31 ágúst 2007

Ferðalag

Veður: 13,7°/33,3° heiðskírt talsverður vindur í morgunn.
Veðurathugunarmaðurinn verður fjarverandi næstu einn eða tvo daga, en það er spáð sama veðri og í dag næstu daga svo þetta ætti ekki koma sök.
Vonandi verð ég eitthvað fróðari um mannlífið hér inni í landi í Portúgal eftir ferðalag sem við leggjum upp í með portúgölskum vinum okkar í fyrramálið. Þau eru fædd og uppalin á þessu svæði, svo það ætti vera fróðlegt skoða það undir þeirra leiðsögn.

30 ágúst 2007

Veður

Veður: 12,7°/33,5° heiðskírt, spánarvindur í morgunn.

29 ágúst 2007

Veður

Veður: 15,3°/28,5° úrkoma 2 mm. Orðið léttskýjað síðdegis.

28 ágúst 2007

Gamall hnakkur

Veður: 14,2°/27° skýjað og örfínn úði fyrst í morgunn.

Notuðum þetta þægilega veður í dag til að fara í langan hjólatúr, hjóluðum alls 35 Km. Á miðri leið settumst við inn á kaffihús til að fá okkur kaffisopa og brauðbita. Fyrir utan kaffihúsið var þetta reiðhjól sem er örugglega orðið nokkuð gamalt, hnakkurinn er allavega ólíkur þeim hnökkum sem notaðir eru í dag.














Þessi falllegi vatnspóstur er í bæ sem heitir Serenada. Einn af kostunum við að ferðast á reiðhjóli er að það er hægt að stöðva nær því hvar sem er og skoða vel það sem fyrir augu ber.

Posted by Picasa

27 ágúst 2007

Veður

Veður: 14°/36,5° skýjað í morgunsárið, en léttskýjað frá klukkan tíu.

26 ágúst 2007

Veður

Veður: 15,1°/32,5° úrkoma 3 mm. Síðla nætur gekk þrumuveður hér yfir. Ekkert vantaði upp á ljósadýrðina og hávaðnn sem fylgdi í kjölfarið, svo ég hélt að það myndi rigna hressilega, en eins og sjá má á úrkomumælingunni var þetta rétt rúmlega músarmiga, en samt betra en ekkert.

25 ágúst 2007

Veður

Veður: 21,8°/35° Léttskýjað fram á miðjan dag, en skýjað síðdegis.

Vale Maior

Tók þessar myndir af ValeMaior í gönguferðinni í morgunn. Á efri myndini sér yfir þann hluta þorpsins, sem nefnt er kirkjuhlutinn, því þar er aðalkirkjan staðsett, en auk hennar eru fimm kapellur í þessum littla bæ.













Hér sér aftur á móti yfir þann hluta bæjarins sem við búum í og nefnist St. Antonío. Húsið okkar er nálægt því að vera á miðri myndinni, en trén í garðinum eru orðin svo stór að þau skyggja alveg á húsið , en það sést í hvítan garðvegginn.

Posted by Picasa

24 ágúst 2007

Veður

Veður: 12,7°/35,6° léttskýjað

23 ágúst 2007

Veður

Veður: 12,9°/33,3° heiðskírt

22 ágúst 2007

Heyrnartæki

Veður. 9,2°/32,5° Léttskýjað.

Var duglegur að hjóla í dag, fór 37 Km.

Í gær fór dagurinn í að athuga með heyrnartæki hér í Portúgal, til að bera saman verð hér og á Íslandi og það sem kom mér verulega á óvart var að verðið á samskonar tæki hér er talsvert hærra en á Íslandi. Það tekur verkamann hér að minnsta kosti fjóra mánuði að vinna fyrir einu slíku tæki, þarna er ég að tala um Delta 8000 heyrnartæki, en þau eru fremur dýr, en eiga að vera mjög góð.
Ég var fyrst og fremst að kinna mér þessi mál hér upp á að fá þjónustu hér ef tækið bilar, en það er einfaldlega of mikill verðmunur til að það komi til greina að kaupa tækið hér.
Þegar ég var að panta tíma í heyrnarmælingu hjá Heyrnar og talmeinastöðinni var mér bent á að athuga hvort ekki væri hægt að fá tækið hér og nú er ég sem sé búinn að því og útkoman var sú að það kemur naumast til greina, maður verður bara að vona að tækið bili ekki

21 ágúst 2007

Veður

Veður: 10°/29,7° léttskýjað

20 ágúst 2007

Maís

Veður: 8,3°/29,2° heiðskírt.

Maísakurinn á myndinni hér fyrir neðan er hinu megin við götuna sem við búum í neint á móti húsinu okkar. Það er "stórbóndinn" í götunni okkar sem á þennan akur, ég segi stórbómdi því eins og sjá má á myndinni er hann þarna með sína eigin dráttarvél og kerru, en algengast hér er að fá dráttarvél til að plæga fyrir sig og vinna síðan allt annað með handafli. Það er um það bil hálfur mánuður síðan skorið var ofan af þessum maís og sá hluti þurrkaður. Nú eru maískólfarnir líka orðnir þurrir og þá eru þeir teknir, en það sem eftir er af plöntunni er ekki nýtt. Næsta skref er svo að fá vél til að losa maísinn af kólfunum og lokavinnslan er svo þegar maísinn er malaður, en margir hér eiga eigin kvarnir og mala kornið eftir hendinni.

Posted by Picasa

19 ágúst 2007

Jaguar

Veður. 8,6°/30,3° léttskýjað.

Þessi Jaguar var á ferð á götum Vale Maior í morgunn. Bíllin leit út eins og nýr, en er sjálfsagt langt frá því að teljast umhverfisvænn bíll.

Posted by Picasa

18 ágúst 2007

Gestir

Veður: 8,7°/28,1° þoka til hádegis, síðan léttskýjað.

Portúgölsk hjón sem við erum með í leikfimi hafa sýnt okkur mikinn vinskap og fóru meðal annars með okkur einn dag til a sýna okkur Porto, en þar bjuggu þau í nokkur ár og eru því vel kunnug borginni. Tvisvar sinnum hafa þau boðið okkur í mat og í seinna sinnið sem við vorum hjá þeim í mat var ákveðið að þau kæmu hingað í mat í kvöld, sem þau og gerðu. Um hádegi í dag hringdi konan og sagði að mágkona hennar og hennar maður væru í heimsókn hjá þeim svo þau gætu ekki komið í mat nema þau kæmu líka, mín kona var fljót að segja að það væri í góðu lagi að þau kæmu öll í mat til okkar.
Á mínútunni sjö voru þau svo mætt og komu færandi hendi egg, paprikur, baunir og pottablóm, það dugði ekki minna. Bæði þessi hjón eru þaðan sem kallað er á bak við fjöllin og Þar hafa eldri hjónin búið alla sína tíð, en þau eru orðin 75 ára, en eru hér á ferð til að vera viðstödd skírn. Þetta er reglulega elskulegt fólk, sem var mjög gaman að fá í heimsókn.
Á myndinni eru talið frá vinstri. Maria og Manúel, en þau búa á bak við fjöllin og þá eru það leikfimifélagar okkar þau Alcina og José.




17 ágúst 2007

Veður

Veður: 7,8°/32,3° léttskýjað

16 ágúst 2007

Gleymdu grjónin

Veður: 8,7°/27,7° léttskýjað, gola í allan dag.
Það var mjög gott veður til útivistar í dag, hæfilega heitt og létt gola, svo það var ákveðið að nota góða verðið og hjóla. Ákveðið að fara 35 km. hring. Það var allt svo ferskt eftir rigninguna í gær og góður ilmur af gróðrinum, en svo voru líka staðir á leiðinni sem höfðu miður góðan ilm, en það var þar sem gripahús eru nálægt veginum og það er nokkuð víða á þessari leið. Nú er maísinn að verða, eða orðinn þroskaður og þá eru margir sem skera ofan af plöntunni fyrir ofan maískólfana, til að þurrka og nota til fóðrunar á gripum sínum. Síðan eru kólfarnir látnir þorna á því sem eftir er af plöntunni áður en þeir eru teknir af henni. Maísplönturnar eru um tveggja metra háar og á hverri plöntu eru tveir kólfar.
Þetta falllega hús hér fyrir neðan var núið að vera í algjörri niðurníðslu í mörg ár, en fyrir tveim árum var það gert upp og byggt við það og gert að hóteli.



