30 júní 2008

Veður í júní.

Veður: 11,4/34,5° morgunþoka/léttskýjað.

Hér fyrir neðan eru niðurstöðutölur fyrir veðrið í júní´

Í efstu línu til vinstri er meðaltal lágmarkshita, því næst er meðaltal hámarkshita og því næst úrkoman sem var aðeins 14mm. Í miðlínunni er meðalhitinn og neðst er svo lægsti og hæsti hiti.

Júní veður

29 júní 2008

Óvissuferð

Veður: 11,9/35,1° morgunþoka/léttskýjað.

Hjónin í Frosos buðu okkur með sér og fjölskyldunni í skógarferð í dag. Þetta var eiginlega dálítið eins og óvissuferð fyrir okkur, því við vissum lítið meira en að það ætti að vera í skugga trjáa fyrir sólinni og að skógurinn væri í nágrenni við bæ sem heitir Vagos og er í um það bil 20Km. fjarlægð héðan. Við höfðum áður komið á útivistarsvæði í nágrenni Vagos, þar sem eru stór tré og venjulegur skógarbotn og við töldum að þangað væri förinni heitið í dag, en svo var ekki. Okkur var sagt að mæta í Frosos klukkan tíu sem við og gerðum. Þar kom húsmóðirin til dyra og settist inn í bílinn hjá okkur og vísaði veginn að kirkju bæjarins, þar sem við þurftum að bíða smástund eftir að messu lyki og bóndinn væri tilbúin til að koma með okkur, en hann syngur í kirkjukórnum. Það kom í ljós að aðrir úr fjölskyldunni fóru fyrr um morguninn með mat og annan búnað til að tryggja sér pláss á góðum stað. Þau hjón vísuðu svo veginn á staðinn á leiðarenda kom í ljós að þetta er útivistarsvæði við kirkju og síðar um daginn átti að vera guðþjónusta fyrir prófastdæmið. Slík samkoma er einu sinni á ári, síðustu helgina í júní. Kirkjukórarnir frá öllum kirkjunum syngja saman og ég heyrði þegar söngstjórinn var að æfa þá rétt áður en guðþjónustan byrjaði og það þurfti að endurtaka hale lú ja mjög oft áður en rétta tóninum var náð og getur verið að svo hafi verið með fleiri atriði,en þetta var það sem ég heyrði á minni göngu um svæðið. Þarna er góð aðstaða til útiveru sléttar og fínar grasflatir og borð og bekkir í skugga trjánna til afnota fyrir fólk. Það þarf auðvitað ekki að taka það fram að þarna var að hætti Portúgala verið með allt of mikinn mat á boðstólum. Tengdasonur hjónanna sem búinn er að vera í Englandi er kominn með þá sýn á hve mikið er borið fram við svona tækifæri „afgangurinn verður að vera nægur fyrir fjölskylduna að minnsta kosti í eina viku, annað er nánasarlegt“, sagði hann. Þórunn bjó til ostaköku, sem við lögðum á borð með okkur og þó hún líkaði vel að þá eigum við afgang en aðeins í einn eða tvo daga, svo við eigum margt ólært hér.

2008-06-29 Vagos 023 Tengdasonurinn við grillið.

2008-06-29 Vagos 015 Góð aðstaða til að borða.

2008-06-29 Vagos 035 Ekki auðvelt að ná rétta tóninum í hal e lú ja.

 

28 júní 2008

Veður

Veður: 13/38,9° léttskýjað

27 júní 2008

Veður

Veður: 11,8/38,9° léttskýjað.

26 júní 2008

Hafgola

Veður: 12,7/35,3 léttskýjað.

Eins og sjá má á hitatölunum hér fyrir ofan er orðið vel hlýtt um miðjan daginn og ef eitthvað á að gera í garðinum er best að drífa það að morgni til eða á kvöldin. Það er oft mikill munur á hita hér í dalnum og niður við strönd, það sannreyndum við í dag. Þegar við fórum héðan var hitinn vel yfir 30°, en þegar við komum niður á strönd var bara 22° hiti og talsverð hafgola. Þessi hiti var í það minnsta fyrir mig svo við röltum aðallega um götur sem voru í skjóli fyrir hafgolunni. Það var líka fremur fátt fólk á ströndinni.

2008-06-26 Toreira 002 Ekki þrengsli á þessari strönd

25 júní 2008

Veður

Veður: 9,7°/33,4° léttskýjað

24 júní 2008

Rétt skal vera rétt.

Veður: 16,7°/29,3° léttskýjað.

Baðvogin okkar, sem er talandi, því ég sé ekki tölurnar sem birtast á skjánum hefur undanfarið verið að koma sér í mjúkinn hjá okkur með því að segja lægri tölu en okkur hefur fundist eðlilegt. Þórunn hefur verið hörð á því að þetta stæðist ekki, því fötin hennar segðu annað. Talandi baðvog gátum við hvergi fundið hér í verslunum, svo það var farið á netið og í dag kom ný vog í húsið alla leið frá Austurríki. Því miður reyndist grunur okkar um að sú gamla væri ekki alveg með fullum fimm vera á rökum reystur, því þessi nýja sýnir þá´vigt sem við héldum að ætti að vera. Nýja vigtin talar mjög skírt og það þíðir ekkert að þykjast ekki heyra almennilega það sem hún segir, því hún endurtekur tölurnar þrisvar sinnum auk þess sem skjárinn er með mjög stórum og skírum stöfum. Það verður fróðlegt að heyra tuðið í vigtinni í fyrramálið, við vorum búin að ákveða að fara út að borða á morgunn og því verður ekki breytt hvað sem vigtin segir.

Vog Sú er ekki að reyna að koma sér í mjúkinn hjá manni þessi vog.

23 júní 2008

Veður

Veður: 15,3°/23,4° alskýjað og örfáir súldardropar.

22 júní 2008

Matarboð/Leiksýning.

Veður: 15,9°/30,8° skýjað fram yfir hádegi, en orðið heiðskírt um klukkan þrjú.

Í dag vorum við boðin í mat til vinahjóna okkar úr leikfiminni, en þau búa í bæ sem heitir Frosos . Þarna var stórfjölskyldan mætt í mat ásamt okkur og hjónum sem tengd eru tengdasyni hjónanna sem buðu okkur í mat. Stórfjölskyldan var stærri núna en í firri boðum, því dóttir hjónanna og tengdasonur ásamt tveggja ára dóttur eru flutt heim til Portúgals eftir þriggja hálfs árs veru í Englandi. Þau höfðu mun hærri laun í Englandi en hér og sögðust hafa getað lagt fyrir 2000 evrur á mánuði og þegar þau voru búin að safna það miklu að þau gætu keypt sér hús hér fluttu þau hingað á ný. Þau reikna með að geta flutt í húsið í haust, en þau keyptu lítið hús sem þau eru búin að endurbyggja og stækka. Þau sýndu okkur húsið, sem hentar þeim mjög vel og er ekki brjálæðislega stórt eins og mörg ný hús hér. Gestgjafar okkar eiga líka tvo syni, sem báðir bjuggu hjá foreldrunum síðast þegar við vorum þarna í boði, því þeim sem hafði verið í sambúð hafði verið skilað aftur, en það var bara tímabundið, sennilega svona hvíldarinnlögn, allavega búa þau saman núna.

2008-06-22 Frosos 004 Þórunn ásamt ungu hjónunum við nýja húsið þeirra..

Síðdegis fórum við svo að kirkjunni hér í dalnum, því þar var Joana vinkona okkar þátttakandi í einskonar skólaslitum á vetrarstarfi kirkjunnar. Það var komið fyrir leiksviði og bekkjum á bílaplani við kirkjuna og þar tróðu krakkarnir upp með ýmiss skemmtiatriði.

2008-06-22 Frosos 005 Áhorfendur og sér aðeins í leiksviðið lengst til hægri.

2008-06-22 Frosos 008 Atriði á sviðinu.

 

21 júní 2008

Veður

Veður: 13,5°/32,9°. Það er fastur liður núna þessa síðustu daga að byrja daginn með morgunþoku, sem sólin er búin að fjarlægja um tíuleitið og eftir það er heiður himinn.

20 júní 2008

´Bætist í leikfangasafnið.

Veður: 14,1°/32,7° þoka í lofti fyrst í morgunn, en síðan léttskýjað.

Nú er ég búinn að fá nýtt leikfang, sem mig hefur lengi dreymt um að eignast, en hefur verið neðarlega á forgangslistanum. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga fyrir veðurfari og veðurspám og upp á síðkastið hef ég haldið dagbók yfir veðurfarið hér í Austurkoti. Nú sem sé lét ég verða af því að kaupa veðurstöð sem gerir mér kleift að fá nánari og nákvæmari upplýsingar um veðrið hér og færa það beint inn í tölvuna, þar sem gögnin eru aðgengileg hvenær sem er. Þarna er síriti fyrir hita og rakastig úti og inni, vindur, vindhraði og vindátt, loftþrýstingur og ótal matg sem áhugavert er fyrir veðurvita að kanna.

Veður 20. Einn af möguleikunum til að skoða í tölvunni.

2008-06-18 Veðurstöð 008 Innistöðin

2008-06-18 Veðurstöð 002 Vindmælirinn.

 

19 júní 2008

19.júní.

Veður: 5,1°/31,9° heiðskírt.

Það er merkilegt til þess að hugsa að enn í dag skuli vera til kvenréttindadagur og full þörf á honum sem slíkum, því enn er mikið misrétti við líði. Það er okkur strákunum til háborinnar skammar að það skuli vera þörf á svona áminningu enn í dag. Að sjálfsögðu héldum við daginn hátíðlegan með því að fara út að borða og því til sönnunar er hér mynd af Þórunni við matardiskinn.

2008-06-19 19 001

 

18 júní 2008

Veður

Veður: 8,3°/28° Þoka í lofti framundir hádegi, en léttskýjað síðdegis.

17 júní 2008

Veður

Veður: 11°/28,8° léttskýjað.

16 júní 2008

Horteinsíur

Veður: 16,5°/24,1° úrkoma 12 mm. Regnskúrir og sól til skiptis fram undir kaffi, en þá náði sólin yfirhöndinni.

Það kannast örugglega margir við horteinsíu sem pottablóm, en hér fær hún að vaxa úti og þá verður hún risastór. Því til sönnunar set ég með þessum pistli tvær myndir sem ég tók í dag af horteinsíunum í garðinum okkar.

2008-06-16 Hortensía 003 2008-06-16 Hortensía 004

 

15 júní 2008

Veður

Veður: 12,6°/20,1° úrkoma 1 mm. alskýjað og súld af og til eftir hádegi.

14 júní 2008

Gerðist það í gær?

Veður: 10,4°/29,2° léttskýjað.

Eins og gerst hafi í gær, var kveðið í dægurlagatexta hér í denn, Þetta textabrot kemur oft upp í huga minn og meðal annars í dag þegar við Þórunn minntumst þess að í dag eru átta ár síðan hún flutti hingað í Austurkot. Mér finnst við hafa átt svo góða daga saman hér og þá finnst manni tíminn líða svo hratt að ósjálfrátt dettur manni í hug að það geti varla staðist að árin séu svona mörg, en þegar litið er á dagatalið blasa staðreyndirnar við.

13 júní 2008

St. Antónío.

Veður: 12,3°/31,1° léttskýjað

13. júní er dagur heilags Antoníusar og þar sem þessi bæjarhluti heitir í höfuðið á þeim dýrlingi þá er haldin guðþjónusta í kapellunni sem heitir í höfuðið á honum. Að lokinni guðþjónustunni, sem hefst klukkan sjö síðdegis er farið í skrúðgöngu með líkneski af Antonío og Maríu um 200 metra leið að barnaskólanum og aftur að kapellunni. Á leiðinni eru kyrjaðar Maríubænir og sungnir sálmar. Gatan sem gengið er eftir er stráð blómum. Þegar kirkjuathöfninni er lokið koma börnin í leik og barnaskólanum í skrúðgöngu frá skólanum að kirkjunni við undirleik hljómsveitar. Það er engin hætta á að hljómsveitin ruglist í hvaða lag á að spila, því það er aðeins leikið eitt lag, sem er endurtekið í sífellu og þannig er það á hverju ári, hver sem hljómsveitin er.

2008-06-13 St.Antómíó 026 Hér eru þau Antónío og María á blómumskrýddum börum, sem þau voru borin á í skrðúðgöngunni. Þau fá bara að fara þessa einu ferð á hverju ári.

2008-06-13 St.Antómíó 006 Blóm á götunni.

2008-06-13 St.Antómíó 011 Hér er María í sinni árlegu reisu.

2008-06-13 St.Antómíó 017 Skólabörnin á leið sinni frá skólanum að kapellunni. Það voru saumaðir nýjir búningar á þau öll í ár.

 

 

 

 

12 júní 2008

Veður

Veður: 15,4°/31,8° léttskýjað.

11 júní 2008

Pálmar.

Veður: 31,9°/13,3° léttskýjað.

Verkefni morgunsins var að fjarlægja greinar af pálmunum, en það geri ég tvisvar til þrisvar sinnum á ári og þá tíu til tuttugu neðstu greinarnar hverju sinni. Pálmarnir eru dálítið sérstæð tré, því þeir koma með nýjar greinar inn í miðju, en svo loka þeir fyrir næringu í neðstu greinarnar og þá fúna þær mjög fljótt og detta þá af, en mér finnst svo ljótt að hafa visnað greinar að ég fjarlægi þær fljótlega eftir að þær fara að visna, en endinn sem er fjærst stofninum visnar fyrst.

2008-06-11 001 Pálmarnir eftir snyrtinguna.

Í dag buðum við nágrönnum okkar þeim Mathild og Manúel út að borða á veitingastað sem býður upp á hlaðborð í hádeginum með ódýrum og góðum mat. Þau hafa sig aldrei í að gera neitt líkt þessu til að fá tilbreytingu í hversdaginn, svo við ákváðum að kynna þeim þennan möguleika og þau voru mjög ánægð með þessa ferð og líkaði maturinn reglulega vel. Á eftir matinn var svo farið í búðarrölt, svona til að skoða, en lítið var verslað.

2008-06-11 Pálmar 001 Setið að snæðingi.

10 júní 2008

Mósaíkk

Veður: 10,5°/32° léttskýjað.

Í morgunn klippti ég hekkin í garðinum. Síðdegis ætluðum við að koma pakka í póst, en sáum þá að pósthúsið og allar verslanir voru lokaðar, svo það er á hreinu að við fylgjumst ekki með hvenær eru frídagar hér, þegar við spurðum svo innfædda hverju þetta sætti að allt væri lokað kom í ljós að aþð er þjóhátíðardagur hér í dag, einn af þrem slíkum hér á hverju ári.

Nú hefur Þórunn lokið við mósaíkkið á vegginn hér á veröndinni og af því tilefni set ég inn myndir af henni að vinna að verkinu.

2008-06-05 Veggur 001 - Copy (2) Hér er þórunn að líma flísarnar.

2008-06-08 Verklok 003 Hér er hún að leggja síðustu hönd á verkið.

2008-06-08 Verklok 001 - Copy (2) Tvær af myndunum.

09 júní 2008

Þrif/óþrif

Veður: 10,2°/32° léttskýjað.

Það rann upp fyrir mér í morgunn þegar ég var að þrífa bílaplanið okkar með háþrýstiþvottavél og það spýttust á mig óhreinindi að það er oft talsverð óþrifavinna að þrífa hjá sér og gera fínt. En nú er sem sé búið að sementsþvo bílaplanið, svo það lítur vel út og ég er líka þveginn og strokinn eftir að hafa farið í bað að loknum þrifunum á planinu.

08 júní 2008

Veður

Veður: 10,4°/30,6° léttskýjað.

07 júní 2008

Morgunstund gefur.............

Veður: 8,1°/31,2° léttskýjað.

Eins og ráða má af hitatölunum hér fyrir ofan er nú orðið notalega hlýtt hér um miðjan daginn og því eins gott að vera ekkert að drolla inni á morgnana, ef það er ætlunin að vinna úti við. Þar af leiðandi vorum við komin út til vinnu klukkan hálfníu í morgunn, Þórunn til að vinna við mósaíkkið á vegginn og ég til að ljúka við að mála vegginn í kring um garðinn.

06 júní 2008

veður

Veður: 10,7°/29,8° léttskýjað.

05 júní 2008

Málning

Veður: 8°/26,6° þoka í lofti fyrst í morgunn og meira að segja örfáir regndropar, en orðið léttskýjað um hádegi.

Það mjakast áfram hjá mér að mála vegginn í kring um garðinn hjá okkur og í dag lauk ég við að mála hann að innanverðu, en enn á ég nokkuð ómálað að utanverðu. Ég nota kalk á hluta veggjarins að innanverðu því hann er svo ósléttur sumstaðar. Þeir sem ráða veðrinu hér reyndu að taka mig á taugum í morgunn, því þegar ég var að ljúka við að kalka vegginn kom smávegis þokuúði, en sem betur fer var það svo lítið að það sakaði ekki.

2008-06-05 Veggur 003 Veggurinn nýmálaður, það verður nú að hafa falllega umgerð um rósirnar.

04 júní 2008

Veður

Veður: 14,2°/22,3° þoka í lofti fram að kaffi, en þá birti til.

03 júní 2008

Veður

Veður: 6,4°/27,5° léttskýjað.

02 júní 2008

Kínverski múrinn.

Veður: 7,6°/25,7° Léttskýjað fyrst í morgunn, síðan kom stutt tímabil með þunnri þokuslæðu á himni og síðdegis á ný léttskýjað.

Þegar ég var í skóla hér í þá eldgömlu daga sem flestir eru löngu búnir að gleyma, en samt sem áður man ég enn þegar ég las um kínverska múrinn og kennarinn útlistaði að hann væri svo stór að hann sæist meira að segja utan úr geimnum, þetta fundust mér vera undur og stórmerki. Þessu skaut upp í hug mér í dag þegar ég var að mála múrinn í kring um lóðina okkar , sá múr stenst auðvitað ekki samjöfnuð við kínverska múrinn, en sést samt utan úr geimnum eins og sagt var um þann Kínverska forðum daga. En að þessi litli múr hér skuli greinast á myndum utan úr geimnum segir mikið um framfarir í tækni að það skuli vera hægt að greina svona lítinn vegg á Google earth. Ég læt fylgja hér með eina mynd sem ég tók á jörðu niðri til að sýna hvernig múrinn var látinn sveigja eftir götunni, þegar hann var byggður fyrir meira en eitt hundrað árum.

2008-06-02 Múr 001

01 júní 2008

Veður

Veður: 13,9°/25,3° hálfskýjað.