26 júlí 2006

Rétta bragðið

Veður: 15,1°/29,7° Þoka í lofti framan af degi en síðan léttskýjað.

Við Þórunn drifum okkur í góðan hjólatúr í morgunn. Það var svo þægilegt veðrið, alveg hæfilega heitt til að hjóla. Við hjóluðum inn með Vouga ánni, það er svo margt fallegt sem ber fyrir augu á þeirri leið. Þetta er 25 Km. ferðalag.
Síðdegis fórum við svo niður að strönd, samt ekki til að sóla okkur á ströndinni að þessu sinni, eða fá okkur gönguferð eins og við gerum svo oft. Nei nú var erindið að koma við í verslun sem er með kínverskar smávörur og við köllum daglega Kínabúðirnar. Það er orðið mikið af þessum verslunum hér í portúgal og eru alveg búnar að útrýma svona smávörubúðum sem Portúgalir voru með.
Fyrir nokkru keypti ég hjá þeim tösku utan um gleraugun mín og myndavélina, en sú taska reyndist heldur lítil, en í dag fundum við aðra sem er hæfilega stór fyrir þessa hluti og mjög létt og þægileg.
Næst héldum við svo í stærri verslun til að kaupa meðal annars rúsínur og sveskjur. Svo ótrúlegt sem það nú er þá fæst slíkur varningur ekki nema í einni búð í þessari stóru borg sem Aveiro er. Bara fyrir jól og páska er þetta til í flestum verslunum.
Við keyptum líka hlut sem ekkert heimili getur án verið, semsagt nýja skúringarfötu. Ástæðan fyrir því að það vantaði skúringafötu er sú að fatan sem búin var að gegna sínu hlutverki af stakri trúmennsku í mörg ár var fengið annað hlutver og gott ef hún hækkaði bara ekki í metorðastiganum við þessa breytingu. Nú sem sagt þjónar hún sem hlíf utan um skynjarann frá hitamælinum hér úti í garði. Ég valdi litinn á nýju fötunni, þannig að ég ætti auðvelt með að koma auga á hana, ekki í neinum felulit.
Þórunn sá í þessari verslun tæki sem henni hefur lengi fundist vanta hér á heimilið, en það er gamaldags kartöflupressa. Það var nú einhvern tíman til svoleiðis tæki hér í eldhúsinu, en ég henti því fyrir nokkrum árum, því mér fannst mun þægilegra að nota rafknúna matvinnsluvél til að búa til kartöflumús. Þórunni fynnst eitthvað vanta upp á rétta bragðið af músinni ef notuðr eru nýmóðins tæki við að búa hana til. Ég hlakka til að fá að bragða kartöflumús með þessu eia rétta bragði. Nammi namm.

Engin ummæli: