30 nóvember 2008

Veður

Veður: 0,4/10,7° úrkoma 11 mm. skýjað

image Hita og úrkomutölur fyrir nóvember. Mesti hiti 23,2 minnsti hiti -3,3 Meðaltal daghita 17,8,  næturhita 3,5\

29 nóvember 2008

Snjór

Veður: 4,3/7,5° úrkoma 19,6mm. Það var smávegis þrumuveður í nótt og í morgunn gerði haglél, svo það sást sýnishorn af snjó sem stoppaði að vísu ekki lengi, en nógu lengi til að hægt væri að taka mynd af snjó.

Mikill snjór Þetta er mesti snjór sem ég hef séð hér í Austurkoti síðan ég flutti hingað, en þau eru orðin 17 árin mín hér.

28 nóvember 2008

Loksins rigning.

Veður: -0,7/11,1° úrkoma 30,9m. Það var rigning í morgunn og framyfir hádegi um miðjan daginn var þurrt, en í kvöld kom þrumuveður og rigning í kjölfarið. Það er vel þegið að fá þessa úrkomu, því það er búið að rigna mjög lítið í haust.

Sigrún lét vita í kvöld að hún væri komin heim af sjúkrahúsinu. Mér finnst þetta ótrúlegt að hún skuli hafa mætt á sjúkrahúsið á mánudagsmorgni til að gangast undir heilauppskurð og vera svo komin heim til sín aftur á föstudegi eftir aðeins fimm daga. Það hafa greinilega orðið miklar framfarir í læknavísindum síðan botnlanginn var fjarlægður úr mér og ég þurfti að vera viku á sjúkrahúsi, á stofu með fimm körlum sem hrutut hver í kapp við annann.

27 nóvember 2008

Veður

Veður: -1,3/14,7° léttskýjað.

26 nóvember 2008

Heimt úr helju.

Veður -3,3/15,3° léttskýjað. Eins og sjá má á hitatölunum var ansi svalt í nótt og grasflatirnar hjá okkur voru alhrímaðar í morgunn.

DSC01094 Hrímuð baklóðin.

Heimt úr helju, þegar síminn hringdi í dag og ég heyrði hver var í símanum fannst mér eins og ég væri að heimta viðmælanda minn úr helju, því í símanum var Sigrún dóttir Þórunnar, en síðatliðinn mánudag gekkst hún undir uppskurð til að láta fjarlægja æxli við heilann. Þó maður voni að sjálfsögðu að svona aðgerð takist vel og ekkert fari úrskeiðis, er samt mikill léttir að fá staðfestingu á að svo sé. Sigrún er enn þreytt og dösuð eftir aðgerðina, en er óðum að hressast.

25 nóvember 2008

Veður

Veður: -0,5/15,9° léttskýjað.

24 nóvember 2008

Veður

Veður: 6,4/15° úrkoma 2,8 mm. skýjað, smáskúrir.

23 nóvember 2008

Gestir

Veður 2,8/20,3° léttskýjað.

Buðum portúgölskum vinum okkar í mat í dag, þeim Alsin og José. Þau komu með barnabarnið sitt hana Carolin sem er þriggja ára.

DSC01089 Setið að snæðingi.

DSC01093 Carolina kunni vel að meta að leika sér í dótinu sem til er í Austurkoti fyrir þennan aldursflokk gesta.

22 nóvember 2008

Veður

Veður: 1,8/20,1° léttskýjað.

21 nóvember 2008

Barndómur?

Veður 5,1/21,5° léttskýjað.

Það var leikfimi í morgunn og við fengum nokkuð sæmilega hreyfingu, en eftir að við fengum nýjan kennara finnst mér oft vanta mikið upp á að æfingarnar standi undir því að geta talist leikfimi. Þetta gengur mest út á að dingla sér eitthvað og vera í leikjum. Ég hef svona verið að velta því fyrir mér hvort þessi stúlka hafi lært að kenna leikskólabörnum leikfimi og að ég sé ekki alveg nógu langt kominn í því ferli að vera genginn í barndóm á ný.

DSC01084 Hér er hluti hópsins í morgunn að dinglast með bolta. Kennarinn er til vinstri á myndinni í hvítum bol og bláum buxum. En það ætti ekki að leyna sér að hún er yngst ef frá er talið eitt Ömmubarn sem stundum er með okkur og æfingarnar ættu að hentta mjög vel, því hún er þriggja ára.

20 nóvember 2008

Góð ferð.

Veður: 3,3/20,1° léttskýjað.