Um hádegið áttum við enn ófarna tólf kílómetra heim og þar sem við vorum þá stödd hjá lítilli krá í sveitaþorpi ákváðum við að athuga hvort ekki væri hægt að fá eitthvað í svanginn á kránni. Vertinn sagðis nú varla eiga neitt sem hægt væri að bjóða okkur, en lét samt tilleiðast að sýna okkur hvað hann hefði á boðstólum Það var um tvennt að velja,djúpsteiktann smáfisk og kjötsneiðar ásamt nýju brauði. Við létum slag standa og ákváðum að reyna hvernig þetta bragðaðist. Þórunn tók fiskinn til skoðunar,en ég valdi kjötið. Hvorutveggja bragðaðist mjög vel. Þegar kona vertsins kom með vatn á borðið til okkar spurðum við hana hvort hún ætti ekki eitthvertmeðlæti með matnum, nei sagði hún það er bara ekkert til með þessu nema þá salatblað, við sögðum henni að þetta væri í góðulagi, því brauðið var nýtt og ferskt. En viti menn skömmu síðar kemur okkar kona skælbrosandi með skál fulla af heitum grjónum ásamt grænum baunum og afsakaði sig að hafa ekki munað það áðan þegar við spurðum um meðlæti að hún átti þennan afgang frá því gærkvöldi.
Þetta varð sem sagt prýðismáltíð að lokum og ekki ver verið til ama 7,60 evrur allt saman, eða rúmar 600 Kr.
Myndina af barnum tók ég úr sæti mínu.

































15 ágúst 2007

Veður

Veður: 15,9°/24,3°, úrkoma 6 mm. Kærkomið þessa vætu. Þessi úrkoma féll í nóttt og fram til hádegis, en eftir kaffi var orðið léttskýjað.

14 ágúst 2007

Veður

Veður: 8,2°/29° að mestu skýjað, en sólarstundir um miðjan daginn.

13 ágúst 2007

16 ár í Portúgal

Veður: 12,4°/27,5° alskýjað fram yfir hádegi, en að mestu léttskýjað síðdegis.

Í dag eru sextán ár síðan ég flutti hingað til portúgals. Þegar ég lít til baka finnst mér þessi ár hafa liðið alveg ótrúlega hratt og ég er mjög ánægður með að hafa átt þess kost að fá að búa hér í landi, þó það hafi ekki allt gengið eins og ég hefði helst viljað, þá er ég samt mjög sáttur við dvölina hér þegar ég lít til baka. Ég er líka svo lánsamur að vera ekki þjakaður af ættjarðarást til Íslands, þó það land eigi sína góðu kosti eins og öll önnur lönd og ég naut þess sem landið hafði að bjóða á meðan ég dvaldi þar. Portúgal er mjög þægilegt land og hefur marga góða kosti að bjóða fyrir íbúa sína og nú nýt ég þeirra góðu kosta og er mjög sáttur við land og þjóð.

12 ágúst 2007

Römm er sú taug

Veður: 16,4°/27° að mestu skýjað í dag.

Römm er sú taug sem rekka dregur til foldar, þessi orð komu upp í huga minn í gærkvöldi þegar við hittum í boði ung hjón með tvöbörn sín. Þessi ungu hjón eru bæði fædd og uppalin í Luxemburg og búa þar og starfa. Foreldrar beggja eru Portúgalar sem starfað hafa í Luxemburg nær alla sína starfsævi og eru með atvinnurekstur þar. Foreldrar konunnar eru með veitingahús sem sérhæfir sig í steinasteikum. Faðir mannsins er málari og var með menn í vinnu, en sonurinn tók við fyrirtækinu fyrir fimmárum og er nú með tíu manns í vinnu, eingöngu Portúgala. Mér fannst mjög merkilegt að heyra að þau hjón telja sig vera Portúgala en ekki Luxemburgara, þó þau séu þar fædd og uppalin og hafi bara verið hér í fríum. Maðurinn sagði að af 420þús. Íbúum Luxemburg væru 80þús. Af Portúgölskum ættum og héldu sig mikið saman, t.d. sagði hann að í einum bæ væru 80% íbúanna Portúgalskir. Hann sagði að málakunnátta væri mjög mikil í Luxemborg og flestir töluðu að minnsta kosti fjögur tungumál. Dóttir þeirra sem verður fjögurra ára í október fer létt með að tala þrjú tungumál.









Málasnillingurinn

11 ágúst 2007

Veður

Veður: 14,5°/27,4° skýjað í morgunn,léttskýjað um miðjan daginn, en aftur skýjað í kvöld.

10 ágúst 2007

Brúin

Veður: 9,7°/33,8° heiðskírt.


