt hjá sáum við dæmi um hvernig ekki á að umgangast fánann sinn, en þetta er ekkert einsdæmi hér í
landiÞað er svo að sjá að fólk hengi fánann upp og svo er hann látinn vera meðan einhver tutla er eftir af honum.

01 júlí 2006

Fótboltafár

Veður: 15°/25° skýjað til hádegis, léttskýjað síðdegis.

Ég hélt áfram við að flétta laukinn í morgunn, en á enn talsvert eftir enn.
Síðan skipti ég um kerti í jarðtætaranum, en hann fór ´i einhverja fýlu síðast þegar ég var að nota hann. Ég reiknaði með að þurfa að fara með hann á verkstæði og var búinn að ráðgera að fá lánaða kerru til að flytja hann. Svona ráðgerir maður og hefur áhyggjur að óþörfu, því það var eins og við manninn mælt, að þegar ég hafði sett nýja kertið í vélina þaut hún í gang og gekk ljúflega.
Þórunn sat ekki aðgerðarlaus á meðan ég var að stauta við mitt, því hún fór eins og stormsveipur um háaloftið, ábyggilega við litla gleði köngulónna sem voru búnar að spinna sína vefi af miklum hagleik um allt.
Nú er semsagt orðið mjög fínt á loftinu og kóngulærnar örugglega önnum kafnar við að spinna nýjan vef.
Meðal hluta sem Þórunn fann við tiltektina og ekki verður geymdur lengur var nær tvítugur prentari við Maca tölvu, svona hættir manni til að geyma hluti sem aldrei verða notaðir.c
Þessi prentari varð til þess að það rifjaðist upp fyrir mér að tölvan sem prentarinn var keyptur við var með eins gígabæta diski, sem þótti þá mjög gott og næsta tölva sem ég eignaðist var með átta gígabæta diski, en þessi sem ég á núna er með 250 GB diski.


Við áttum leið upp í Albergaria sem er næsti bær við okkar þorp. Öllu jafna er rólegt á götunum í þessu litla bæ og venjulega lítið lífsmark um klukkan sjö á laugardagskvöldi. Nú var hinsvegar annað uppi á teningnum, allar götur fullar af flautandi bílum og fólk hrópandi og veifandi portúgalska fánanum.Við sáum þann kost vænstan að leggja bílnum og fara fótgangandi það sem við þurftum að fara. Það þarf varla að segja frá ástæðunni fyrir þessum fögnuði Portúgalanna, en fyrir þá sem ekki vita voru þeir að vinna sigur á Englendingum á HM.
Það var mjög fróðlegt að sjá stemminguna hjá fólki, mest bar á ungu fólki, en einum gömlum manni mættum við sem ekki vildi láta sitt eftir liggja. Þar sem hann hökti áfram eftir gangstéttinni reyndi hann að hrópa siguróp brostinni röddu.
Það eru fleiri myndir frá Albergaria á myndasíðunni minni.
Smellið á myndir til hæri á síðunni.