Þórunn átti uppástunguna að aðalverkefni dagsins og ég var fljótur að samþykkja þá góðu hugmynd, enda var ég sjálfur búinn að láta mér detta þetta í hug, svo kannski hef ég bara sent henni hugskeyti. Þessi góða hugmynd var að bregða sér niður á Barra, en það er strandbærinn okkar. Mér dettur í hug í sambandi við að taka svona til orða að fara niður á Barra, að það er ekkert meira niður á við en margt annað sem við förum, en svona málvenjur skapast oft. Ég minnist þess þegar ég átti heima á Selfossi var iðulega talað um að fara suður þegar talað var um að fara til Reykjavíkur, þó farið sé til vesturs, eða jafnvel norðvesturs en ekki í suðurátt. Nú er Barrinn nánast eins og draugabær, fáir á ferli og ekki nokkur maður á ströndinni. Á sumrin er erfitt að finna sér bílstæði, en í dag var það ekkert vandamál. Þó ekki sé fólk liggjandi á ströndinni láta karlarnir með stóru veiðistangirnar sig ekki vanta á hafnargarðinn, þeir eru iðnir við að dorga alla daga ársins.

 

DSC01074 Þessi hafnargarður er góður til gönguferða 900 metra langur og vinsæll staður fyrir fiskimenn.

DSC01077 Þarna voru alvöru fiskimenn á veiðum alveg við hafnargarðinn.

DSC01075 Þórunn að huga að myndavélinni.

DSC01079 Þessi bára hlýtur sömu örlög og allar þær sem á undan eru gengnar.

19 nóvember 2008

Jólaundirbúningur

Veður: 2,7/21,1° heiðskírt, en dálítil gola í dag.

Ég sló grasflötina í dag og mér finnst líklegt að þetta verði næst síðasti sláttur á þessu ári. Við hreinsuðum líka fallið lauf, því núna eru trén sem ekki eru sígræn að fella laufið.

clip_image002

Það er mikil hefð fyrir því hér í landi fyrir jólin að setja upp líkan af fjárhúsinu sem Jesús á að hafa fæðst í bæði á heimilum og oft úti á torgum. Í gær þegar við fórum í gróðrarstöðina tók ég mynd af þessum gripum sem þykja nauðsynlegir í fjárhúsið.

18 nóvember 2008

Mættur til leiks á ný.

Veður: -0,5/16,5° léttskýjað.

Nú er nokkuð um liðið síðan ég skrifaði síðast inn á heimasíðuna mína, ég tók mér frí því mér fannst ég hafa frekar lítið að skrifa um og nokkuð einhæft efni hjá mér. Það er víst eitthvert haltu mér slepptu mér sem togast á í okkur alla daga, því á meðan ég stundaði þessi skrif fannst mér á stundum að þau væru kvöð á mér, en eftir að ég hætti skrifunum hef ég oft saknað þeirra, svo nú tek ég þráðinn upp þar sem frá var horfið.

Það merkasta sem á dagana hefur drifið á þeim tíma síðan ég skrifaði síðast er að við fórum til Íslands þann 27. Sept og vorum þar til 23. Okt. Aðalerindið til Íslands auk þess að heilsa uppá ættingja og vini var að hafa tal af lækninum mínum. Sem betur fór var það viðtala og skoðun jákvæð fyrir mig.

Við höfðum sama einbýlishús ásamt bíl til afnota í Kópavogi og í fyrra og það verður seint hægt að þakka þá greiðasemi af eigendum hússins að lána okkur það til afnota.

Bankakreppan skall á meðan við vorum á Íslandi og við gengum á milli banka til að reyna að skrapa saman eitthvað af gjaldeyri til að eiga fyrir salti í grautinn þegar við kæmum heim. Okkur tókst að skrapa saman smávegis og vonum að gjaldeyrismálin komist í lag áður en langt um líður. Ég ætla alveg að sleppa því að segja mitt álit á hvers vegna ástandiðá Íslandi í dag er eins og það er, mér finnst vera nóg komið af skrifum hjá fólki sem er viturt eftir á og segir núna hvað hefði átt að gera eða ekki að gera til að forðast að svona færi. Það hlýtur að vera mest um vert að finna leið út úr þessum ógöngum sem fyrst og reyna að tryggja að þeir sem minnst mega sín verði ekki fyrir skerðingu.

Nú kemur sér vel að eiga garð og við vorum svo forsjál að setja niður kál áður en við fórum til Íslands og það erum við að borða núna og svo settum við líka niður kál þegar við komum heim, svo við ættum að eiga nóg af káli í vetur. Það má samt ekki skilja þessi skrif þannig að við lifum eingöngu á káli þessa dagana, ég er bara að segja frá þessari kálrækt til merkis um veðurfarið hér og möguleikann á að vera með eitthvað ferskt grænmeti allt árið. Í dag fórum við í gróðrarstöð til að kaupa blóm og fyrir valinu voru stjúpur, því þær eru mjög sáttar við vetrarveðrið hér.

DSC01065 Þórunn að velja blóm.

DSC01070 

Hér er verið að koma blómunum fyrir í beðinu.