Ég sagði frá því í nóvemberlok á síðasta ári að brúin á þjóðveginum til okkar hefði orðið fyrir skemmdum í flóði í ánni. þessar skemmdir voru svo miklar að það var lokað fyrir alla umferð um brúna og síðan höfum við og aðrir íbúar hér orðið að fara um mjög þröngar götur í þorpinu til að komast að heiman.

Nú loks rúmum átta mánuðum eftir að brúnni var lokað var mér sagt að það væri byrjað að gera við brúna, mér fannst þetta slík stórfrétt að ég ákvað að fara og líta þetta með eigin augum. Jú mikið rétt það voru komnir vinuskálar á veginn við brúna, sem var góð vísbending um að framkvæmdir væru hafnar við brúna. Því næst fór ég að brúnni til að sjá framkvæmdirnar og var búin að gera mér í hugarlund að þar gæfi að líta stórvirk verkfæri , en svo reyndist nú ekki vera. Það var ein smávél að verki á miðju brúargólfinu og einn maður að stjórna þeirri vél, en þar skammt frá voru sex menn á spjalli saman, sennilega að skipuleggja verkið, varla hafa þeir verið á kjaftatörn eða hvað.

Vonandi líða ekki aðrir átta mánuðir þar til umferð verður hleypt yfir brúna.

Læt fylgja með mynd af þessari fallegu brú, eins og hún lítur út eftir skemmdirnar sem urðu á henni.





09 ágúst 2007

Vaskur

Í dag keyptum við vask, sem eins og sjá má er búið að festa utan á bílskúrinvegginn sem snýr inn á veröndina. Það er til þæginda að geta þvegið sér um hendur þarna þegar verið er að vinna í garðinum.


Posted by Picasa

Sól og sjór

Veður : 9,1°/35,8° heiðskírt.
Það var mjög margt um manninn á ströndinni þegar við fórum þangað í góða veðrinu í dag, eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Ágústmánuður er aðalsumarleifismánuðurinn hér í landi, svo það er mikil umferð á öllum vegum, því margir eru á faraldsfæti.




Posted by Picasa

08 ágúst 2007

Veður

Veður: 12,2°/34,5° heiðskírt vindur frá því um miðja nótt og fram á morgunn.

07 ágúst 2007

Veður

Veður: 8,5°/30,6° léttskýjað

06 ágúst 2007

Veður

Veður: 15,8°/28,5° skýjað til hádegis léttskýjað síðdegis.

05 ágúst 2007

Heimsókn

Veður: 16,4°/27,9° skýjað í morgunn og aftur í kvöld, en sólarstundir um miðjan daginn.
Manúela vinkona okkar kom í heimsókn í dag og stoppaði lengi og hafði frá mörgu að segja, þó við skildum ekki nema helminginn af því sem hún var að tala um, þetta var samt reglulega ánægjuleg heimsókn eins og sjá má á meðfylgjandi mynd, þar sem þær vinkonur Manúela og Þórunn eru að spjalla saman.

Posted by Picasa

Ferðalag


















Með því að smella á "Nyndir" hér til hgri á síðunni er hægt að skoða fleirri myndir úr ferðalaginu.

Mathild grannkona okkar kom hér óvenju glaðbeitt einn daginn til að segja okkur að hún og Malli hennar væru að fara í ferðalag, en slíkt hendir nú ekki oft á þeim bæ, svo þetta var meiri háttar viðburður og eitthvað til að hlakka til.Ferðatilhögunin var að byrja átti að aka í rútu um 150 km að bæ upp með Duro ánni sem heitir Peso da Regua þar átti að stíga um borð í ferju og sigla með henni niður eftir Duro ánni til Porto nær 100 km. Þar átti aftur að fara i rútuna og hún átti að flytja hópinn á hótel í Mangualda og þar átti að gista eina nótt. Næsta dag var svo á dagskrá vörukynning og sala á hótelinu, en maður þarf ekkert að kaupa sagði Mathild og ég kaupi örugglega ekki neitt bætti hún við, en annað kom nú á daginn, enda kunni sölumaðurinn sitt fag. Síðast a dagskránni áður en halda skyldi heim á leið var svo að skoða víngerð þar sem Dao vínin eru framleidd. Allt þetta ferðalag kostaði 67,50 evrur á mann og þá var allt innifalið fullt fæði allan tímann, gisting og rútu og bátsferðir. Mathild vildi endilega að við kæmum með í þetta ferðalag, sem við gerðum og höfðum gaman af, einnig slógust Jónína og Guðmundur með í hópinn, en alls voru nær fjörutíu manns í hópnum.

Jónína og Guðmundur gistu hjá okkur nóttina fyrir ferðalagið, því það er tveggja tíma akstur frá heimili þeirra hingað og það átti að leggja af stað frá´kirkjunni hér í dalnum klukkan 9,15, svo við voru þrjú pör sem töltu saman með sína föggur að kirkjutorginu í sól og helst til miklum hita. Rútan mætti stundvíslega og við vorum lögð á stað í þessa miklu reisu klukkan 9,30. Leiðin að ferjustaðnum liggur um fjallendi og það er víða mjög falllegt á þessari leið sem við fórum, enda sést vel yfir úr þessum tveggja hæða bílum.

Á ferjustaðinn vorum við komin klukkan 11 og okkur var sagt að drífa okkur um borð því ferjan væri farin að bíða eftir okkur, svo við fengum engan tíma til að skoða bæinn sem við vorum komin í. Þarna sameinuðumst við fleiri hópum og alls held ég að það hafi verið um 150 manns um borð í ferjunni, sem er í raun og veru allt of margt fólk miðað við stærð bátsins. Það var svo stutt á milli borða að maður var alveg klemmdur að borðinu þegar setið var við það, en það voru borðaraðir meðfram hvorri hlið og gangur í miðjunni. Gluggar voru á báðum hliðum, svo það var gott útsýni þegar setið var við borðin. Fyrir ofan borðsalinn var svo dekk með bekkjum eftir endilöngu til beggja hliða, en það var fullheitt þennan dag til að vera lengi þar í einu gott að fara inn í loftkældan matsalinn af og til.

Það sást ekki mikil byggð á árbökkunum, því þeir eru víðast brattir og háir, en á stöku stað sást þá smáþorp og á nokkrum stöðum voru baðstrendur á árbakkanum. Klukkan eitt var borinn fram þríréttaður hádegisverður, súpa, aðalréttur og ábætir og drykkir að vild allan daginn. Ég dáðist mikið að þjónunum hvað þeir voru snöggir að afgreiða mat í allan þennan fjölda gesta í þessum miklu þrengslum sem þarna eru og erfið vinnuaðstaða.

Þegar ferðin með bátnum var hálfnuð þurfti að færa til tvö borð svo hægt væri að komast að lúgu í gólfinu til að ná í meira vín niður í lest.

Tvisvar á leiðinni niður ána þurfti báturinn að fara í skipastiga. Það er brú yfir ána þar sem skipastiginn er og þegar siglt var inn í hólfið var stutt upp í brúargólfið, en þegar búið var að hleypa vatninu úr hólfinu var orðið mjög hátt upp í brúargólfið. Það er undarlegt að vera í bátnum þegar hann sígur neðar og neðar í þessu hólfi.

Klukkustund áður en ferðinni lauk fengum við svo létta máltíð. Til Porto vorum við komin klukkan sex. Áhöfnin stillti sér upp á bryggjunni til að kveðja gesti sína. Já ég var nærri búinn að gleyma að geta þess að það var tónlistafólk með í ferðinni sem spilaði og söng fyrir gestina og nokkrir gesta reyndu meira að segja að stíga dans í þrengslunum.

Við landganginn beið svo stúlka til að vísa hópnum leiðina í rútuna á ný.

Eftir tveggja tíma akstur vorum við komin að hótelinu í Mangualda. Þetta er nýlegt og stórt hótel sem stendur í brekku hátt upp yfir þorpinu, svo það var mjög víðsýnt af svölunum í herberginu okkar. Bæði sást upp til stjörnufjalla, sem er hæsta fjall Portúgals og eins yfir Daodalinn. Sölumaðurinn t´k á móti hópnum við hótelið og benti fólki á að láta skrá sig inn og eftir að hafa farið í bað og komið sér fyrir á herbergjunum átti að mæta á bar hótelsins þar sem við vorum boðin velkomin og drukkið eitt staup í því tilefni. Þá var klukkan orðin níu og komið að kvöldverði. Þar var líka þriggja rétta máltíð, en ólíkt rýmra um okkur en á bátnum. Hótelið var reglulega vistlegt í alla staði. Eftir kvöldverð var leikin tónlist fyrir fólk ef það vildi stíga dans, en flestir kusu að fara að hvíla sig eftir langa og ánægjulega ferð. Mér fannst það svolítið skondið að það var borið fram vín með matnum og vatn eins og hver vildi, en það var tekið fram að ef okkur langaði í kaffibolla á eftir matnum þá yrðum við að borga hann sjálf.

Næsta morgunn var svo morgunverður klukkan hálfníu, en klukkan níu hófst svo sölusýningin. Við vorum búin að tala um það okkar á milli að þessir ferðafélagar okkar væru nú ekki líklegur markhópur til að selja, en við áttum eftir að komast að því að þar höfðum við rangt fyrir okkur, því fólkið keypti ótrúlega mikið. :arna var verið að selja potta, pönnur og annað til heimilisins, einnig einhver krem og töflur, auðvitað mjög heilnæmt og náttúrulegt.

Það voru líka stærri hlutir eins og nuddstólar og tæki til að taka raka úr loftinu inni í íbúðarhúsum. Nágrannar okkar glæptust á að kaupa eitt slíkt tæki, þó það væri mjög dýrt miðað við önnur sambærileg tæki sem eru á markaðnum, en sölumaðurinn var bara ótrúlega snjall. Honum tókst samt ekki að pranga neinu inn á okkur, það hefur ef til vill orðið okkur til bjargar hvað það er takmarkað sem við skiljum í portúgölskunni. Þetta er líka mjög lúmsk að ferð að bjóða fólki í flotta ferð með góðum mat og víni fyrir spott prís, þá finnst örugglega mörgum að þeir séu skyldugir til að kaupa eitthvað af manninum.

Þessi sölustarfsemi tók nærri fjóra tíma en að henni lokinni var síðasta máltíð ferðarinnar borðuð á hótelinu. Það var þriggja rétta máltíð ein og áður og sömu skilmálar vín eins og þú vilt, en borga fyrir kaffibolla. Eftir matinn fóru sumir gestanna gangandi að skoða kirkju sem er rétt við hótelið, en þegar því var lokið var komið að síðasta atriði ferðarinnar að skoða víngerð. Þessi víngerð er við bæinn sem við gistum í og framleiðir vín sem kennd eru við héraðið og nefnast Dao vín. Þetta er ný verksmiðja og mjög áhugavert að skoða hana undir leiðsögn. Að lokinni skoðuninni var komið við í vínbúð verksmiðjunnar og þar afhenti fararstjórinn hverjum og einum þátttakanda í ferðinni rauðvínsflösku að gjöf. Eftir að var lagt á stað heileiðis og að kirkjunni hér í dalnum vorum við komin aftur klukkan sex um kvöldið eftir tveggja daga ánægjulega ferð.

04 ágúst 2007

Veður

Veður: 13°/39,4° heiðskírt í dag, en í kvöld sáust nokkur hásý á lofti.

03 ágúst 2007

I K E A.

Veður: 14,5°/40,5° heiðskírt.
Eins og sjá má á hitatölunum var þokkalega heitt hér í dag, fullheitt til að vera útivið svo við ákváðum að fara til Porto og skoða IKEA verslun sem verið var að opma þar. Þetta er önnur verslun IKEA hér í landi, áður voru þeir með verslun í Lissabon. Þetta er gríðarlega stór verslun í Porto og til að hafa næga orku til að skoða hana byrjuðum við á því að koma við á veitingastaðnum hjá IKEA og fá okkur kjötbollur að hætti Svía og það brást ekki að þær brögðuðust mjög vel. Eftir matinn var svo lagt upp í gönguferð um verslunina og sú gönguferð tók rúma tvo tíma með einni kaffipásu.







Kjötbollurnar góðu







Hér eru almennilegar merkingar fyrir salernin.







Það var mjög margt fólk að fá sér að borða.







Mér fannst mjög falllegt loftið í anddyrinu
Posted by Picasa

02 ágúst 2007

Þríburablóm

Veður: 11,1°/33,3° léttskýjað.
Í morgunn þegar við vorum að hjóla okkur til heilsubótar sáum við þetta falllega þríburablóm við eitt húsið. Hinu megin við götuna var verið að gera klárt fyrir kirkjuhátíð um helgina, búið að reisa hljómsveitarpall og setja upp skreytingar við götuna.
Við erum búin að panta flug til Íslands þann 23. september, eins gott fyrir ættingja og vini að fara að dusta kuskið af rauða dreglinum áður en við lítum inn.














Posted by Picasa

01 ágúst 2007

Laukurinn kominn í hús

Veður: 15,1°30,5° þoka í morgunn og meira að segja félli tveir eða þrír regndropar, en bjartviðri síðdegis.
Nú er allur laukurinn kominn í hús.